Varaði enginn manninn við?

„Ég er í mjög miklu áfalli og á sama tíma mjög ringlaður,“ segir Alan Talib, teppasölumaður. Auglýsingar hans á teppum eru að mati Neytendastofu villandi og var honum bannað að auglýsa áfram með sama hætti.

Greinilega varaði enginn Alan Talib við Neytendastofu og hann kannski talið að margir neytendur væru góð tíðindi. Einhver ætti að upplýsa hann um valdheimildir Neytendastofu til að skerða málfrelsið. Fyrirtæki siga Neytendastofu óhikað á samkeppnisaðila sína, t.d. þegar þeir nota lýsingarorð í efstastigi. Á Íslandi er enginn ódýrastur, bestur, með mesta úrvalið eða býður bestu þjónustuna. Nei, allir eru bara nokkurn veginn svipaðir og samkeppnisaðilarnir. 

Þetta verndar auðvitað íslenska neytendur á Íslandi fyrir sjálfum sér en því miður getur Neytendastofa ekki varið þá þegar þeir koma til Danmerkur og sjá þar fullt af auglýsingum þar sem boðað er lægsta verðið. Eitt fyrirtæki heitir meira að segja „við erum ódýrastir“ (vi-er-billigst). Hjálp, Neytendastofa!

Eins og skerðing málfrelsins sé ekki nógu slæm þá fer báknið hér fram með offorsi, eða með orðum teppasölumannsins:

„Viðbrögðin hafa verið rosaleg, harkaleg, eins og ég sé búinn að vera að ljúga. Hvernig hef ég verið að ljúga? Setjist allavega niður með mér og leyfið mér að útskýra mál mitt. Ég get sýnt ykkur myndbönd, ég get sýnt ykkur hluti. Þau vildu ekki funda með mér,“ segir Alan.

Einnig:

„Upprunalegt verð er löggilt vátryggingargildi vörunnar. Hverju teppi fylgir verðmatsvottorð sem gefið er út af löglegum teppamatsmanni.“ og „COVID-19 og alþjóðlegar refsiaðgerðir gegn Íran hafa haft slæm áhrif á framboð okkar, heildsölu, viðskiptavini og sjóðsstreymi.“

Alan segir að hann hefði auðveldlega getað sannað fullyrðingarnar ef Neytendastofa hefði gefið honum færi á því og að annað útskýri sig sjálft.

Þetta er alls ekki í fyrsta skipti sem báknið á Íslandi sýnir klær sínar um leið og það svarar ekki í símann. Ég þekki mann sem þurfti hreinlega að loka búð meðal annars eftir að hafa lent á milli tveggja stofnana sem gátu ekki orðið sammála. Hér er annað dæmi um fyrirtæki sem báknið er að blóðmjólka til dauða og á sennilega við um töluvert fleiri (áhersla mín):

Framkvæmdastjórinn bætir við að það sé ýmislegt annað sem hamli. Margt í kerfinu sé afar íþyngjandi fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki og geti reynst hálfgerður myllusteinn um háls þeirra. Dæmi um slíkt er kostnaðurinn sem fylgi því að fá sérfræðing til að taka félagið út í tengslum við jafnlaunavottun.

„Annað dæmi er að bráðum verðum við skylduð til að láta upplýsingar um næringargildi fylgja öllum okkar vörum. Það stefnir allt í að við þurfum að finna næringarfræðing til að reikna það út fyrir okkur. Manni finnst stundum eins og verið sé að reyna skapa störf fyrir aðra," segir Hafliði.

Báknið fer sínu fram. Veirutímar hafa svo sannarlega kennt okkur þetta en þeir eru bara toppurinn á ísjakanum. Að ætla sér að tæma lager af teppum á Íslandi með stórkostlegum afslætti frá listaverði og verðmatsvottorði er enginn hægðarleikur. Báknið ræður.


mbl.is Í áfalli yfir sektinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er ekki bannað að nota lýsingarorð í efstastigi. Á Íslandi má auglýsa ódýrastur, bestur, með mesta úrvalið eða býður bestu þjónustuna. En það verður þá að vera satt. Teppasölumaðurinn auglýsti afslátt, en það var af einhverju tilbúnu verði eða mati sem hann hafði ekki selt teppin á áður. Teppin voru því á upprunalegu verði og ekki á útsölu. Greinilega varaði enginn teppasölumanninn við því að tekið væri á augljósum lygum og blekkingum.

Teppasölumaðurinn hefur síðustu árin stofnað nokkur skammlíf teppasölufyrirtæki á norðurlöndunum, Kanada, Bretlandi og víðar. Þar selur hann teppin á "útsölu" vegna einhverra vandræða. Og það er breytilegt eftir árum hver vandræðin eru.

Vagn (IP-tala skráð) 19.10.2021 kl. 09:49

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Þú segir að maðurinn hafi stofnað skammlíf teppasölufyrirtæki en um leið að hann hafi ekki selt teppin áður. Hvort er það?

Segja íslensk lög sem skilyrða notkun á orðinu "útsala" að sala á hærra verði hafi þurft að fara fram á Íslandi áður en má lækka það og kalla útsölu?

Annars getur vel verið að allt sé þetta eitt stórt svindl og margir Íslendingar ekki lesið íslenskar reglugerðir áður en þeir reiddu fé af hendi og kræktu sér í teppi. En hér er Neytendastofa ekki að skoða neitt. Hún er í málfarslögguleiknum.

Geir Ágústsson, 19.10.2021 kl. 13:17

3 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

"There's no defence against the arbitrary" sagði einhver.

Okkur vantar öflugri svartan markað.  Að taka Lech Valesa á þetta.

Ásgrímur Hartmannsson, 19.10.2021 kl. 16:06

4 Smámynd: Geir Ágústsson

Ásgrímur,

Nei, hjálpi mér! Hvað ætlar Íslendingur að gera á svörtum markaði án Neytendastofu? Einhver gæti kallað "ódýrast" og tæmir þar með veski Íslendingsins. 

Nei, ekki hleypa Íslendingum á neina svarta markaði og hvað þá til útlanda, fjarri verndarvæng Neytendastofu.

Geir Ágústsson, 19.10.2021 kl. 17:47

5 Smámynd: Theódór Norðkvist

Heyrði oft þessa auglýsingu í útvarpinu:

Blomsterberg saengar. [Treoligen] baest peo saengar i Skeone.

Í fyrstu var orðið Troligen ekki með, sennilega út af þessari reglu að ekki mætti segja neitt vera best.

PS Stafsetningin er röng, en að ásettu ráði, til að endurspegla skánska framburðinn og að sérsænskir stafir eins og a með bollu eða tveimur punktum koma brenglaðir út í ævafornu bloggkerfi Moggabloggsins.

Held það allavega, prófa hér: Skåne. Sängar.

Theódór Norðkvist, 19.10.2021 kl. 18:30

6 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Fyrirtæki njóta hvorki málfrelsis né annarra mannréttinda.

Aðeins "menn" (fólk af holdi og blóði) geta notið mannréttinda.

Ákvörðun Neytendastofu felur því ekki í sér skerðingu málfrelsis.

Guðmundur Ásgeirsson, 20.10.2021 kl. 22:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband