Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2014

Markaðslausnin: 'Third party'

Opinbert eftirlit veitir falskt öryggi, er yfirleitt frekar gagnslaust og óskilvirkt og kostar fyrirtæki og skattgreiðendur miklu meira en kostnaðurinn við sjálft eftirlitið er.

Eftirlit óháðra svokallaðra "þriðja aðila" (sá sem er hvorki veitandi né kaupandi) er samt oft talið nauðsynlegt. Markaðslausnin felst ekki í að biðja ríkisvaldið um að skattleggja sig og fá í staðinn heimsókn áhugalausra pappírspésa. Hún felst í að borga sérstökum fyrirtækjum til að fara í gegnum allt sitt og gefa út yfirlýsingu um hversu vel eða illa viðkomandi fyrirtæki stendur sig, t.d. í að uppfylla ákveðna staðla. 

Í þeim iðnaði sem ég starfa í er þetta talið sjálfsagt verklag. Enginn skortur eru á framboði á markaði óháðra eftirlitsaðila, og þeir keppa ekki bara í gæðum og verði heldur fyrst og fremst í orðspori - fyrir að vera sá eftirlitsaðili sem á skilvirkastan hátt tryggir að eftirfylgni við staðla sé til staðar. Nöfn í þessu samhengi eru t.d. Bureau Veritas, DNV og Lloyd´s Register

Þjónusta þessara fyrirtækja er ekki ódýr en hún er ekki dýrari en svo að eftirspurn eftir henni sé ekki til staðar. Hún er sem sagt rétt verðlögð. Engin leið er að komast að því hvort opinbert eftirlit sé of dýrt eða ódýrt. Það er bara þarna, með sína fjármuni, og framkvæmir það sem það sjálft telur nauðsynlegt.

Íslensk yfirvöld ættu að leggja niður allar eftirlitsstofnanir sínar. Þær eru engum til gagns nema stjórnsýslu hins opinbera.  


mbl.is Borga árlega en sjá lítið eftirlit
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fólk flýr krónuna

Innistæður landsmanna í bönkum fara lækkandi. Margar ástæður geta verið fyrir því. Ein, sem er sjaldan nefnd, er sú að fólk flýr hina íslensku krónu. Hvað sem lögin segja þá sitja margir Íslendingar á seðlabúntum af erlendum gjaldeyri. Aðrir hafa keypt sér listaverk og Rolex-úr til að geyma verðmætin sín í. Reiðufé eltir líka uppi fasteignir þessi misserin og kyndir undir verð á þeim.

Íslenska krónan er eins og kylfa sem yfirvöld nota til að berja almenning til hlýðni. Hana má nota til að lækka laun, styrkja útflutningsfyrirtæki, afla ríkisvaldinu peninga í gegnum verðbólgu (verðbólga er dulbúin skattlagning og eignaupptaka), hirða í gegnum beina skattlagningu á bæði vöxtum og verðbótum, veita embættismönnum mikil völd, réttlæta allskyns afskipti og eftirlit af öllu og öllum, og fleira mætti telja til.

Íslenska ríkisvaldið ætti að gera öllum greiða og hætta útgáfu peninga með öllu. Það þýðir: Leggja niður Seðlabanka Íslands og afnema öll lög um hvaða peninga fólk má og má ekki nota. Ríkisvaldið gæti svo gefið út leiðbeiningar um hvernig skattgreiðslur og skuldir til hins opinbera ættu að greiðast, en það ætti að vera auðvelt mál enda hafa yfirvöld um allan heim í gegnum alla mannkynssöguna tekið við skattgreiðslum í allskonar peningum án þess að það valdi sérstökum vandræðum.


mbl.is Minnkuðu um 332 milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Árabátnum stýrt í fellibyl

Að ætla sér að temja loftslag jarðar með takmörkunum á útblæstri er eins og að ætla sér að breyta um stefnu á árabát sem er staddur í fellibyl. Maðurinn ræður einfaldlega ekki við allt í kringum sig og getur í besta falli ákveðið að halda árabátnum á floti eða leyfa honum að hvolfa og drepa alla um borð.

Mjög margt hefur áhrif á loftslag jarðar. Útblástur mannanna er sennilega einn þáttur, en varla mikið meira en mjög lítill þáttur. Holuhraun á Austurlandi Íslands er annar. Ekki ráðum við því hvernig það hegðar sér. Jöklar, endurvarp sólarljóss frá ísbreiðum á jörðu, sveiflur í virkni sólar, sveiflur í straumum sjávar og margt annað mætti telja til. Þetta eru kraftar sem eru miklu, miklu öflugri en við fáum ráðið við. 

Gangi þeim vel sem ætla sér að fínstilla loftslag jarðar með því að setja aðrar bílvélar í bílar ríku landanna eða vilja einfaldlega henda þeim á haugana. Greyið ég samt að verða fórnarlamb þessara tilrauna. 


mbl.is Loftslagsaðgerðir í hættu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað er málið?

Ég get ekki mælt nógu mikið með grein Valdimars H. Jóhannessonar í hausthefti Þjóðmála. Ég hvet alla til að ná sér í eintak í næstu (góðu) bókabúð og lesa. Greinin er upplýsandi svo ekki sé meira sagt, hvað sem svo mönnum finnst um innihald hennar eða athugasemdir höfundar hennar eða höfundinn sjálfan ef því er að skipta. 

thjodmal_haust2014


mbl.is Börðu börn með rafmagnsköplum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tilboð: Læknar hætti að vera ríkisstarfsmenn

Nú stendur yfir enn ein kjaradeila ríkisstarfsmanna við ríkið. Hún mun þróast á fyrirsjáanlegan hátt. Ríkisstarfsmennirnir krefjast himinhárra launahækkana úr tómum ríkissjóði. Því er hafnað. Mjög lítil launahækkun býðst. Henni er hafnað. Á endanum setur ríkisvaldið lögbann á verkfallið og einhver hófleg launahækkun verður raunin.

Ríkisstarfsmannastéttirnar (læknar, kennarar, hjúkrunarfræðingar osfrv.) ættu að fara þekkja þetta ferli. Þær vilja samt engu breyta. Þær vilja vera algjörlega upp á einn atvinnurekanda komnar. Þær vilja ekki út á hinn kalda og miskunnarlausa frjálsa markað þar sem framboð og eftirspurn stilla af verð á launum og þjónustu. Þær óttast um starfsöryggi sitt, lífeyrisréttindi og önnur fríðindi sem bjóðast ekki nema hjá þeim sem fær ráðstöfunarfé sitt með valdi úr vösum skattgreiðenda.

Það er skrýtið því engin stétt sem í dag starfar á hinum frjálsa markaði vill inn í faðm ríkisvaldsins, eða hvað? Hafa augnlæknar, lýtalæknar, apótekarar og aðrar frjálsar stéttir heilbrigðisstarfsmanna óskað eftir því? Að vísu kæmi mér ekki á óvart að þær biðji um niðurgreiðslur til sjúklinga sinna úr vösum skattgreiðenda, en ekki vilja þær fá launaseðlana sína frá hinu opinbera, eða hvað?

Það kæmi mér á óvart. Að starfa á frjálsa markaðinum hefur nefnilega mjög marga kosti sem að mínu mati vega mjög upp á móti kæfandi faðmi ríkisvaldsins. Á honum er sveigjanleiki til að gera betur og vinna sig upp og auka verðmætasköpun sína og þar með umbunina fyrir þjónustu sína. Á honum er hægt að semja, hver fyrir sig. Á honum er hægt að markaðssetja sig. Og fleira mætti telja til. Nú fyrir utan að hinar frjálsu stéttir treysta ekki á nauðung til að fjármagna laun sín, sem ætti nú að vera nægjanleg röksemdarfærsla fyrir stækkandi einkaframtaki allstaðar. 

Ég legg til að ríkisvaldið bjóði læknum að verða frjálsir og að þingmenn leggi um leið til að heilbrigðiskerfið verði einkavætt frá toppi til táar, með einhverjum tímabundnum ráðstöfunum vegna þeirra sem hafa nú þegar greitt skatta í kerfið og gera ráð fyrir að fá eitthvað í staðinn fyrir þá. 


mbl.is Enn ekkert tilboð á borðið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þingmenn halda sér uppteknum með hverjum öðrum

Þingmenn eru duglegir að spyrja hvern annan út í allskonar. Það er gott. Það heldur þeim og embættismönnum þeirra uppteknum. Þeir gera því minna af sér á meðan. Óvirkt Alþingi er oftast betra en afkastamikið Alþingi. 

Á meðan gengur allt sinn vanagang í raunveruleikanum (fjarri sýndarveruleika þingmanna). Fólk stundar viðskipti og samskipti og nær saman um verð á vörum og þjónustu.

Jólafrí og sumarfrí Alþingismanna eru hátíð allra landsmanna. Þá fær almenningur örlítinn frið fyrir hinu opinbera. Best væri ef Alþingi gæti skroppið saman í litla fundaröð á haustin en væri að öðru leyti í dvala allt árið. Þingmenn mættu eftir sem áður þiggja fullt kaup. Að þingmenn séu í fríi er verðmætari nýting á tíma þeirra en að þeir séu iðnir við að skrifa lög og skipta sér af öllu og engu sem fer fram í samfélaginu. 

Að þingmenn geti leyft sér að vera í löngum fríum án þess að samfélagið hrynji er til merkis um að störf þeirra eru að mestu leyti tímasóun.  

Svo ég segi fyrir mitt leyti: Því fleiri fyrirspurnir, því betra! 


mbl.is Fjölda munnlegra fyrirspurna svarað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband