Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2015

Uppskeran brennd

Lægstu laun eru lág. Ég get tekið undir það. Það er erfitt að lifa á þeim. Ég hef fullan skilning á því. Margir sem fá hærri laun en þau lægstu eiga erfitt með að setja sig í spor þeirra sem hafa lægstu launin. Sammála.

Að því sögðu get ég samt ekki séð skynsemina í því að fara í verkfall til að knýja á um launahækkun. 

Hér þarf að hafa óteljandi atriði í huga, og skulu nokkur nefnd.

Að laun séu í lægri kantinum er ekki slæmt fyrir alla. Fyrirtæki taka t.d. frekar áhættuna með ungt og óreynt starfsfólk, eða ótalandi innflytjendur, ef launin geta verið lág, a.m.k. til að byrja með. Með því að þvinga lægstu taxtana upp er verið að búa til atvinnuleysi fyrir þá sem eiga hvað erfiðast með að komast inn á atvinnumarkaðinn. (Þetta vita verkalýðsfélög reyndar, og nýta sér óspart til að minnka eftirspurn eftir vinnuafli og halda launum uppi.)

Að laun eigi að hækka umfram getu fyrirtækja til að greiða laun hefur sömu afleiðingar. Fyrirtæki þurfa að segja upp fólki ef launakostnaður hækkar of mikið. Þetta mættu eigendur fyrirtækja gjarnan hafa miklu oftar í huga þegar þeir ákveða laun æðstu stjórnenda. Æðstu stjórnendur eru samt ekki dýrasti útgjaldaliðurinn. Kannski gleymist þess vegna að halda aftur af hækkun launa þeirra.

Laun er alltaf hægt að hækka til lengri tíma. Til dæmis geta fyrirtæki fjárfest í tækni og tækjum sem auka verðmætasköpun hvers starfsmanns. Kannski þarf þá færri starfsmenn, en þeir verða verðmætari. Að leggja niður vinnu er eins og að eyðileggja tækjabúnað og bitnar alvarlega á fyrirtækjum sem verða fyrir barðinu á verkföllum. Þeim er oft bannað að ráða starfsfólk til að fylla í skörð þeirra sem mæta ekki í vinnuna. Sjóðir þurrkast upp, pantanir hverfa og tekjurnar frjósa. Hvernig eiga fyrirtæki í slíkri stöðu að geta greitt hærri laun?

Framundan er sumar sem fyrir marga þýðir aukin vinna og jafnvel yfirvinna. Verkföll svipta fólk í þeirri stöðu miklum tekjum.

Samúð mín fyrir þeim sem eru fastir í gamaldags kjarabaráttu valdamikilla verkalýðsfélaga við "samtök" atvinnurekenda er mikil. Þetta er fólk sem virðist aldrei mega fá hærri laun án þess að það sé kallað aðför að kaupmætti og stöðugleika í samfélaginu á meðan topparnir raka til sín fé.

Kannski er kominn tími til að hugsa út fyrir rammann, t.d. með því að hætta þessum "kjarasamningum" heilu hópanna af misleitum hópi einstaklinga, og leyfa fólki að semja á einstaklingsgrundvelli við atvinnurekendur sína. Þá munu góðir starfsmenn uppskera meira, og þeir lélegu minna, sem aftur verður þeim hvati til að gera betur eða finna sér eitthvað annað að gera. 


mbl.is Félagar SGS kjósa um verkfallsboðun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Blásið í bólu

Fréttir um ný hæstu gildi hlutabréfavísitala ættu að vekja ugg hjá öllum. Slíkar fréttir eru óbeint fréttir af peningaprentvélum sem keyra á fullum snúningi og eiga að framkalla tölfræði sem gefur til kynna falskt góðæri (sem eiga í kjölfarið að tryggja endurkjör ráðandi stétta í viðkomandi landi).

Í greininni How Easy Money Drives the Stock Market er þetta útskýrt frekar, fyrir áhugasama. 


mbl.is Nikkei ekki hærri frá 2000
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki nóg: Seðlabanka Íslands þarf að leggja niður

Losun gjaldeyrishafta hefur verið til umræðu síðan höftin voru sett á á sínum tíma og áttu bara að standa yfir í nokkra mánuði. Þessir mánuðir eru nú orðnir að árum og stefna hratt að því að hafa varað í áratug.

Þetta er dæmigert fyrir "tímabundin" ríkisafskipti. "Tímabundnir" skattar hafa alveg sérstaklega tilhneigingu til að verða varanlegir, og ríkisstofnanir eru næstum því ódrepanlegar

Það er ekki nóg að losa um gjaldeyrishöftin. Ríkisvaldið þarf að koma sér algjörlega út úr framleiðslu peninga (með aðstoð skjólstæðinga sinna í viðskiptabönkunum). Seðlabanka Íslands þarf að leggja niður. Ríkisvaldið á að taka við skattgreiðslum og greiðslum skulda við hið opinbera á miklu fjölbreyttari hátt en íslenskum krónum eingöngu. 

Samkeppni í peningamálum hefur sömu jákvæðu áhrif og samkeppni t.d. fatahreinsana og hárgreiðslustofa. Ríkiseinokun hefur sömu neikvæðu áhrif hér og á öllum öðrum sviðum. Það er hið almenna sem gildir hér eins og á öðrum mörkuðum.

Hafi svo einhver áhuga á að "íslenska krónan" sé gefin út verður það einfaldlega að viðskiptahugmynd sem má hrinda í framkvæmd. Sú króna gæti þá verið byggð á einu nema loforðum (og yrði aldrei vinsæl) eða með "fót" í einhverju traustara, t.d. gulli, silfri, Bitcoin eða kvóta. 

Um leið þurfa fyrirbæri eins og opinber trygging innistæða að heyra sögunni til. Sparifjáreigendur eiga að vera tortryggnir gagnvart öllum sem bjóðast til að geyma sparifé þeirra og veita þeim grimmt aðhald sem leiðir til virkrar samkeppni í trausti - trausti á því að spariféð tapi ekki kaupmætti í sífellu.

Þetta er ekki mjög vinsælt baráttuefni á Íslandi, en það er að mínu mati mikilvægt. Að ríkisvaldið hafi afskipti af peningunum sem fólk notar í viðskiptum sínum er gríðarlega öflugt stjórntæki sem ríkisvaldið beitir hiklaust til að ná sínum markmiðum fram, gjarnan á kostnað launþegar og sparifjáreigenda.

Burtu með Seðlabanka Íslands!


mbl.is Áætlun keyrð í gegn fyrir þinglok
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vel gert!

Þrátt fyr­ir allt sem á und­an er gengið er það enn fá­menn klíka sem um­gengst líf­eyr­is­sjóðina eins og einka­spari­bauka, eins og ekk­ert hafi í skorist.

... segir Sölvi Tryggvason, fjölmiðlamaður með meiru, og ég tek undir hvert orð. Ég tek jafnvel orð hans lengra og fullyrði að hið sama gildi um stjórnmálamenn og yfirmenn opinberra stofnana og hlutafélaga í eigu ríkisins sem starfa í skjóli lögvarinnar einokunar. Fólk sem er áskrifendur að fé annarra umgengst fé annarra eins og eigið fé og það sem verra er - umgengst það eins og fé sem má leika sér með í von um það besta. Enda heldur forstjóri lífeyrissjóðsins áfram að fá laun þótt hann tapi lífeyri þúsunda skjólstæðinga sinna í einhverju hlutabréfabraski. 

Sölvi sýnir hér mikið hugrekki sem ég vona að smiti út frá sér. 


mbl.is Sölvi hætti að greiða í lífeyrissjóð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar önnur lögmál gilda innandyra og utan

Svo virðist sem flestir telji að önnur lögmál gildi í heiminum eftir því hvort maður er staddur inni á eigin heimili eða utan þess.

Inni á eigin heimili virðist gilda það lögmál að fólk geti átt með sér frjáls og óþvinguð samskipti, þar sem skemmdarverk á eigum og líkömum annarra hafa afleiðingar, þar sem lygar eru ekki umbornar og koma strax í bakið á þeim sem þær flytja, þar sem ákvarðanir eru teknar í sameiningu en undir forystu fullorðinna, sem bera sjálfir ábyrgð á því að láta enda ná saman, greiða reikninga, kaupa aðföng og huga að viðhaldi og hreingerningum og gera það á eigin reikning.

Þeir eru fáir vinstrimennirnir sem telja nokkuð vera athugavert við rekstur eigin heimila. Meira að segja hörðustu klappstýrur ríkisvaldsins skrifa ekki greinar og heimta ríkisafskipti af eigin matarinnkaupum og heimilisreglum. 

Innandyrareglurnar virðast virka ágætlega fyrir flesta og það án þess að mönnum sé hótað eignaupptöku og fangelsisvist fyrir að hlýða ekki fyrirmælum. Menn ná einfaldlega sameiginlegum skilning á hvað er rétt og hvað er rangt, að ekki megi stela eða skemma, að ekki sé hægt að svíkja og pretta án afleiðinga, og að slíkt sé engum til framdráttar til lengri tíma.

En hvað gerist svo þegar fólk stígur út fyrir dyrnar á heimili sínu? Þá er eins og allt annar veruleiki taki við. Auðvitað fjölgar þar fólkinu sem við eigum samskipti og viðskipti við, en allt í einu þarf einhvern þriðja aðila til að hirða helming allra verðmæta og skammta okkur reglum, bótum og fyrirmælum til að samfélagið gangi upp. Allt í einu eru menn að biðla til fólks sem það þekkir ekki og ber titilinn Stjórnmálamenn um að hafa vit fyrir sér og sínum eigin viðskiptum og samskiptum. Allt í einu á þessi hópur ókunnugs fólks að ráða því hver fé okkar er nýtt, klukkan hvað við megum horfa á ofbeldisfullar kvikmyndir, hvaða bækur börnin okkar eigi að lesa, hvenær menn geti hætt að vinna og byrjað að þiggja laun annarra í staðinn, og svona má lengi telja.

Allt í einu er eins og fólk sem rekur heimili af miklum myndarskap, setur heimilisreglur og framfylgir þeim, stillir útgjöldum í hóf, leggur fyrir, viðheldur fasteign, tekur þátt í hverfastarfi og kaupir og eldar næringarríkar máltíðir verði að ósjálfbjarga börnum um leið og það stígur út fyrir lóðarmörk sín. Þá fallast því alveg hendur og grátbiðja ókunnugt fólk um að stjórna sér og sínum ákvörðunum og fjármálum niður í minnstu smáatriði. Um leið gera margir engar kröfur til hins ókunnuga fólks og leyfir því að stela, ljúga og hóta algjörlega afleiðingalaust og lætur sér nægja að taka afstöðu til þess á fjögurra ára fresti. 

Þetta er einkennilegt heilkenni en alveg ótrúlega algengt. Þjáist þú af því?


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband