Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2014

Stjórnendur, hagnaður og laun

Samkvæmt frétt Viðskiptablaðsins er starfsmannakostnaður á Íslandi hærri en meðaltal ESB. 

Fyrir hverja krónu sem endar í vasa launafólks á Íslandi þarf vinnuveitandinn að borga að minnsta kosti 1,74 krónur, samkvæmt útreikningi Viðskiptablaðsins.

Þetta gleymist oft að hafa í huga þegar laun á Íslandi eru borin saman við þau í öðrum löndum. Allskyns fríðindi, eins og ókeypis kaffi og framlög í lífeyrissjóði, eru hluti af kostnaði við starfsmenn. Til einföldunar mætti segja að starfsmaður kosti fyrirtæki ákveðna upphæð á ári, og starfsmaðurinn fær hluta hennar í formi launa en annan í formi einhvers annars. 

Hvað ætli yrði um meinta misskiptingu launa ef allt yrði sundurliðað? Hvað fær forstjórinn með milljón á mánuði í framlög í sjúkrasjóð, endurhæfingarsjóð og lífeyri? Kannski minna en hinn almenni starfsmaður, eða hvað? Ég hef ekki hugmynd.

Ég furða mig nú samt á því hvernig forstjórar sem reka fyrirtæki með bullandi tapi fá yfirleitt útborguð laun. Eru þeir ekki verktakar hjá hluthöfum? Af hverju borga íslenskir hluthafar há laun til forstjóra sem skilar engum hagnaði og þar með engum arði í vasa hluthafanna? 

(Forstjóri sem nær fram myndarlegum hagnaði á vitaskuld að fá góða umbun fyrir slíkt, hvað sem líður launum starfsmanna hans, töxtum verkalýðsfélaga og annað slíkt. Fyrirtæki gera ekki annað en að reyna kaupa ódýrt, þar á meðal starfsmenn, bæta við verðmæti aðfanganna með vinnu starfsmanna, og selja dýrar.) 


mbl.is Mæta misskiptingu með afli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er nóg að skera niður?

Ímyndum okkur eftirfarandi samtal læknis og sjúklings með illkynja krabbameinsæxli:

Læknir: Kæri sjúklingur, við þurfum að taka aðeins af æxlinu til að koma í veg fyrir að það dragi þig til dauða.

Sjúklingur: Taka af? Þarf ekki að fjarlægja æxlið alveg?

Læknir: Nei, nei. Við tökum bara aðeins af því og reynum að koma í veg fyrir að það breiðist of hratt út.

Sjúklingur: Mun ég þá geta lifað eðlilegu lífi undir stöðugu eftirliti þínu með æxlinu?

Læknir: Þú verður alltaf svolítið slappur, og þarf sífellt að vera á varðbergi, en þetta er besta leiðin.

Sjúklingur: En hvað með að skera bara æxlið af eins og það leggur sig?

Læknir: Nei, það er ekki gott ráð. Þá hef ég minna að gera. Eða muntu hugsa stanslaust til mín ef þú ert laus við æxlið?

Sjúklingur: Nei, að vísu ekki. Maður hugsar nú ekki mikið til lækna þegar maður er heilbrigður og að vaxa og dafna.

Læknir: Nei þarna sérðu. Nei við förum í varfærinn niðurskurð og látum svo stóran hluta af lífi þínu snúast um mitt mikilvæga hlutverk í lífi þínu.

Sjúklingur: Jæja þá gott og vel, þú ert jú mikilvægur og þarft athygli.

Læknir: Já rétt. 


mbl.is Ríkisstofnanir þöndust út
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bannað að bjóða far?

Leigubílar bjóða far, gegn gjaldi. Ekki vissi ég að ég væri eitthvað sérstaklega tryggður í leigubíl enda aldrei beðið um slíkt og gæti vel hugsað mér að farið yrði ódýrara án slíkrar tryggingar og að slysatryggingin mín ein sjái um að tryggja mig fyrir óhöppum. 

Ég hef þegið far án rukkunar og boðið far án þess að taka gjald fyrir. Oftast þekki ég bílstjórann sem ég þigg far hjá, en ekki alltaf. Konan hefur fundið sér far á GoMore.dk hjá manni sem hafði fengið góða umfjöllun frá fyrri farþegum (en hann hafði áður gefið far í skiptum fyrir smáaura og félagsskapinn). 

En núna á sem sagt að banna að bjóða og þiggja far, a.m.k. ef slíkir greiðar verða of auðveldir í framkvæmd.

Ég bíð spenntur eftir að græningjar og aðrir sem berjast gegn "einn maður í bíl" taki nú slaginn og berjist fyrir útbreiðslu kerfa sem auðvelda fólki að bjóða og þiggja far. Þannig komast fleiri á áfangastað en áður með minni eldsneytisnotkun en áður, fyrir lægra fé og jafnvel í skiptum fyrir góðan félagsskap.

Ég bíð spenntur.  


mbl.is Snjallforrit veldur illdeilum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband