Bloggfærslur mánaðarins, september 2014

En er það ekki ósanngjarnt?

Lögmaður Færeyja, Kaj Leo Holm Johannesen, vill að samið verði um fríverslun á milli Íslands, Færeyja og Grænlands og þannig myndað eitt fríverslunarsvæði á milli landanna.

Góð hugmynd!

En bíddu nú við, er það ekki ósanngjarnt gagnvart Færeyingum?

Íslendingar niðurgreiða landbúnaðinn sinn. Flæða þá ekki bara niðurgreiddar landbúnaðarvörur yfir Færeyjar og útrýma landbúnaði þar? Færeyingar virðast ekki hafa áhyggjur af því.

Íslendingar skattleggja ferðaþjónustu lægra en allskyns aðra þjónustu. Það má túlka sem ígildi niðurgreiðslna. Hirða Íslendingar þá ekki bara alla ferðamenn af Færeyjum? Færeyingar virðast ekki hafa áhyggjur af því.

Hvað vakir þá fyrir Færeyingum? Einhverjar gloríur um frjálsan markað? Einhverjar hugmyndir um að sjálfsþurftarbúskapur innan tollamúra og viðskiptahindrana sé leiðin til fátæktar? 

Já ætli það ekki. Ég deili þeim gloríum og hugmyndum með Færeyingum. Þetta fríverslunarsvæði gæti orðið til á morgun. Það tekur ekki lengri tíma að hætta að grýta höfnina sína en að bara hætta því.  


mbl.is Vill vestnorræna fríverslun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sparnaður: Slæm hugmynd

Að leggja fyrir, spara og eiga fyrir hlutunum er slæm hugmynd. Hún er ekki slæm af því sparnaður í sjálfu sér er slæmur (hann er góður), heldur af því þeir sem spara, þeir tapa.

Þeir sem skulda fá niðurgreiðslur á vaxtakostnaði. Það heldur vaxtastigi háu, vaxtagreiðslum háum og skattheimtu til að fjármagna vaxtakostnaðinn háum. Þeir sem skulda enga vexti borga engu að síður skattinn sem fer í vaxtabæturnar. Þeir tapa.

Þeir sem leggja fyrir þurfa að horfa upp á neikvæða ávöxtun á bankabók því verðbólgan étur upp áunna vexti, fjármagnstekjuskattur kroppar í þær krónur sem þó koma í vexti og vextirnir verða svo að engu því verðlag hefur allt saman hækkað frá því þegar peningarnir voru lagðir inn á bankabók og kaupa því minna. Feitar bankabækur fita innistæðureikninga bankanna og það nota þeir til að fjölfalda peninga í umferð og græða enn meira en þeir gætu án verndar ríkisvaldsins fyrir gjaldþroti (þegar þú leggur 1000 kr. á bankabók getur bankinn þinn lánað 900 kr. út í eitthvað ævintýri en um leið sagt þér að þínar 1000 kr. séu á sínum stað þannig 900 kr. urðu til eins og fyrir töfra og æða út í verðlagið í kringum þig).

Þeir sem skulda geta með óreglulegu millibili gert ráð fyrir að ríkisvaldið komi þeim til bjargar. Gott dæmi er einmitt svokölluð skuldaleiðrétting. Hún beinir skattfé frá niðurgreiðslu ríkisskulda og svigrúmi til skattalækkana og í ríkisútgjöld og þrýsting á skattahækkanir. Bæði skuldsettir og skuldlausir þurfa að borga skatta en þeir sem skulda ekkert tapa miðað við þá sem skulda.

Þeir sem sögulega hafa þurft að reiða sig á sparnað annarra til að fá lán fyrir eigin framkvæmdum geta nú sótt beint í sjóði ríkisins og fengið þar ódýr lán eða jafnvel styrki. Óþægilega háar vaxtakröfur heyra sögunni til. Allir geta framkvæmt og keypt fyrir nýprentað fé á vöxtum sem tengja á engan hátt saman framboð og eftirspurn eftir raunverulegum sparnaði. Bólur þenjast út og springa en allir virðast lenda á fótunum, nema þeir sem eiga sparnað.

Sparnaður er freistandi skotmark fyrir skattheimtandi ríkisvaldið. Auðlegðarskatturinn svokallaði er gott dæmi. Hann þvingar gamalt fólk til að selja eignir úr búi sínu til að eiga fyrir skattinum, enda leggst hann á eignir en ekki tekjur. Þeir sem eiga fyrirtæki eru að selja úr þeim eignir til að eiga fyrir skattinum, hvort sem fyrirtækin skila hagnaði eða tapi. Allt eru þetta árásir á þá sem spara og eiga.

Skuldir búa líka til verkefni fyrir stjórnmálamenn og það kunna þeir vel að meta.

Sparnaður er slæm hugmynd.  


mbl.is Umsóknirnar fleiri en var áætlað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband