Bloggfærslur mánaðarins, desember 2016

Þegar eitthvað er of dýrt hvað er þá til ráða?

Í frétt segir að áætlað er að 25 þúsund manns, eða um 10% fullorðinna á Íslandi, hafi einhvern tímann ekki farið til tannlæknis vegna kostnaðar þegar þeir þurftu á aðstoð tannlæknis að halda í fyrra.

Viðbrögðin er auðvitað fyrirsjáanleg: Margir munu boða skattahækkanir til að fjármagna niðurgreiðslur vegna tannviðgerða á fullorðnum.

Það væri eins og að pissa í skóinn sinn. Hærri skattar skerða kaupmátt allra, bæði þeirra með tannpínu og annarra.

Því er þá um leið bætt við að skatta eigi bara að hækka á fyrirtæki og ríka einstaklinga. Það hljómar eins og söluvænleg ræða fyrir stjórnmálamenn en er ekki skattheimta sem skilar neinum skatttekjum að ráði, og að því ráði sem hún gerir það flýr skattstofninn til útlanda. Sem sagt, eins og að pissa í skóinn sinn.

Það þarf ekki að niðurgreiða tannlækningar svo fleiri hafi efni á einhverju sem er dýrt heldur þarf að finna leiðir til að gera tannlækningar ódýrari svo fleiri hafi efni á henni án aðstoðar.

Spurningin sem við ættum því að spyrja okkur er: Af hverju eru tannlækningar svona dýrar?

Fyrir því eru margar ástæður:

Í fyrsta lagi reisir ríkisvaldið aðgangshindranir að markaði tannlækninga með því að takmarka fjölda einstaklinga sem fá að hefja nám í tannlækningum við sex. Þetta er gömul tala og fyrir löngu orðin alltof lítil.

Í öðru lagi mega tannlæknar ekki auglýsa verðskrá sína eða eins og lögin segja (í 11. gr.): "Tannlæknum eru óheimilar hvers konar auglýsingar um starfsemi sína sem tannlæknar." Markaðsaðhald er því markvisst og vísvitandi takmarkað (sem og málfrelsi). Nýútskrifaður tannlæknir er mun lengur en ella að afla sér viðskiptavina því hann getur ekki keppt í verði, t.d. á algengustu viðgerðum.  

Í þriðja lagi er hár skattur á öllu á Íslandi: Launum, hagnaði, aðföngum og búnaði. Þetta birtist í verðlagi.

Í fjórða lagi eru töluverðar aðgangshindranir að þessum markaði í formi lagaákvæða og reglugerða sem gera tannlækningar dýrari en þær þyrftu að vera.

Í ljósi alls þessa kemur e.t.v. á óvart að það kosti ekki meira en 15-25 þús. að láta tannlækni yfirfara allt, hreinsa tannstein, taka myndir og gefa krökkunum svolítið dót.

Ég vona að umræðan um tannlæknakostnað á Íslandi snúist um það hvernig má gera tannlækningar ódýrari svo fleiri hafi efni á þeim en ekki hvernig á að gera fleirum kleift að ráða við dýrar tannlækningar. 

 


mbl.is Hafa ekki ráð á tannlækningum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nokkur atriði vegna kosninganna næsta vor

Þessi grein eftir mig birtist í Morgunblaðinu í dag. Vonandi hreyfir hún við einhverjum!

********

Nokkur atriði vegna kosninganna næsta vor

Eitthvað virðist flokkunum sem eiga fulltrúa á Alþingi ganga illa að púsla sér saman. Það er skiljanlegt. Ekki er hægt að mynda meirihlutastjórn nema einhver flokkur kasti einhverju stefnumáli sínu alveg fyrir borð og enn sem komið er hefur sá flokkur ekki gefið sig fram. Enginn vill vera svikari við kjósendur sína, a.m.k. í bili.

Það má því gefa sér að boðað verði til kosninga í vor. Slíkt hefði marga kosti í för með sér sem hér verða lauslega taldir upp.

Í fyrsta lagi færist kjörtímabilið aftur á skynsamlegan árstíma fyrir kosningar þegar eitt fyrsta verk nýkjörinna þingmanna verður að fara í langt og gott sumarfrí.

Í öðru lagi gefst flokkunum færi á því að skerpa á stefnumálum sínum. Ekki var mögulegt að aðgreina alla flokka að þessu sinni ef bara er miðað við kosningaloforð þeirra. Í grófum dráttum mátti samt greina flokka sem vildu hækka skatta eða lækka, rústa fiskveiðistjórnarkerfinu eða sleppa því og innlima Ísland í erlent ríkjasamband eða ekki.

Í þriðja lagi má með kosningum í vor tryggja að flokkarnir á þingi geri engin ósköp af sér þangað til. Þeir geta sammælst um höggva ekki gat á botn fleysins og sökkva því. Þeir geta myndað eins konar starfsstjórn sem sér um að stimpla eyðublöð og uppfæra ártöl á lagaköflum en breytir að öðru leyti litlu sem engu. Þar með er ekki sagt að núverandi ástand sé fullkomið og að allar breytingar séu slæmar. Hins vegar er betra að hugsa sig vel um áður en eldspýtan er tendruð við opinn gaskút og þá betra að sleppa því en taka áhættuna. Sumir flokkar tala nefnilega fyrir því að tendra eldspýtuna og skrúfa frá gasinu á sama tíma.

Í fjórða lagi hafa þingmenn gott af löngu fríi. Þingmenn í fríi eru oftar en ekki ódýrari fyrir skattgreiðendur en iðandi og uppteknir þingmenn í þingsal.

Í fimmta lagi má vona að með hækkandi sól renni það upp fyrir landsmönnum að það vantar sterkari frjálshyggjuáherslur í íslensk stjórnmál. Þeir sem lofa skattalækkunum eru ekki fyrr búnir að því fyrr en þeir eru líka búnir að lofa auknum ríkisútgjöldum sem á að fjármagna með „hagvextinum“. Þeir sem tala fyrir einföldun regluverksins leggja ekki í embættismannakerfið. Þeir sem vilja að Íslendingar geti keypt lambakjöt í gámaförmum frá Nýja-Sjálandi eru allt í einu búnir að samþykkja 10 ára frystingu á niðurgreiðslum til innlendrar framleiðslu sem þolir enga samkeppni þegar í þingsal er komið. Þeir sem vilja bjór í matvöruverslanir hafa yfirleitt efni á því að ferðast svo oft til útlanda að fríhafnarlagerinn sprengir skápaplássið og nenna því ekki að berjast fyrir frelsi annarra til að kaupa sér sopann hvar sem er.

Kosningar í vor verða vonandi settar á dagskrá sem fyrst svo óstarfhæf starfsstjórn geti hist og fengið sér kaffi og átt einn af þessum góðu fundum sem svo tíðrætt er um þessar vikurnar.


Neyslustýring fríhafnarfólksins

Á Íslandi er áfengi skattlagt í himinhæðir, nema í fríhöfnum landsins. Þetta kemur sér vel fyrir þá sem tala hæst um að skattar á áfengi á Íslandi þurfi að vera háir svo fólk fari sér ekki að voða. Þetta er fólkið sem hefur efni á því að ferðast oft eða þarf að ferðast oft á vegum vinnunnar. Þetta fólk á stútfulla vínskápa með koníaki, vodka og gini og munar ekkert um að kaupa sér bjór á uppsprengdu verði.

Aðrir sitja eftir - lágtekjufólkið, ungt fólk og rónanir. Þetta lið er mjólkað eins og hlekkjaðar beljur eða neytt til að leggja sér heimabrugg til munns.


mbl.is Áfengisskatturinn hækkar um áramót
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Endurskoða: Já. Að fara úr öskunni í eldinn: Nei

Það er alveg sjálfsagt að biðja þingheim um að íslenska ríkið skoði peningastefnu sína. 

Menn skulu samt vara sig á því að taka við slíkri endurskoðun með það eina markmið að koma hagkerfi Íslands í klær erlends seðlabanka frekar en íslensks.

Ríkisvaldið ætti að endurskoða peningastefnu sína með það að markmiði að koma íslenska ríkinu alveg út úr útgáfu peninga.

Um leið ætti að breyta lögum þannig að kverkatak verkalýðsfélaga á atvinnulífinu er losað, að hinn svokallaði verkfallsréttur, þar sem fólk getur lagt niður vinnu án þess að missa vinnuna, sé afnuminn.

Markaðurinn verður fljótur að skipta út íslensku krónunni fyrir allskonar annað: Dollara, pund, danskar krónur, svissneska franka, evrur eða hvað það nú er sem höfðar til hvers og eins. Það má jafnvel hugsa sér að Bitcoin og gullpeningar byrji að láta sjá sig. Einstaklingar og fyrirtæki vilja peninga sem hafa stöðugan kaupmátt og duga til að skiptast á varningi og þjónustu. 

Fari svo að gjaldmiðill sem fyrirtæki gerir upp í eða aflar megnið af tekjum sínum í styrkist á það fyrirtæki að geta lækkað laun (sem gerir það að verkum að upphæð launanna lækkar án þess samt að kaupmáttur þeirra geri það). Hér kemur kverkatak verkalýðsfélaganna til sögu. Það getur í dag lamað fyrirtæki sem reynir að aðlaga launaútgjöld að tekjum ef það vill halda í alla starfsmenn sína. Verkalýðsfélögin stuðla að atvinnuleysi og hafa gert alla tíð.

Svo já, endurskoðun peningastefnu ríkisins: Komum ríkinu út úr framleiðslu og verðlagningu peninga eins og ríkinu var á sínum tíma komið úr framleiðslu og verðlagningu á sementi á sínum tíma. 

Þess má að lokum geta að lágir vextir evrusvæðisins eru merki um veikt hagkerfi, ekki sterkt, og þar með eitthvað sem ætti í sjálfu sér að vera fráhrindandi. 


mbl.is Spurði út í „óþolandi vaxtabyrði“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Æfingarbúðir vinstrimanna

Það má vorkenna Reykvíkingum. Þeir kjósa yfir sig vinstristjórnir trekk í trekk og alltaf er niðurstaðan sú sama: Skattar eru botnaðir, skuldir eru auknar og grunnþjónustan er vanrækt. Stokkhólmsheilkennið er sterkt í Reykvíkingum. Þeir elska kvalara sinn. Mætti kannski kalla það Reykjavíkurheilkennið?

Um leið bjóða hægrimenn í borginni ekki upp á mjög afgerandi valkost við vinstriflokkana. Tal þeirra er a.m.k. mjög varfærnislegt oft á tíðum, því miður. 

Stærðarhagkvæmni er klárlega ekki eitthvað sem á við um rekstur sveitarfélaga á Íslandi eins og Óli Björn Kárason þingmaður bendir á í þessari grein og ég hef sjálfur bent á í annarri grein. Þingmenn ættu að gera það að forgangsatriði að opna löggjöfina þannig að sundrung sveitarfélaga í smærri sveitarfélög verði auðveldari og fækka um leið lagaskyldum sem hvíla á herðum þeirra sem og kvöðum eins og lágmarksútsvari.

 


mbl.is Borgin hækkar gjaldskrár um áramót
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verðbólga er bara peningaprentun

Verðbólga, þ.e. almennt hækkandi verðlag á öllu, er með einfaldar rætur: Peningaprentun. Ef þú eykur við magn gjaldmiðils í umferð þá rýrir þú kaupmátt hans. 

Flökt á kaupmætti gjaldmiðils getur auðvitað átt sér stað af ýmsum ástæðum: Væntingum og vonum, slæmum fréttum eða vondu veðri. Þetta eru hins vegar skammtímasveiflur. Til lengri tíma getur almennt hækkandi verðlag í gjaldmiðli ekki átt sér aðrar ástæður en aukningu á magni hans í umferð.

Peningamagn í umferð getur svo vissulega aukist með öðrum leiðum en beinni útgáfu peninga í umferð. Bankar hafa t.d. víða mikið vald til auka við magn peninga í umferð, t.d. í gegnum bindiskylduna. Maður dregur 1000 kr. undan kodda sínum og leggur inn á bankabók. Bankinn er e.t.v. bundinn 10% bindiskyldu í seðlabankanum og leggur 100 kr. þar inn en lánar svo 900 kr. út til næsta manns, sem fær peninginn inn á sína bankabók, og hvers banki tekur 90 kr. og leggur inn á reikning sinn hjá seðlabankanum og lánar 810 kr. út og svona koll af kolli þar til upphaflegi 1000-kallinn er kominn margfaldur í umferð.

Þetta vefst fyrir mörgum og kannski skiljanlega enda er þetta kennt mjög víða. Fólk heldur að verðbólga sé einskonar "draugur" sem sækir á lasburða hagkerfi eins og vont veður eða ólæknanleg plága. Menn kenna allskyns fyrirbærum um komu verðbólgudraugsins, eins og lækkandi olíuverði eða uppnámi á fiskmörkuðum. 

Í Venesúela keyra menn peningaprentvélarnar á fullu. Verðbólgan þar í landi er heimatilbúið vandamál. Þar mæla menn nú verðgildi peningaseðla með vigtum en ekki aflestri. Og heimurinn heldur að olíuverðið sé hér vandamálið. 


mbl.is Bæta mörgum núllum á seðlana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Málamyndastjórn fram til kosninga í vor

Nú hafa flokkarnir reynt að pússa sig saman í margar vikur án niðurstöðu. Það er því kominn tími til að horfast í augu við það sem blasir við: Málamyndastjórn til vors og kosningar til Alþingis þá.

Öll stjórnarmunstur sem gætu hugsanlega komið orðið að veruleika með núverandi flokkum í núverandi stærð þeirra yrðu slæm.

ESB-flokkarnir taka t.d. of mikið pláss og hugmyndir þeirra um að rústa fiskveiðistjórnarkerfinu áður en Brussel tekur við því eru slæmar. Raunar skil ég ekki af hverju ESB-flokkarnir vilja hrófla við einhverju því ef ósk þeirra um ESB-aðild rætist flyst forræðis hvort eð er til Brussel og þá skiptir engu máli hvernig eitthvað lítur út í dag eða á morgun.

Vinstriflokkarnir þurfa að endurstokka kennitölur sínar og ákveða hvað þeir vilja. Eru þeir Samfylking, Píratar, VG, Björt framtíð eða hvað?

Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn hefðu líka gott af naflaskoðun. Vilja Sjálfstæðismenn halda áfram að styrkja landbúnaðarkerfið í núverandi mynd og halda uppi Ríkisútvarpi Vinstrimanna (RÚV) á kostnað skattgreiðenda og annarra fjölmiðla? Á að berjast af alvöru fyrir lægri sköttum og minna ríkisvaldi eða bara standa í stað og vera í varnarbaráttu fyrir núverandi fyrirkomulag hins opinbera?

Vilja Framsóknarmenn halda í ríkisútgjöldin eða lækka skattana? Á ríkið að reka öll þess fyrirtæki? Á opinbera eftirlitsbatteríið áfram að taka svona mikið pláss?

Flokkarnir þurfa að skerpa línurnar fyrir kosningar í vor.

Kjósendur kunna vel að meta skýra valkosti en fengu enga og niðurstaðan var ógrynni flokka sem halda á lofti allskyns kröfum sem falla ekki að kröfum neinna annarra. 

Málamyndastjórn til vors gæfi Íslendingum kleift að ná andanum og gera áætlanir sem byggjast á því að ríkisvaldið hlaupi ekki út um allt með sprengiefni og sprengi allar áætlanir í loft upp. 

Ég bíð spenntur eftir að þessi tillaga verði lögð fram. 


mbl.is Vill hlé á stjórnarmyndun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Önnur lausn: Lækka skatta og einkavæða grunnskólann

Gerum kennara að sjálfstæðum verktökum eða starfsmönnum einkafyrirtækja. Þeir verða betri kennarar við að komast í snertingu við markaðslögmálin og samkeppni um viðskipti foreldra. Ríkiseinokun er hvergi besta lausn. 


mbl.is Stór biti fyrir sveitarfélögin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband