Miðvikudagur, 24. júní 2020
Fólk og vindmyllur
Fleiri og fleiri aðilar á Íslandi eru að skoða þann kost að reista vindorkuver. Að einhverju leyti er það skiljanlegt. Vindmyllurnar eru orðnar sæmilega öflugar og kannski byrjaðar að fást á góðum kjörum. Á Íslandi blæs oft vel.
Að vísu þurfa vindmyllur mikið viðhald og brotna stundum í spað, jafnvel með alvarlegum afleiðingum. Þær eiga það líka til að rota fugla, sérstaklega þá stærri, enda leitar bráð þeirra í skjól undir vindmyllunum sem um leið dregur að sér fuglana. Framleiðsla þeirra er líka hráefnaþyrst, og þegar hráefnin koma frá Kína á náttúran það til að deyja.
En gott og vel, eru vindmyllur ekki eftir sem áður góð hugmynd?
Nei, segir fólk sem spurt hvort það vilji vindmyllu í nærumhverfi sitt.
Fólk nennir ekki að horfa á vindmyllur né heyra í þeim. Ég var að vinna að verkefni hérna í Danmörku þar sem menn lögðu mikið á sig til að þurfa ekki að höggva nokkur tré sem hefði þar með opnað á útsýni á vindmyllur úr glugga dansks bónda. Bóndinn lagði fram skriflegar kvartanir til að trén fengju að standa. Nei takk við útsýni á vindmyllur!
Ég þekki annan sem réði sig í þróunarverkefni hjá vindmylluframleiðanda sem snérist um að minnka hljóðmengun frá þeim. Já, menn segja að þær séu hljóðlátar þar til þær eru reistar í bakgarði þínum.
Á Íslandi eru frekar fáar vindmyllur en menn mótmæla engu að síður áformum um að reisa slíkar með dramatískum hætti. Það er því ekki skrýtið að viðhorfskannanir séu nú að verða fastur liður í slíkum áformum.
Það hljómar kannski vel að láta vindinn framleiða orkuna en það nennir enginn að horfa á þær hvað sem öðru líður.
![]() |
Kanna viðhorf íbúa til nýtingar vindorku |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mánudagur, 22. júní 2020
Þegar yfirvöld standa í vegi fyrir nýsköpun
Hið opinbera stendur á mörgum stöðum í vegi fyrir nýsköpun.
Til dæmis eru settar margar hömlur á nýsköpun í fyrirtækjarekstri. Fyrirtæki stækka ekki bara og minnka. Stundum sameinast þau eða eru klofin upp. Sameining fyrirtækja ætti að vera sjálfsagt mál en þess í stað þarft slíkt að hljóta blessun yfirvalda. Oft fæst þessi blessun ekki eða fæst gegn allskyns hamlandi skilyrðum. Þetta heitir að standa í vegi fyrir nýsköpun.
Skattgreiðslur á hagnað fyrirtækja hamla nýsköpun. Fé sem að hluta hefði farið í nýsköpun er í staðinn sent í ríkissjóð. Þetta heitir að standa í vegi fyrir nýsköpun.
Allskyns löggjöf kæfir nýsköpun í fæðingu. Augljóst dæmi er rekstur leigubíla. Nýjar lausnir í slíku eru beint eða óbeint bannaðar. Þetta heitir að standa í vegi fyrir nýsköpun.
En auðvitað er gaman fyrir stjórnmálamenn að setja á stofn sjóði sem bjóða skattfé til fyrirtækja sem flest fara á hausinn. Þá er jú verið að styðja við nýsköpun og blaðamenn koma hlaupandi til að taka myndir.
![]() |
Sigríður og Sigurður létu sig ekki vanta |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sunnudagur, 21. júní 2020
Aðferðir til að skera sig úr í stjórnmálum
Stjórnmálamenn eða tilvonandi stjórnmálamenn geta leitað í margar áttir eftir hugmyndum til að skera sig úr og fá athygli, verðskuldaða eða ekki.
Samgöngumál eru hérna frjósamur akur. Í þeim má stinga upp á endalausum leiðum sem snúast aðallega um að hægja á fjölskyldubílnum og sóa tíma fólks í umferðinni eða við biðskýli í roki og rigningu.
Það má til dæmis stinga upp á því að setja þriggja stafa milljarðaupphæð í að byggja lestarteina og setja á það lestarvagna.
Menn eru nú þegar að vinna að áætlunum um að setja risastóra strætisvagna á umferðargötur og ýta fjölskyldubílnum inn á færri akreinar.
Einhverjir hafa líka stungið upp sporvagninum, gamla góða. En auðvitað með nýju nafni, léttlestir.
Og strætóskýlin eiga helst að liggja þannig að strætisvagninn stöðvi umferðina þegar hann dvelur við þau. Ekki veit ég hvaðan sú hugmynd kom, a.m.k. ekki frá Kaupmannahöfn.
Ekki má byggja fleiri mislæg gatnamót til að greiða leið umferðarinnar. Nei, það á að leggja fleiri hjólastíga. Ekki má losa um reglugerðarfrumskóginn í kringum leigubílaakstur og hleypa framsæknum aðilum inn á þann markað sem gætu stuðlað að því að fleiri hætti hreinlega að nenna eiga bíl því það borgar sig ekki, hvorki í tíma né fé.
Ég vil því leggja til að yfirvöld skoði alvarlega kosti þess að ýta undir notkun hestvagna. Þeir menga ekki, geta nýst á öllum tegundum vega, tryggja að farþegar fái mikið af fersku lofti og er tiltölulega ódýrt að setja í fjöldaframleiðslu sem getur notast við umhverfisvænt timbur.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 06:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Fimmtudagur, 18. júní 2020
Gróðavon í sérhverri vitleysu
Íslendingar eru duglegir uppfinningamenn og kunna oft að nýta sér breytilegar aðstæður til að skapa verðmæti.
Að sjálfsögðu er þessi koltvísýringsótti tækifæri fyrir suma. Sú ranghugmynd að styrkur koltvísýrings í andrúmsloftinu sé afgerandi fyrir þróun hitastigs lofthjúpsins er orðin að risastórri peningakistu sem skattgreiðendur, hluthafar og neytendur eru látnir hella stórfé ofan í.
Í því felast svo auðvitað tækifæri fyrir snjalla uppfinningamenn. Það er ákveðinn plástur á sárið í tilfelli Íslendinga. Eftir að vera neyddir til að moka milljörðum í orkusnauð íblöndunarefni í bensín og olíu, vera rændir stórfé í gegnum útblástursskatta og borga svimandi fjárhæðir í allskyns umhverfisgjöld er gott að sjá einhver merki um að það megi ná fé til baka, t.d. með því að selja tækni til útlendinga.
Vonandi gengur CarbFix sem best áður en mesta taugaveiklunin gengur yfir.
![]() |
BBC fjallar um íslensku gaströllin |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mánudagur, 15. júní 2020
Litla-Rússland
Ég legg til að menn byrji nú að kalla Reykjavík Litla-Rússland. Það er margt sameiginlegt með stjórnarháttum Rússa og þeim í ráðhúsi Reykjavíkur.
Í báðum tilvikum nota menn stærð sína til að svína á litlu nágrönnunum. Rússar leika sér að því að loka fyrir gasleiðslur sínar á meðan Reykjavík lokar götum án samráðs til að knýja áfram eigin stefnumál.
Í báðum tilvikum gætu litlu nágrannarnir haft gagn af leiðum til að forðast kúgun stóra nágrannans. Í Austur-Evrópu eru menn að tengja sig við gasframleiðslu Norðursjávar (með hinni svokölluðu Baltic Pipe). Á Seltjarnarnesi hljóta menn að vera hugleiða nýjar vegtengingar til að forðast miðbæ Reykjavíkur.
Í báðum tilvikum langar þeim stóra að stækka enn meira. Rússar hirtu svolítinn skika af Úkraínu fyrir ekki svo löngu og komust upp með það, og þar á bæ eru menn sennilega að skoða frekari landvinninga. Í Reykjavík dreymir menn um skattgreiðendur Garðabæjar og Kópavogs og jafnvel Seltjarnarness og Mosfellsbæjar til að auka enn möguleika sína til að safna skuldum, reisa hallir og greiða leið vel valdra verktaka. Um leið verður lengra og erfiðara að flýja krumlur ráðhússins.
Er þá ekki samþykkt að kalla Reykjavík héðan í frá Litla-Rússland?
![]() |
Seltirningar í vörn í samgöngumálum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Föstudagur, 12. júní 2020
Þegiðu, fatlafól!
Frægur er texti Megas um fatlafólið sem ók í veg fyrir valtara og varð að klessu, ojbara. Núna er kannski kominn tími á nýjan texta í svipuðum dúr. Hér er hugmynd:
Ég þekkti einu sinni fatlafól
sem flakkaði um á hjólastól
með bros á vör en berjandi þó lóminn.
Hann reyndi að komast í miðbæinn,
en komst ekkert með hjólastólinn,
Þeir læst ann inn í mál og menning
slökktu ljósin, sögðu að lokum; þegiðu fatlafól!
Fatlafól, fatlafól,
hérna er bara pláss fyrir miðbæjargól,
Lundabúðir, kaffihús
og starfsmenn ríkis sem drekka bús.
Þeir læst ann inn í mál og menning
slökktu ljósin, sögðu að lokum; þegiðu fatlafól!
![]() |
Sjálfsbjörg ósátt við stefnu borgarinnar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 9. júní 2020
Núna eru allir rasistar
Eru ekki allir rasistar núna?
Þú þarft bara að detta hænuskref frá hinni réttu línu og, voila!, þú ert rasisti! Eða fasisti!
Kannski eru allir þá bara rasistar og hugtakið gjaldfellt niður í ekkert.
Í mínum gamla grunnskóla varstu uppnefndur hommi við minnsta tilefni. Ég veit ekki hvaða sálfræðilegu áhrif það hafði en ég veit ekki til þess að neinn af minni kynslóð (fæddur 1978) hafi neitt á móti því að fólk af sama kyni giftist, ættleiði og þannig, á meðan það er ábyrgt. Sem sagt, uppfylli sömu skilyrði til lífsins og allt mögulegt annað fólk.
En gott og vel, höldum áfram að gjaldfella hugtök. Það gagnast engum en er í tísku.
Hommar.
![]() |
Sakar Pétur um rasisma og kvenfyrirlitningu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Laugardagur, 6. júní 2020
Í kjölfar fordæmaleysis er komið fordæmi
Við erum að fara í gegnum fordæmalausa tíma, eða svo er okkur sagt. Hvers vegna? Jú, af því óþekkt veira fór á stjá og leysti úr læðingi aðgerðir og úrræði sem tóku svo á samfélagið að það mun seint jafna sig. Ríkisstjórnir víða um heim hafa hoppað upp á hvítan hest og bjargað samfélaginu frá veiru gegn því að taka sér tímabundið töluverð völd í hendur. Búið er að knésetja mörg fyrirtæki, hleypa opinberum skuldum í himinhæðir og setja heilu atvinnugreinarnar í öndunarvél.
En þetta voru hinir fordæmalausu tímar. Hvað er framundan?
Ef marka má tungutak ýmissa þrýstihópa taka við tímar byggðir á fordæmi hinna ford[æ]malausu tíma. Sem dæmi má taka Landvernd. Þar á bæ réðu menn Gallup til að biðja fólk um að taka afstöðu til eftirfarandi fullyrðingar: Ríkisstjórn Íslands ætti að taka áskorunum Íslands vegna loftslagsbreytinga jafn alvarlega og áskorunum vegna COVID-19.
Undir þetta tóku 61% af þeim sem svöruðu. Landvernd fagnaði og lét framkvæmdastjóri samtakanna eftir sér að ríkisstjórnin geti nú fylgt eftir yfirlýsingum sínum um 40 prósenta samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda fyrir 2030 af fullum krafti.
Því hún gat það ekki áður þrátt fyrir yfirlýsingagleðina af einhverjum ástæðum, eða svo virðist vera.
Kannski af því ferðafrelsi, tortryggni gagnvart ríkisvaldinu og almennur vilji fólks til að ráða sínu lífi flæktist of mikið fyrir.
Kannski af því að nú er komið fordæmi fyrir varanlega auknum ríkisafskiptum og takmörkunum á samfélaginu.
Kannski af því að nú er lýðurinn orðinn svo skelkaður að það má láta kné fylgja kviði mótspyrnulaust.
Stjórnmálamenn og þrýstihópar láta aldrei gott neyðarástand fara til spillis. Fordæmalausum tímum á að fylgja eftir með fordæmi þeirra tíma.
Þessi grein birtist áður í Morgunblaðinu, 6. júní 2020, og er aðgengileg áskrifendum blaðsins hér.
Miðvikudagur, 3. júní 2020
Það þarf tvo til að eiga samtal
Bryndís Sigurðardóttir, smitsjúkdómalæknir á Landspítalanum, hefur tjáð efasemdir sínar um nálgun yfirvalda og ráðgjafa þeirra á opnun landsins. Það er gott. Ekki endilega af því hún hefur rangt eða rétt fyrir sér heldur af því það þarf tvo til að eiga samtal.
Íslendingar og fleiri lögðu mikið á sig til að fylgja leiðbeiningum yfirvalda til að verjast óþekktri veiru. Nú hafa gögn hins vegar hrannast upp og þau eiga að nýtast til að taka upplýstari ákvarðanir. Ýtrustu varúðarráðstafanir í ljósi algjörrar óvissu voru kannski réttlætanlegar en þau rök eiga ekki við lengur. Upplýstar ákvarðanir byggðar á opinskárri umræðu þar sem kostir og gallar eru vegnir saman er sú nálgun sem stefna ber að.
Við vitum miklu meira núna en fyrir nokkrum vikum. Á ekki að draga neinn ávinning af því? Eða á öll nálgun yfirvalda að snúast um að blása í tímabundið orðspor embættis- og stjórnmálamanna á kostnað lifibrauðs almennings?
![]() |
Hópskimanir ekki rétta leiðin |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 2. júní 2020
Veisla hjá stjórnlyndum
Stjórnvöld á Íslandi ættu að taka loftslagsbreytingum jafn alvarlega og áskorunum vegna COVID-19 að mati 61 prósents landsmanna, samkvæmt nýrri könnun Gallup fyrir Landvernd, segir í frétt Fréttablaðsins.
En sú klikkun!
Spurningin notaði orðalagi "jafn alvarlega" (sic) um COVID og loftslagsbreytingar. Hvað gerðu stjórnvöld til að hægja á útbreiðslu COVID, sem var tekin mjög alvarlega?
- Drápu flugsamgöngur
- Drápu ferðamannaiðnaðinn
- Þurrkuðu út fjöldann allan af fyrirtækjum
- Framleiddu atvinnuleysi
- Skuldsettu ríkissjóð
- Sendu heilbrigt fólk í sóttkví
- Komu í veg fyrir að heilbrigt fólk gæti fengið vírus og komist yfir hana
... og svona mætti lengi telja.
Er mikill meirihluti landsmanna hlynntur því að gera eitthvað svipað, vegna loftslagsbreytinga!? Eða hvað þýðir að taka eitthvað tvennt "jafnalvarlega"?
Ég væri aðeins minna hissa ef landsmenn væru á því að stjórnvöld ættu að gera meira af einhverju og minna af öðru, eða settu eitthvað á dagskrá og þess háttar, en ef stjórnvöld eiga að taka loftslagsbreytingar "jafnalvarlega" og COVID þá er ekkert gott í vændum.
En þetta sýnir auðvitað að ótti margra hefur ræst: Með því að komast upp með að loka á hitt og þetta og þenja út inngrip stjórnvalda í samfélag og hagkerfi er búið að setja hættulegt fordæmi. Það má vel vera að menn hafi undanfarnar vikur talað um fordæmalausa tíma en nú er fordæmið kannski orðið til. Næsta hrina ríkisafskipta verður því ekki fordæmalaus heldur rúllar mótspyrnulaust yfir 61% Íslendinga sem vilja að stjórnvöld taki veðurspánna "jafnalvarlega" og óþekkta veiru. Græningjarnir hafa fengið blóðbragð í munninn - nú skal hugðarefni þeirra þröngvað á samfélagið með notkun ríkisvaldsins! COVID sýndi jú gott fordæmi!
Klikkun!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)