Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2017

Viðeigandi viðbrögð stjórnvalda

Stjórnvöld geta gert margt til að liðka fyrir þrengslum á húsnæðismarkaði.

Þau geta lækkað virðisaukaskatt á vinnu og varning.

Þau geta lækkað launaskatta.

Þau geta rýmkað byggingareglugerðina.

Þau geta minnkað völd sveitarfélaga til að standa í vegi fyrir framkvæmdum.

Þau geta rýmkað löggjöf um heimagistingu og lækkað skattheimtu á hana svo fleiri rými ónýtta aukaherbergið og komi þannig til móts við hina miklu eftirspurn.

Þau geta í stuttu málið komið sér úr veginum og leyft markaðslögmálunum að bregðast við því lúxusvandamáli sem of mikil velgengni er. 

En í guðanna bænum, kæru yfirvöld, látið það eiga sig að fara út í sértækar aðgerðir, miðstýringu og áhættufjárfestingar með fé skattgreiðenda!


mbl.is Stjórnvöld grípi inn í
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvenær gefst ríkið upp á því að reka fyrirtæki?

Hver krísan á eftir annarri eltir heilbrigðiskerfið á Íslandi. Stundum er það fjárskortur, en þegar komið er til móts við hann kemur í ljós að einhver stéttin er óánægð. Þá er samið en svo kemur í ljós að fólk getur fengið betri laun annars staðar. Þá skulu launin hækkuð en þá þarf að draga fé úr ríkisrekstrinum á öðrum stað eða hækka skatta. Skattar eru hækkaðir en þá kemur í ljós að það bitnar á fyrirtækjum sem geta flúið land, flutt rekstur til útlanda eða þurfa skera niður hjá sér eða einfaldlega fara á hausinn. Þeim er þá veitt ívilnun en þá kvarta aðrir og vilja sömu ívilnun. Og á meðan hrannast sjúklingar upp á göngum spítala eða lenda á dauðalistum - biðlistum sem eru svo langir að þeir eru í raun gagnslausir. 

Ráðherrarnir klóra sér í kollinum. Þeir vita ekki hvernig á að fínstilla allt hagkerfið þannig að allir séu sáttir, enda er það ekki hægt. Þeir gleyma bara einu: Á frjálsum markaði eru fyrirtæki í stanslausri keppni um starfsafl, fjármagn og viðskiptavini. Þar eru engar kjaradeilur nema þar sem verkalýðsfélögin hafa orðið sér úti um lagalega mismunun. Gleraugnaverslanir lækna sjóndepurð á hverjum degi. Sérþjálfaðir augnlæknar nota rándýr og fullkomin tæki til að senda leysigeisla í augu fólks og gefa því fullkomna sjón. Einkaaðilar mæla heyrn og útvega heyrnatæki. Bakveikir fara í skóbúð og kaupa innlegg til að líða betur. Þeir sem eru óánægðir með spegilmynd sína heimsækja lýtalækna og láta stækka á sér brjóstin, minnka nefið eða fjarlægja húsflipa án þess að gista á göngum eða bíða á biðlistum.

Þar sem ríkið heldur sig fjarri gengur frjáls markaður eins og vel smurð vél. 

Ríkisvaldið ætti að játa sig sigrað. Það er einfaldlega ekki vel í stakk búið til að standa í rekstri og ætti alls ekki að koma í veg fyrir að einkaaðilar bjóði sjúklingum upp á þjónustu sína. Á hinum Norðurlöndunum vinna ríki og einkaaðilar í sameiningu að því að stytta biðlista, bjóða upp á valkosti og takmarka kostnað við heilbrigðisþjónustu. Á Íslandi er enginn einkaspítali og þótt einkaaðilar séu vissulega til innan íslenska heilbrigðiskerfisins þá mætti gera ýmislegt til að fjölga þeim umtalsvert. Hér þarf ríkisvaldið fyrst og fremst að hætta afskiptum sínum og afnema boð og bönn. 

Ráðherrar, kíkið í augnblik út um gluggann á skrifstofu ykkar. Lausnin blasir við fyrir utan. 


mbl.is Stefnir í lokun deilda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Umburðarlyndið er bara í eina átt

Umburðarlyndi Vesturlanda er gríðarlegt. Á Vesturlöndum geta samkynhneigðir stofnað fjölskyldu, það má gagnrýna yfirvöld og mótmæla friðsamlega þegar eitthvað bjátar á. Flóttamönnum er hleypt inn í stórum stíl. Trúfrelsi ríkir. Málfrelsi ríkir. Það er þá helst hinn pólitíski rétttrúnaður sem hamlar okkur, fyrir utan skattana auðvitað.

En umburðarlyndið er oft bara í eina átt. Margir flytjast til Vesturlanda án þess að hafa nokkurn áhuga á því sem þar fer fram. Margir fordæma jafnvel þau ríki sem hafa veitt þeim skjól frá ofsóknum, ofbeldi og kúgunum. Vesturlandabúar eru bara réttdræpir trúleysingjar. 

En er þá ekki betur heima setið en af stað farið fyrir þessa einstaklinga sem fyrirlíta gestgjafa sinn? Nei. Mörg samtök úti í hinum stóra heimi hafa beinlínis eyðileggingu Vesturlanda á stefnuskrá sinni, en til vara að koma á einhverju allt öðru samfélagi en þar þrífst, og ein aðferð í vopnabúri þeirra er að senda herskáa eintaklinga inn í umburðarlyndu ríkin til að framkvæma þar voðaverk.

Ég efast um að trúarleg sannfæring leiki hér lykilhlutverki þótt trúarlegum yfirlýsingum sé bætt við þær um tortímingu hinna ótrúuðu. Miklu nær er um að ræða yfirvarp svipað því sem kommúnisminn og þjóðernissósíalisminn (nasisminn) veittu mönnum á sínum tíma. Menn með annarlegar hneigðir, minnimáttarkennd og skort á uppbyggilegum tilgangi í lífinu ganga inn í hið trúarlega yfirbragð og nota sem afsökun til að fá persónulega útrás fyrir ofbeldi og aðra glæpi. Friðsamt samfélag er ekkert sem þeir vilja. Nei, þeir vilja ganga um með vopn og skjóta á allt sem þeim líkar ekki við.

En er ekki hægt að kenna Vesturlöndum um þær ógöngur sem margir heimshlutar ganga í gegnum? Menn mega reyna en ég minni á að margir heimshlutar voru í ruglinu áður en Vesturlönd stigu þar fæti og margir heimshlutar eru það þótt Vesturlönd haldi sig alveg fjarri þeim. Fátækt og deilur eru yfirleitt heimatilbúin vandamál. Vesturlönd gera sig bara að blóraböggli með því að skipta sér af. 

Múslímar eru ekki allir ofbeldishneigðir tuddar, en ef boðskapur trúarrita þeirra er tekinn bókstaflega má þar finna hvatningar til að drepa aðra af mörgum ástæðum, bæði trúaða og ótrúaða.

Ég hleypi aldrei fólki inn á heimili mitt sem hefur það beinlínis á stefnuskrá sinni að drepa mig. 


mbl.is „Ég keyrði á trúleysingja“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þrjú fyrirtæki á leið úr landi?

Fyrirtækjum sem ganga vel skila hagnaði, a.m.k. ef velgengnin nær lengra en í vasa fjárfesta. Eigendur þeirra greiða sér gjarnan arð. Sumir efnast. Og þá segir einhver (raunveruleg tilvitnun):

"Eins og reynsla hinna norðurlandanna sýnir fæst góðæri með aukinni skattheimtu hjá stórgróðafyrirtækjum, hátekju-og stóreignafólki og skynsamlegri nýtingu tekjuaukans til meiri jafnaðar."

Einnig:

"Það er örugglega gott að losna við suma [hátekjumenn] úr landi. Þeir mergsjúga þá síður íslenskan almenning á meðan."

Nú hafa þrjú íslensk fyrirtæki birst á lista yfir fyrirtæki sem vaxa hratt. Eigendur þeirra vonast væntanlega til að því fylgi fjárhagslegur ágóði, enda er mikið á sig lagt til að byggja upp arðbæran rekstur. En fari svo að þeim takist að efnast á hugmyndaauðgi, viðskiptaviti og útsjónarsemi þá mæta jafnaðarmennirnir með heygafflana og vilja rýja þá inn að skinni.

Eru þrjú fyrirtæki á leið úr landi?


mbl.is Þrjú íslensk fyrirtæki vaxa hraðast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkið gerir það sem aðrir mega ekki

Ríkisvaldið var að borga niður lán á tæplega 6% vöxtum með fé sem það átti og ávaxtaði á 0,5% vöxtum. Þetta hljómar mjög skynsamlega. Það er ekki mikið vit í að ávaxta fé á lágum vöxtum á einum stað þegar maður skuldar fé á háum vöxtum á öðrum stað.

En látum okkur sjá, eru Íslendingar ekki neyddir til að skulda á háum vöxtum en ávaxta á lágum?

Íslendingar vilja flestir eignast sitt eigið húsnæði. Það kostar mikið fé sem ber oft háa vexti. Um leið eru þeir skyldaðir til að leggja fé í lífeyrissjóð, og þar njóta þeir lágrar ávöxtunar og jafnvel neikvæðrar.

Íslendingar eru því upp til hópa neyddir til að skulda á háum vöxtum en um leið leggja fyrir á lágum vöxtum. Það er nú allur galdurinn á bak við skyldusparnað Íslendinga. Fyrir vikið er oft mjög hart í árinni hjá fólki á meðan skuldirnar á háu vöxtunum eru greiddar niður um leið og sjóður er myndaður á lágum vöxtum. Sjóður, sem að lokum mun ekki geta greitt út meira en sem nemur ellilífeyri ríkisins sem skattarnir alla starfsævina fóru í að fjármagna fyrir þá sem lögðu ekkert fyrir, hvorki í formi sparnaðar né fasteignakaupa. 


mbl.is Skuldir ríkissjóðs lækka um 4% af VLF
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisvæðing sjávarútvegsins heldur áfram

Sjávarútvegsráðherra vill hækka skatta á sjávarútveg og nota peningana í ríkisstyrkta markaðsherferð fyrir hann. Þetta gæti stuðlað að svokallaðri sátt að mati ráðherra.

Ekkert er fjarri lagi.

Dollaramerkin í augum þeirra sem vilja gera hagnað sjávarútvegsfyrirtækja upptækan dofna ekki við svona hundakúnstir. Þeir sem vilja þjóðnýta sjávarútveginn gefast ekki upp fyrr en það tekst eða þeim er svarað fullum hálsi.

Á sínum tíma var arðbært að reka póstþjónustu. Ríkisvaldið tók því yfir þann rekstur, gerði hann óarðbæran og lagði í rúst.

Núna á að gera það sama við sjávarútveginn. Sumir halda að hagnaður af sjávarútvegi sé eitthvað lögmál, að einhver innbyggð renta sé fólgin í að standa í útgerð, vinna afla og koma á markað. Svo er ekki eins og reynsla nær allra annarra ríkja í heiminum ber með sér, en engu að síður er höggvið í sjávarútveginn og því verður ekki hætt þar til hann fellur á hnén við fætur ríkisvaldsins, sem tekur svo af honum hausinn. 


mbl.is Vill skapa sátt um sjávarútveginn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver á að borga fyrir klósettpappírinn?

Það er alveg magnað að landeigendur megi ekki ráða því hver gengur um land þeirra og hver ekki, og gegn hvaða skilyrðum. Þegar landeiganda er bannað að innheimta gjald og um leið þröngvað til að hleypa gestum inn á land sitt er í raun verið að skikka hann til að fjármagna tiltekt eftir gestina sjálfur, og borga undir þá klósettpappírinn ef þeim verður mál. Landeigandinn bregst auðvitað við með þeim hætti að hann lágmarkar tiltektina eins mikið og hann getur, skammtar litlum klósettpappír í lélegum gæðum og reynir óbeint að losa sig við gesti sína með óþægindum og þjónustuskorti. Er það gestrisni? Nei.

Jú vissulega eru til samningar sem veita ríkisvaldinu eða öðrum yfirvöldum ákveðin völd, en slíkir samningar eru vonandi undantekningar frá þeirri reglu að sá sem á, hann má, og sá sem á ekki, hann þarf að biðja um leyfi og uppfylla skilyrði gestgjafa.

Okkur finnst sjálfsagt að segja gestum á heimili okkar að fara úr skónum áður en þeir ganga inn, og stinga ekki öllum klósettrúllum heimilisins ofan í tösku. En landeigendur? Þeir þurfa bara að láta allt yfir sig ganga, og borga brúsann sjálfir, eða hvað?

Nei, hættum að binda hendur landeigenda og leyfum þeim að vera þeir gestgjafar sem þeir vilja sjálfir vera. Ég er viss um að það kemur betur út fyrir alla en nauðung. 


mbl.is Mega innheimta gjald af eignarlandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar gjaldmiðlar voru stöðugir (og frjálsir)

Hvernig kemur þú í veg fyrir að skip þeytist um í sjónum þegar það ætti í raun bara að liggja kyrrt við bryggju? 

Þú bindur það við "eitthvað".

Hið sama gildir um gjaldmiðla. Til að þeir séu stöðugir þarf að binda þá við "eitthvað".

Hér er mynd sem sýnir breytingar á kaupmætti bandaríska dollarans (héðan). Hann var stöðugur lengi vel en hvað gerðist svo?

chart-09

Það sem gerðist var að seðlabanki var stofnaður og honum leyft að prenta peninga sem voru án gullforða á bak við sig (í raun).

Seðlabankar eiga að stuðla að stöðugleika en þeir gera það ekki. Þeir valda óstöðugleika. Þá ber að leggja niður ef ætlunin er sú að tryggja stöðugleika gjaldmiðils. Frjálsir gjaldmiðlar, gjarnan bundnir við gullforða, eru þeir einu sem hafa staðist tímans tönn.

Þetta er ekki töfralausn. Þetta er sögulega vel sönnuð, vel reynd og raunhæf lausn. Gallinn er bara sá að stjórnmálamenn vilja geta prentað peninga þegar þannig liggur á þeim. 


mbl.is Stendur ekki til að festa gengið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hægristjórnin hækkar skatta

Ekki veit ég hvað stjórnvöld eru að hugsa núna. Þau hafa ákveðið að hækka skatta. Þetta er að vísu ekki tilkynnt með þeim hætti. Talað er um að samræma skattþrep. Lágt þrep virðisaukaskatts er hækkað upp í hátt þrep, og löngu seinna á að lækka hið háa skattþrep. Niðurstaðan er samt sú að skattar hækka.

Skynsamlegra hefði verið að lækka hið háa skattþrep að hinu lága. Best hefði svo verið að afnema skattinn með öllu - öll þrep sett niður í 0%. En nei, það er ekki í tísku í dag. Þá hefðu einhverjir kvartað líka, t.d. þeir sem eru skattlagðir með annarri tegund skatta. Þá skatta hefði þá bara átt að lækka líka eða fella úr gildi. Og svona koll af kolli þar til allir skattar hafa lækkað umtalsvert.

En þarf ríkið ekki að afla mikilla skatttekna til að geta staðið undir öllum verkefnum sínum? Jú, en þeim verkefnum má fækka. Ríkisvaldið gerir ekkert sem það hrifsaði ekki til sín frá einkaaðilum, nema jú allt þetta ónauðsynlega sem engin þörf er á. Ríkisvaldið þarf ekki að mæla heyrn frekar en sjón. Ríkið þarf ekki að sjúkratryggja frekar en kaskótryggja bíla. Ríkisvaldið á að skila sem flestum af verkefnum sínum í ríkiseinokun til hins frjálsa markaðar og leyfa fleirum en gosdrykkjaþömburum og sjónskertum að njóta ávaxta samkeppnismarkaðar einkaaðila. 

Ekki veit ég hvað ríkisstjórnin ætlar að gera til að aðskilja sig frá vinstrimönnum í huga kjósenda, en skattahækkanir eru ekki góð leið til þess. 


mbl.is Gisting gæti hækkað um 10,4%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisheimspekin í alla skóla!

Nú er búið að stinga upp á því á Alþingi að gera heimspeki að skyldufagi. Gott og vel, heimspeki er hverjum manni holl og kennir manni margt. En svo segir:

Mik­il­vægt er að styrkja ábyrgðar­kennd nem­enda gagn­vart sam­fé­lag­inu og stuðla jafn­framt að gagn­rýn­inni hugs­un sem er ein meg­in­for­senda þess að borg­ar­ar geti verið virk­ir þátt­tak­end­ur í lýðræðis­sam­fé­lagi.

Er þetta heimspeki? Nei. Hér er ekki orði minnst á að efla rökhugsun og setja hluti í mismunandi samhengi. Hér er verið að boða siðfræði - ákveðna tegund af siðfræði - ríkisheimspekina!

Það er ekki bæði hægt að styrkja "ábyrgðarkennd gagnvart samfélaginu" og "stuðla að gagnrýninni hugsun". Annaðhvort á að heilaþvo krakkana, eða ekki. Og ef ekki þá á ekki að predika hver ber ábyrgð á hverjum og hvað þá "samfélaginu". Er ekki nóg að bera ábyrgð á sjálfum sér? Fjölskyldu sinni? Vinum? Hver er þessi "samfélag"? Er gagnrýnin hugsun ekki fokin út um gluggann núna?

Nei, þá er betra að sleppa þessu alveg.

Ef menn vilja breyta ríkisnámskránni mætti í staðinn innleiða hagfræðikennslu í skólana, fjármálalæsi og gagnrýnið hugarfar gagnvart viðteknum söguskoðunum, fullyrðingum í dægurmálaumræðunni og valdhöfum. 


mbl.is Heimspeki verði skyldufag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband