Bloggfærslur mánaðarins, júní 2017

Samkeppni sveitarfélaga

Úr frétt mbl.is:

Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs, segir mögulegt að íbúar bæjarins verði orðnir um 50 þúsund árið 2030, ef áætlanir ganga eftir. Íbúar Kópavogs eru nú rúmlega 35 þúsund og fer fjölgunin nærri íbúafjölda Akureyrar. ... Hann seg­ir bæ­inn hafa aukið þjón­ustu en lækkað skatta.

Hérna sjáum við sveitarfélag með metnað. Sveitarstjórnin sýnir að það er hægt að gera allt í senn:

  • Lækka skatta
  • Auka þjónustu
  • Fjölga íbúum (með tilheyrandi kostnaði við innviðauppbyggingu)

Ég held að það ættu allir að fagna því að höfuðborgarsvæðinu er skipt upp í mörg sveitarfélög. Því fleiri því betra! Það neyðir þau til að stunda einskonar samkeppni um íbúana. Fólk þarf ekki að flytja á milli landsfjórðunga og langt frá vinum og ættingjum til að losna úr sveitarfélagi eins og staðan er víða úti á landi. Nei, það er nóg að keyra í 10 mínútur til að komast í annað sveitarfélag sem býður upp á betri þjónustu, lægri skatta og möguleika til að stofna heimili.

Samkeppni Kópavogs við Reykjavík er auðveld. Það ætti ekki að vera mikill vandi að tappa eins og 10-20 þúsund manns af Reykjavík. Þar er allt á hvolfi í rekstrinum. Hafnarfjörður hefur líka tekið sig á undanfarin ár, og Garðabær og Seltjarnarnes og Mosfellsbær eru öll á réttri leið. 

Það er íbúum höfuðborgarsvæðisins til happs að þurfa ekki að vera undir stjórn vinstrimannanna í Reykjavík. Megi sveitarfélögin halda áfram að vera sem flest! Samkeppni á milli þeirra er af hinu góða. 


mbl.is Liður í að fjölga íbúum í 50 þúsund
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hinn lokaði dómaraklúbbur

Mikið hefur verið rætt og skrifað um dómaraval undanfarið. Mér virðist umræðan skiptast í tvö sjónarhorn:

- Dómarar einir eiga að ráða því hverjir geta orðið dómarar

- Kjörnir fulltrúar geta komið að því hverjir veljist sem dómarar

Nú á að hefja lögsókn gegn ríkinu, þar sem dómarar eiga að finna rétta túlkun á lögunum. Ætli þeir muni komast að þeirri niðurstöðu að þeir sjálfir eiga að ráða því hverjir geti orðið dómarar eða munu þeir túlka lögin þannig að þeirra eigin völd eru minni en ella?

Persónulega finnst mér að dómarastéttin þurfi aðhald eins og aðrar stéttir og að kjörnir fulltrúar eigi að fá að veita það aðhald. Senn kemur í ljós  hvort lagaumhverfið leyfi slíkt eða ekki.


mbl.is Jóhannes höfðar mál gegn ríkinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðskilnaður ríkis og banka mikilvægur

Sumir hafa lengi þulið upp að aðskilnaður viðskiptabanka- og fjárfestingabanka sé einhvers konar lausn á öllum heimsins vandamálum, a.m.k. þeim er tengjast fjármálakerfinu. Sumir segja að vandræði bankakerfisins hafi byrjað þegar hin svokallaða Glass-Steagall löggjöf var afnumin með undirskrift þáverandi forseta Bill Clinton. 

Svo einfalt er málið ekki.

Það er enn einfaldara.

Vandamál fjármálakerfisins eiga rót sína í starfsemi seðlabanka og ríkiseinokunar á peningaútgáfu. Þessum ríkisafskiptum fylgir heill frumskógur af lögum og reglum sem eiga að koma í veg fyrir að spilaborg hins opinbera hrynji. Um leið er innistæðueigendum sagt að þeir þurfi ekki að veita bönkum sínum neitt aðhald - allar innistæður eru jú tryggðar, af hinu opinbera! Risastórir múrar eru reistir fyrir þá sem vilja stofna til samkeppnisreksturs við stóru bankana. Bara það að fylgja lögunum kostar fúlgur fjár þótt ekki sé einu sinni búið að opna fyrir viðskiptavinum. 

Þetta skrímsli þarf að aflífa. Ríkið á ekki að prenta peninga frekar en bækur og ekki að ákveða vaxtastig frekar en verð á nærfötum. Stjórnmálamenn eiga ekki að skipta sér af framleiðslu peninga frekar en bifreiða. Það þarf að aðskilja ríkisvaldið og efnahaginn. Ef það á að vera ríkisvald á annað borð þá á það að halda sig við fyrirfram skilgreind verkefni sem eru fjármögnuð með hóflegri og gegnsærri skattheimtu. Peningaframleiðslan er bara önnur leið til að féfletta fólk á föstum tekjum og þá sem voga sér að leggja fyrir til framtíðar. Slíka rányrkju þarf að stöðva.

Kæru ráðherrar og þingmenn, leggið niður Seðlabanka Íslands. Það bað enginn um þessa ófreskju og það mun enginn sakna hennar nema þeir sem nota hana til að auðgast án þess að framleiða varning eða þjónustu í staðinn. 


mbl.is Allt annað bankaumhverfi en 2008
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svona hefði geta farið fyrir Íslandi

Þegar Icesave-krafa Breta og Hollendinga vofði yfir Íslendingum og skuldir vegna hruns fjármálakerfisins virtust óyfirstíganlegar reyndu margir að lokka Íslendinga inn í Evrópusambandið. Þar væri jú öllum hjálpað og allir stæðu saman!

Annað hefur heldur betur komið á daginn. Evrópusambandið beitir þrýstingi og pólitísku afli til að knýja smæstu meðlimi sína til hlýðni. 

Í Púertó Ríkó hefur óráðsía í opinberum fjármálum lengi verið reglan frekar en undantekningin. Núna ráða menn ekki við skuldirnar og vilja frekar missa völd en standa í baráttunni lengur.

Þetta minnir á mikilvægi þess að hið opinbera greiði niður skuldir sínar. Of miklar skuldir geta hreinlega ógnað sjálfstæði ríkja. Það er því gott að núverandi ríkisstjórn leggi áherslu á að hreinsa upp skuldirnar.

Margir vilja að Ísland verði 29. ríki sambandsríkisins Evrópusambandsins. Megi svo aldrei verða!


mbl.is Kusu að verða 51. ríki Bandaríkjanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einkabíllinn og almenningssamgöngur

Ráðvillt borgaryfirvöld leita nú leiða til að þrýsta fólki út úr einkabílnum og inn í strætó. Það er vonlaust barátta. Íslenskt veðurfar er slæmt, byggðin er dreifð (af góðum ástæðum - fólk vill pláss) og fólk vill sveigjanleika.

Bílaeign Íslendinga er ekki bölvun heldur blessun. Þökk sé henni geta flestar fjölskyldur spjarað sig sjálfar. Þær geta verslað inn fyrir alla vikuna í einu og bæði komist í matvöruverslun og áfengisverslun án þess að skipta um strætó eða rogast með þunga innkaupapoka á milli bygginga (ef áfengið væri selt í sömu verslunum og matvaran myndi þetta vandamál auðvitað leysast af sjálfu sér). 

Fólk getur skutlað börnum sínum á æfingar eða sótt þau á leikskólann með viðkomu í búð á heimleiðinni.

Fólk kemst í frí út á land og getur notið náttúrunnar eða heimsótt ættingja.

Fólk kemst sjálft til læknis eða á sjúkrahús nema eitthvað mjög alvarlegt sé að.

Fólk getur boðið öldruðum ættingjum með í bíltúr eða sótt það í fjölskylduviðburðinn.

Bíllinn er hið mesta þarfaþing og óþarfi að agnúast út í hann.

Það er hins vegar ákveðið plássleysi í gangi á vegum eins og annars staðar. Það væri líka plássleysi á klippistofum, í kvikmyndahúsum og flugvélum ef ekki væri fyrir ákveðnar leiðir til að dreifa álaginu.

Þessar leiðir eru: Tímapöntun og verð.

Tímapantanir raða viðskiptavinum þannig upp að allir komist að þótt ekki fái allir fyrsta valrétt á tíma.

Verðlag er notað til að flokka fólk eftir ákafa að komast inn eða njóta ákveðinnar þjónustu á ákveðnum tíma. 

Í gatnakerfinu er hins vegar hvorki hægt að panta tíma né aðgangsstýra með verðlagi.

Allir sem borga himinháa bifreiðaskatta og stjarnfræðileg eldsneytisgjöld hafa sama rétt til að nota vegakerfið og allir aðrir.

Kemur það þá einhverjum á óvart að vegirnir eru troðfullir tvisvar á dag af bílum þar sem einn eða tveir einstaklingar eru í hverri bifreið og þar sem mörg hundruð manns eru á leið á sama svæði?

Stjórnmálamenn kunna engin ráð sem duga. Þeir halda að það dugi að þröngva fólki inn í almenningsvagna. Ég þekki dæmi um konu sem býr í Breiðholti en vinnur í Árbæjarhverfi, en þessi hverfi liggja hlið við hlið. Hún þyrfti að eyða 45 mínútum í strætó og labba yfir 500 metra til að komast í vinnuna á morgnana. Skiljanlega velur hún að keyra í 10 mínútur í staðinn. 

Það er ekki hægt að hanna strætókerfi sem hentar öllum jafnvel þótt auðvitað megi alltaf dæla fé í fleiri vagna og vona það besta.

Lausnin er ekki sú að byggja enn eitt samgöngukerfið ofan á hið gamla, t.d. þessa svokallaða Borgarlínu. Í hana fara bara milljarðar sem verða dregnir út úr viðhaldi vega og rekstri strætisvagna. Vasar skattgreiðenda dýpka ekki þótt stjórnmálamenn vilji eyða meira fé úr vösum þeirra.

Það sem þarf að gera er að afnema hindranir á rekstur leigubíla og létta kröfur á rekstur hópferðabíla. Það þarf líka að hætta skattlagningu í þágu vegakerfisins og rukka í staðinn fyrir raunverulega notkun þar sem verðið fer eftir tíma dags og leið sem er valin. Og það þarf að hætta að innheimta skatta til að reka almenningssamgöngur.

Um leið yrði til markaður. Einkaaðilar færu að bjóða upp á hópferðir sem endurspegla raunverulegar þarfir. Fólk gæti t.d. pantað sér far frá Grafarvogi og niður á Lækjartorg með komutíma kl. 7:45 á virkum dögum. Hópferðarbíll safnar svo upp öllum farþegum með svipaðar þarfir - frá dyrum þeirra - og keyrir á áfangastað. Heimleiðin færi fram með svipuðum hætti. Þetta er tæknilega auðvelt. Það þarf bara að fjarlægja hindranir á slíkum rekstri.

Helst ættu einkaaðilar líka að reka vegina. Þeir gætu þá keppt í aðgengi og öryggi og verðlagt vegakerfið rétt með tilliti til viðhaldskostnaðar. Opinber miðstýring á vegakerfinu leiðir til sóunar og vanmats á raunverulegum þörfum vegfarenda.

Það er til nóg af vegum og óþarfi að hlaða fleiri kerfum ofan á núverandi vegakerfi. 

Stjórnmálamenn þurfa að geta sleppt tökunum. Að þeir geti það ekki er stærsta vandamál vegakerfisins. 


Hvað næst? Neðanjarðarlest?

Þegar einhver yfirvöld lýsa yfir ætlun sinni að fara út í gríðarlega stórar framkvæmdir sem enginn hefur efni á má ganga út frá því að þau séu með allt niður um sig og vantar eitthvað til að dreifa athyglinni.

Bílaeign Íslendinga er ekki vandamál heldur tækifæri. Fólk getur skottast, keypt inn, sótt börn á æfingar og heimsótt ömmu um helgar. Flestir skila sér sjálfir á sjúkrahúsið og komast í vinnuna í vonskuveðrum. 

Vandamálið er aðallega það að flestir vilja keyra um sömu götur á sama tíma. 

Hvað gera einkafyrirtæki í slíkri aðstöðu?

Tökum kvikmyndahús sem dæmi.

Flestir vilja sjá nýjustu myndina á föstudags- eða laugardagskvöldi í stærsta salnum. Miðinn á slíka sýningu kostar því mest. Fæstir vilja fara á myndina á þriðjudagssíðdegi. Miðinn kostar því minna þar. 

Hið sama gildir um flug. Bestu sætin á vinsælustu leiðirnar á besta tímanum kosta meira en verri miðar á verri tímum til síður vinsælla áfangastaða. 

Er alveg óhugsandi að læra nokkuð af þessu?

Eða jú, stjórnmálamenn eru vitaskuld alltaf tilbúnir að rukka meira. Ekki er nóg með að ökumenn borgi himinhá eldsneytisgjöld og himinháa skatta af bílum sínum, og virðisaukaskatt af þessu öllu saman, heldur á líka að rukka þá um veggjöld á leiðum til og frá höfuðborgarsvæðinu. Þessu má líkja við að gestir kvikmyndahúsa borgi þrisvar fyrir sama miðann. 

Borgarlína er leið til að breiða yfir mörg vandamál. Föllum ekki fyrir bragðinu!


mbl.is Borgarlínan mun kosta 63-70 milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eftirspurn án framboðs = ríkisafskipti

Þegar komið er auga á eftirspurn en ekkert er framboðið má telja víst að ríkisafskipti séu að verki.

Væri markaðslögmálunum leyft að ráða væri að sjálfsögðu búið að mæta allri hugsanlegri eftirspurn. Líklega myndi hún í upphafi kosta meira en niðurgreidd, opinber þjónusta en á móti kemur þá væri sú þjónusta til staðar. Vel borgandi viðskiptavinir myndu laða að sér fjöldann allan af einkaaðilum sem kæmu hlaupandi til að veita allt sem vantar. Peningarnir rynnu í leiðir til að auka enn framboðið. Samkeppnisaðilar kæmu aðvífandi til að krækja í bita af kökunni. Þar með yrði til samkeppni sem hefði áhrif á verðlagið - það þrýstist niður. Til lengri tíma myndu einkaaðilar byggja upp dreifi- og sölukerfi sem væri aldrei í klessu, sama hvernig viðrar, til að tryggja sér varanlegar rekstrartekjur. Einkaaðilar fá jú ekki borgað nema hafa eitthvað að selja, annað en opinber rekstur.  

Þegar menn sjá óuppfyllta eftirspurn blasir við að haldið er aftur af einkaaðilum. 


mbl.is Uppistöðulónið orðið söndug auðn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Baráttan byrjar á heimavelli hryðjuverkamanna

Það hefur væntanlega ekki farið framhjá neinum að næstum því öll hryðjuverk á Vesturlöndum undanfarin ár eru framin af fólki sem á rætur að rekja til Miðausturlanda. 

Vonandi átta margir sig líka á því að margir hafa fallið í árásum vestrænna ríkja í Miðausturlöndum. Miklu, miklu fleiri en hafa fallið í hryðjuverkaárásum á Vesturlöndunum sjálfum.

Slíkar árásir réttlæta ekki málstað hryðjuverkamanna, en þær auðvelda þeim að manna sig og fjármagna. 

Vesturlönd eiga að draga alla sína hermenn út úr Miðausturlöndum hið fyrsta og taka upp frjálsa verslun við þau í staðinn. Olían er nánast það eina sem Miðausturlönd hafa upp á að bjóða og hún er fallin í verði enda er framboð af olíu frá öðrum heimshlutum orðið töluvert.

Hið lága olíuverð hefur nú þegar sett fjármögnun miðausturlenskra hryðjuverkamanna í ákveðið uppnám. Það er gott. 

Áður en olían fór að streyma frá Miðausturlöndum var það svæði svo að segja merkingarlaust fyrir umheiminn. Þar tókust á einhverjir ættbálkar sem skiptust á að kúga hvern annan en svipaða sögu má segja af Afríku. Svona var staðan í Suðaustur-Asíu áður en það svæði tengdi sig við umheiminn, tók upp frjálsari verslun, auðgaðist með viðskiptum og gátu af sér millistétt sem hafði þrek og fjármagn til að heimta frjálsara stjórnarfar.

Það er gott að ákveðin arabaríki séu nú byrjuð að beita önnur slík þrýstingi til að þau láti af stuðningi við hryðjuverkasamtök, ýmist beinan eða óbeinan. Baráttan byrjar á heimavelli. Að loka landamærum til Vesturlanda dugir skammt og má líkja við að berjast við einkennin en ekki sjúkdóminn.

Vesturlönd þurfa að aðstoða í baráttunni gegn hryðjuverkasamtökum því að hætta að hegða sér eins og slík sjálf. Vesturlönd eiga að hætta að senda vopn og lifandi sprengjur inn í Miðausturlönd og hætta að senda hermenn úr eigin röðum þangað inn.

Miðausturlönd eru alls ekki dæmd til að vera fátækt óeirðarsvæði. Ríki eins og Jórdanía eru staðfesting á því. Þau þurfa hins vegar að byrja á tiltekt í eigin garði. Og kannski hvíla sig á lestri Kóransins eins og bókstaflegs leiðbeiningabæklings. 


mbl.is Slíta stjórnmálasambandi við Katar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnmálamenn eyða fé annarra til að laga eigið klúður

Höfum eitt á hreinu:

Svokallað ójafnvægi á húsnæðismarkaði í Reykjavík er heimatilbúið, reykvískt vandamál. Sama vandamál er ekki að finna í nærri því sama mæli í öðrum sveitarfélögum jafnvel þótt þar sé minna landrými til að byggja á og straumur fólks liggi þangað úr skattpíningunni í höfuðborginni.

Núna ætlar ríkisstjórnin að koma borgarstjóra út úr klípunni sem hann hefur sjálfur hannað. Skattgreiðendur geta gert ráð fyrir að þurfa borga brúsann. Borgarstjóri, sem mætir bara í viðtöl þegar hann getur sagt frá einhverju sem er ekki vandræðalegt fyrir hann, fær myndir af sér í fjölmiðla.

Kosningabaráttan á sveitastjórnarstigi er hafin á fullu og útsvarsgreiðendur fá því að finna rækilega fyrir útgjaldagleðinni á næstu mánuðum, sérstaklega þar sem allt er nú þegar í ólestri eins og í Reykjavík. 


mbl.is Ríkislóðum verði komið í byggð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

3%

Svo virðist sem 3% af reykvísku Airbnb-húsnæði uppfylli allar kröfur yfirvalda um skráningu. Ég er viss um að svo gott sem allt þetta húsnæði er vel íbúðarhæft, sæmilega hreint og yfirleitt heilsusamlegt. En 3% er löglega skráð.

Hvað segir þetta okkur? Að Íslendingar eru glæpamenn? Að ferðamönnum stafi hætta af heimagistingum í Reykjavík? Að voðinn sé vís?

Eða segir þetta okkur að lögin séu bjánaleg - svo bjánaleg að flest venjulegt fólk brýtur þau vísvitandi? 

Ég hallast að því síðarnefnda.

Þegar lög eru bjánaleg og venjulegt fólk er farið að brjóta þau skapast nokkurs konar siðferðilegur háski. Sá sem brýtur bjánaleg lög gæti freistast til að brjóta skynsamleg lög líka. Þegar lög eru bjánaleg minnkar virðingin fyrir löggjöfinni almennt.

Er þetta ósk yfirvalda? Ég neita að trúa því. Líklega eru yfirvöld bara að hegða sér kjánalega þótt ásetningurinn sé einlægur.


mbl.is Aðeins 154 með leyfi í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband