Hafi kannski bara opið næst

Þegar veira fór á stjá brugðust yfirvöld víðast hvar við með örvæntingu og hófu að hlaupa um eins og hauslausar hænur. Almenningur var skelfingu lostinn og lét selja sér hvað sem er, meira að segja þegar nokkrir mánuðir af veiru höfðu kortlagt rækilega hverjir væru í áhættuhópum og hvað væri til ráða til að verja líkama sinn gegn því að veikjast alvarlega.

Yfirvöld lokuðu fyrirtækjum og lofuðu styrkjum en veita svo ekki. Þau létu fólk ganga með grímur sem áttu að verja gegn smitum og því að smita aðra en gerðu ekki. Þau létu skólakrakka dúsa heima hjá sér og unglinga rotna lifandi í einveru og fjarnámi, og íslenskir unglingar virðast hafa verið duglegir að láta segja sér fyrir verkum með tilheyrandi, fyrirsjáanlegu afleiðingum.

En gott og vel, þetta er búið núna ekki satt? Næsta mál?

Ónei. Mikið af hinum nýstárlegu kínversku tilraunum hafa nú verið innleiddar í ýmsa sáttmála og jafnvel löggjöf. Fordæmislausir tímar hafa búið til fordæmi og við næstu örvæntingu verður kippt í alla spottana á ný: Fyrirtækjum lokað og lofað styrkjum en fá ekki, einvera og brottfall barna og unglinga úr skóla og íþróttum, takmarkanir við landamæri og ýmislegt fleira.

Ég legg til að þegar yfirvöld reyna eitthvað svipað aftur að þá hlýði fólk ekki eins og sauðir á leið til slátrunar. Borgaraleg óhlýðni virkar ef hún er nógu útbreidd. Það er ekki hægt að sekta alla endalaust. Veitingastaðir ættu að hafa opið. Líkamsræktirnar sömuleiðis. Grímulaus andlit eins mikið og mögulegt er því einhvern tímann þreytast þeir sem atast í grímulausum á að skipta sér af. Sjálfur hef ég ekki tölu á því hvað ég hef verið beðinn oft um að vera með grímu og það verður auðveldara og auðveldara að svara slíku fjasi með brosi. 

Það átti að útrýma loftborinni veiru með einangrun fólks, grímum og nýstárlegum lyfjum. Það tókst ekki. Hjarðónæmið er hins vegar okkar náttúrulegi varnarmúr, gefið auðvitað að hann fái að byggjast upp. Munum það næst.


mbl.is Ósáttir við synjun á veitingastyrk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Skítt þegar skattstjóri miðar styrkjagreiðslur við uppgefnar tekjur tímabils samkvæmt skattaframtali, vsk skýrslum og uppgefnum launagreiðslum en hundsar og tekur ekkert mark á "hinu" bókhaldinu. Fúlt þegar innkoman minnkar niður í uppgefna innkomu og engar bætur fást.

Óskiljanlegt þegar menn telja aðgerðir til takmörkunar smita óþarfar vegna þess að skaðinn var minnstur þar sem aðgerðir til takmörkunar smita voru hvað mestar. Undarlegt að einhver skuli telja smitvarnir sem ekki veita 100% vörn í 100% tilfella gagnslausar.

Vagn (IP-tala skráð) 19.5.2022 kl. 23:48

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Vagn,

Hver sagði gagnslausar? Auðvitað "virkar", frá þröngum sjónarhól veirusmitvarna, að banna börnum að hittast í skóla. En það hefur líka margar, alvarlegar óbeinar afleiðingar eins og sífellt fleiri rannsóknir eru að leiða í ljós en mátti kalla augljóst frá upphafi.

Vinnubrögð skattsins eru ekki bara einföld rýni á gögnum, um það hafa komið dæmi í fjölmiðlum.

Geir Ágústsson, 20.5.2022 kl. 06:07

3 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Hvernig er hægt að láta sér detta í hug að staðhæfa "skaðinn varð minnstur þar sem aðgerðir til takmörkunar smita voru hvað mestar" þegar það er orðið lýðum ljóst að þetta er öfugt?

Þorsteinn Siglaugsson, 20.5.2022 kl. 17:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband