Bloggfærslur mánaðarins, maí 2013

Hvaða 'aðgerða' verður að grípa til?

Nánast undantekningalaust þegar talað er um "aðgerðir" vegna "loftslagsmála" (kólnunar/hlýnunar/breytinga af öllu tagi) er verið að tala um ríkisafskipti. Ríkisafskipti banna, skattleggja eða þjóðnýta. Meintar "aðgerðir" eru því oftar en ekki sósíalismi í dulargervi. 

Fyrirtæki eins og General Electric og ýmsir þrýstihópar hafa grætt vel á slíkum ríkisafskiptum. Þau hafa beinlínis ákveðið að hefja þróun og framleiðslu á t.d. vindmyllum til að komast á spena skattgreiðenda í nafni "loftslagsbreytinga".   

Almenningur virðist sem betur fer vera búinn að missa áhugann á öllu tali um hættur af "loftslagsbreytingum af mannavöldum". Dómsdagsspárnar hafa einfaldlega ekki ræst þótt einhver áhrif hljóti að vera af losun milljóna tonna af ýmsum lofttegundum í andrúmsloftið. Bryggjuhverfi hafa ekki farið á kaf þótt þau liggi beinlínis við sjóinn (t.d. þetta í Þrándheimi í Noregi). Sumir vísindamenn og aðrir sem þrífast vel á dómsdagsspám sínum reyna sífellt að bæta í til að hræða fólk til fylgis við málstaðinn en til lengri tíma hefur þannig tal bara aukið enn áhugaleysið. 

En er mengun ekki slæm? Jú mengun er slæm, en hún er fyrst og fremst spurning um vernd á eignarrétti. Síðan getur verið að eftirfarandi orð eigi vel við:

The possible damages of climate change should be compared to the possible damages of governmental bureaucratic intervention and political oppression. Maybe the whole global-warming scare is an excuse to increase the extension of political power or a distraction from other serious problems. Social institutions matter most, and they are very wrong now: a huge improvement is possible, and freedom is the answer.

Sammála!


mbl.is Þjóðarleiðtogar grípi til aðgerða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Embættismenn baða sig í sviðsljósinu

Hin svokölluðu "gjaldeyrisútboð" Seðlabanka Íslands veita embættismönnum sjaldgæft tækifæri til að láta ljós sitt skína. Þeir fá mikla athygli enda með mikil völd og eftirsótta vöru. Þeim finnst örugglega fátt skemmtilegra en meint útboð. Þeir geta samið um þóknanir og umboð og tekið við umsóknum sem þeir geta svo lesið yfir og gert athugasemdir við, hafnað eða samþykkt.

Útboðin eru að sögn "liður í losun hafta á fjármagnsviðskiptum" en eru ekki allir búnir að sjá í gegnum það? Þau veita stjórnmálamönnum og embættismönnum gríðarleg völd og þeir vilja ekki sleppa þeim. Þannig er það bara. 


mbl.is SÍ heldur gjaldeyrisútboð í júní
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þora þeir að vera óvinsælir?

Stefna hins íslenska hagkerfis er fram að bjargbrún ríkisgjaldþrots með tilheyrandi sársaukafullum afleiðingum fyrir alla sem starfa innan þess.

Hrunið haustið 2008 var auðvitað slæmt en engin sérstök ástæða var til að ætla að það ætti að vera meira en skammvinn óþægindi á meðan skuldirnar yrðu hreinsaðar út. Hrunið varð hins vegar þjóðnýtt. Ríkissjóði var ýtt undir allt sem var að hrynja. Tiltektinni var slegið á frest. Ríkissjóður skuldar svimandi fjárhæðir í kjölfarið.

Ný ríkisstjórn þarf að þora að vera óvinsæl. Hún þarf að verða óvinsæl hjá mörgum. Viðræður við lánadrottna ríkisins þurfa að hefjast og í þeim þarf að ræða afskriftir og lengingu lána. Stokka þarf upp skuldbindingar ríksins og koma sem flestum frá. Lífeyrisréttindi eru þar engin undantekning. Allar stórar opinberar framkvæmdir þarf að endurskoða. Augljóslega þarf að selja ríkið út úr Hörpu og öðrum slíkum skuldbindingum. Stíf forgangsröðun þarf að eiga sér stað í ríkisrekstrinum og stóra afkima hans þarf að leggja niður eða selja. Seðlabanka Íslands þarf að leggja niður og ríkið á að hætta að skipta sér af því hvaða peninga fólk notar, og hvaða verðtryggingar það styðst við, ef einhverjar. 

Skuldir þarf að greiða niður. Skatta þarf að lækka mikið svo hagkerfið nái andanum aftur. Þetta þarf að gerast á sama tíma, svo ríkisútgjöld þurfa að lækka það mikið að bæði sé hægt að greiða niður skuldir og lækka skatta.

Þetta mun þýða óþægindi fyrir marga. Ávinningurinn er samt mikill, þótt hann komi ekki í ljós strax. Hann er sá að hægt verði að byggja upp til framtíðar. Tækifærin eru gríðarlega mörg og stór en þau eru í dvala í dag. 

Ríkisstjórnin þarf að þola að vera óvinsæl. 


mbl.is Í viðræður við Sjálfstæðisflokk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvaða 'umboð' er þetta?

Fréttamenn virðast taka munnlegt leyfi forseta Íslands um að einhver "megi" fara í viðræður um stjórnarmyndun mjög alvarlega.

Slíkt umboð hefur ekkert formlegt gildi. Það er í besta falli beiðni til formanna flokkanna um að bíða rólegir á meðan einhver einn þeirra flakkar á milli hinna og ræðir stjórnarmyndun. Allir mega engu að síður tala við alla. Allir geta sömuleiðis látið það eiga sig að tala við alla. Forseti Íslands hefur ekkert formlegt hlutverk hérna. Stundum hefur forseti þurft að sýna frumkvæði og lokka menn að samningaborði þegar hvorki gekk né rek í stjórnarmyndunarviðræðum, en það er ekki staðan hér. 

Að því sögðu vona ég að formenn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks kynni sér þessa grein og fari jafnvel eftir henni. Þá er hætt við að Íslendingar komist loksins upp úr hjólförum seinustu fjögurra ára, hinna "töpuðu ára" hinnar "hreinu vinstristjórnar" (sem var miklu, miklu, miklu lengra til vinstri en "hreinar vinstristjórnir" hinna norrænu landanna).


mbl.is Ræðir við Bjarna aftur í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinstristjórn aftur? Hvað þá?

Einhver hætta virðist vera á að Framsóknarmenn leiði vinstriflokkana aftur til valda. Það væri auðvitað hræðilegt, en kjósendur kusu eins og þeir kusu og þannig er það bara. Lýðræði snýst um að leyfa almenningi að veita þingmönnum öll völd í allt að fjögur ár.

Íslensk vinstristjórn hefur ákveðin einkenni og gildir þá einu hvort hún starfi á Alþingi eða sveitarfélagi. R-listinn í Reykjavík í því samhengi er nærtækt dæmi fyrir mig, því ég er Reykvíkingur og man vel eftir R-listanum. Hafnfirðingar þekkja líka vel til vinstristjórna. Fráfarandi vinstristjórn er öllum í fersku minni.

Einkenni íslenskra vinstristjórna eru nokkur, en þessi helst: 

  • Skuldasöfnun er hafin af fullum krafti eða henni haldið áfram og gefið í, en alltaf undir fána "tímabundinnar" skuldasöfnunar" sem virðist samt aldrei taka endi.
  • Þegar skuldasöfnun er komin á hættuleg stig er henni haldið áfram aðeins lengur, en smátt og smátt taka tilfærslur á milli opinberra eininga við. Verkefni eru sett í "einkaframkvæmd", hús eru seld en leigð aftur til áratuga, laun opinberra starfsmanna hætta að hækka en lífeyrisréttindi þeirra friðlýst (þau eru vandamál seinni tíma stjórnmálamanna). Flóknara og flóknara verður að komast að því hvað hið opinbera skuldar, en niðurstöðurnar alltaf meira og meira sláandi þegar það hefur verið gert.
  • Allskyns gæluverkefni fá algjöran forgang. Ef einhver reynir að stöðva eitthvert þeirra er stjórnarslitum hótað. 
  • Skattar hækka - allir með tölu. Nýir skattar eru lagðir á. 
  • Gjaldskrár fyrir opinbera þjónustu hækka.
  • Allskyns óvissa er vafin utan um það hvað má og hvað ekki, og sífellt hrært í því. 

Ég skora á lesandann að nefna mér dæmi um íslenska miðju-vinstristjórn á seinustu áratugum sem hefur vikið af einhverjum ofangreindra atriða. Gildir einu hvort sú stjórn starfaði á Alþingi eða einhverju sveitarfélaginu.

Þetta blasir við Íslendingum í dag. Góð ástæða er til að hræðast. Það geri ég fyrir hönd vina mína og fjölskyldu á Íslandi. 


mbl.is Ekki enn formlegar viðræður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband