Bloggfærslur mánaðarins, maí 2011

Búið spil?

Stórfelld raforkuframleiðsla með notkun vindmylla hefur lengi verið draumur þeirra sem af einhverjum ástæðum vilja minnka notkun jarðefnaeldsneytis (t.d. af ótta við að slíkt eldsneyti sé bráðum á þrotum, eða telja að brennsla slíks eldsneytis sé skaðleg umhverfinu). Vindmyllur hafa notið mikils ríkisstuðnings, bæði beins (í formi "fjárfestinga" með notkun skattfjár eða beinna ríkisstyrkja), og óbeins (í gegnum kaup ríkisfyrirtækja á vindmyllum).

Þrátt fyrir allt þetta styrkjabatterí og mikinn pólitískan velvilja í garð vindmylla hefur iðnaðurinn ekki náð sér almennilega á strik. Heimurinn er þyrstur í raforku og er tilbúinn að borga hátt verð fyrir hana, en vindmyllur hafa á í erfiðleikum með að hasla sér völl sem framleiðendur hennar. Af ýmsum ástæðum.

Geymsla raforku er dýr og erfið og raunar ekki talin fýsileg nema í mjög sérstökum aðstæðum (t.d. þar sem er hægt að nota raforku á nóttunni til að dæla vatni upp, og það síðan látið falla niður að degi til og framleiða raforku á meðan eftirspurnin er mest). Vindmyllur framleiða bara þegar vindar blása rétt, og það er mjög erfitt að nýta hina miklu og dýru fjárfestingu nægilega vel.

Vindmyllur taka mikið pláss og þeim fækkar, ef eitthvað, sem nenna að horfa á þessi ferlíki. Menn hafa því brugðið á það ráð að ýta þeim út á sjó, en það gerir fjárfestinguna bara enn dýrari. Það hefur líka gerst að vængirnir brotni af vindmyllunum, og það er ekkert spaug. Vængirnir eru fleiri tugir metra á lengd og níðþungir.

Svo er það kostnaðurinn. Þetta eru dýrar græjur, þrátt fyrir ríkisniðurgreiðslurnar. Það tekur mjög langan tíma fyrir fjárfestinguna að borga sig upp, og það er þá bara að því gefnu að hún endist nægilega lengi. Viðhald er dýrt og stöðugleiki í rekstri ekki með því besta sem gerist.

Margir halda samt ennþá í vonina. Aðeins meiri niðurgreiðslu, aðeins lengur, og þá kemur þetta! "Núna" er tæknin orðin það góð að vindmyllur eru orðnar samkeppnishæfar, segja margir, og hafa sagt í mörg ár. En ekkert gerist. Um leið og stjórnmálamenn stíga á útgjaldabremsuna rúlla stórar taptölur yfir allan iðnaðinn. 

Kannski er þetta vindmylluævintýri búið spil. Kjarnorkan hefur legið nánast ónýtt í nokkra áratugi og komin aftur á borðið. Fallvötn, með öllum sínum uppistöðulónum, eru líka orðin álitlegri eftir því sem raforkuverð klifrar hærra og olían hækkar í verði (í dollurum, ekki gulli og silfri). Svo má ekki gleyma gömlu góðu olíunni, sem býður upp á auðvelda "geymslu" á orku og flæðir enn í stríðum straumum upp úr borholum, sem fjölgar hratt. 


mbl.is Gríðarlegt tap hjá Vestas
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Qu'ils mangent de la brioche

Qu'ils mangent de la brioche.

Þessi orð eru gjarnan (en sennilega ranglega) eignuð frönsku drottningunni Marie Antoinette og þýða "látum þá borða köku", en drottningin átti að sögn að hafa látið þessi orð falla þegar henni var sagt frá mikilli hungursneyð almúgans því mikill brauðskortur var í landinu. Já, af hverju borða þau þá ekki bara kökur?

Á Íslandi finnst fólk sem lifir hátt á kostnað annarra, búið að tryggja sér há eftirlaun á kostnað skattgreiðenda og með mánaðarlaun sem nálgast [sjö] stafa tölu. Þetta fólk hamaðist fyrir því að tónlistarferlíkið við Reykjavíkurhöfn yrði áfram í smíði þótt ekki væri til króna á reikningi hins opinbera. Því var haldið fram að það væri "ódýrara" að klára húsið en pakka því inn í plast og setja á sölu eða bíða með að klára það. Þetta sagði m.a. Björk Guðmundsdóttir, söngkona, sem verður seint þekkt fyrir hæfileika sína í stærðfræði. 

Nú er húsið að vera tilbúið. Um milljarð á ári þurfa skattgreiðendur að blæða til að rekstur þess gangi upp miðað við einhverja áætlun um nýtingu og miðasölu, þar af 419,4 milljónir í ár (sjá r undir Fjármál ríkisfyrirtækja í A-hluta >  ráðuneyti 02 > 3. umræða). Hvað sparaði ríkið mikið á því að loka heilbrigðisstofnunum úti á landi í ár? 

Hin háa elíta horfir niður á almúgann sem missir heimili sín og á ekki fyrir mat. Hin háa elíta hugsar með sér að eitthvað verði nú að gera fyrir þetta aumingja fólk. "Látum það borða köku! Förum á tónleika í Hörpu á meðan það fyllir maga sína."

Hin háa elíta á Íslandi ætti að kynna sér fallöxina góðu, þar sem hin háa elíta í Frakklandi endaði á sínum tíma.


mbl.is Ekki eftir neinu að bíða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Guðlaugur Þór snýst til varnar

Ég er enginn sérstakur aðdáandi Guðlaugs Þórs. Hann virðist hafa margt í pokahorninu sem hann vill ekki að sjái dagsljósið og forðast að svara hreint út þegar hann er spurður út í ýmis mál. Þetta þykir mér miður því hann er a.m.k. að leggja eitthvað af mörkum sem Alþingismaður.

Hins vegar er sjálfsagt mál og gott mál að hann snúist til varnar gegn þeim sem ásaka hann um alvarlega glæpi

Björn Valur Gíslason, þingmaður, hefur annaðhvort einhverja vitneskju um saknæmar embættisfærslur Guðlaugs Þórs sem hann á einfaldlega eftir að koma áleiðis til lögreglu, eða ekki. Ef ekki, þá leyfir hann sér sennilega samt að ásaka í trausti þess að enginn grípi til neinna aðgerða, því "umræðan" á Íslandi er hvort eð er troðfull af innihaldslausum ásökunum um allt og alla. 


mbl.is Ætlar að stefna Birni Val
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ánægðir, en ...

Ég hef búið í Danmörku í nokkur ár og ætla að leyfa mér að taka undir niðurstöðu þessarar könnunar: Danir eru vissulega ánægðir með lífið.

Þeir eru til dæmis mjög ánægðir þegar þeir opna kaldan bjór í lok vinnuviku. Þeir eru ánægðir með góða vínið eða sæmilega bjórinn sem þeir fengu á góðu verði í næsta stórmarkaði. Þeir kunna vel að meta góðan mat. Mörgum þeirra finnst gott að reykja. Danir eru lífsnautnafólk og láta ekki segja sér fyrir verkum þegar kemur að því að njóta hins óholla og vímuvaldandi í lífinu.

En hafa Danir það eitthvað betra en Íslendingar? Já, sennilega þessi misserin á meðan vinstristjórnin sendir íslenska hagkerfið á bólakaf, en annars ekkert endilega. Þeir lifa álíka lengi og Íslendingar, þeir drekka og reykja meira og eru mjög ánægðir með það en eru ekkert sáttari en Íslendingar við umferðarhnúta, biðstofur á troðfullum neyðarmóttökum, þola ekki að þurfa bíða í síma eftir að fá þjónustu, finnst ótrúlega og óþolandi dýrt að kaupa og reka bíl (enda keyra þeir um á druslum), og svona mætti lengi telja.

Ég held að munurinn á "ánægju" Íslendinga og Dana sé að mestu leyti fólginn í viðhorfi. Daninn gerir sér grein fyrir því að lífið er skin og skúrir, að margt mætti betur fara, og að lengi getur vont versnað eða gott batnað, en hann hefur a.m.k. ódýra rauðvíns- eða bjórflösku og sígarettu til að halla sér að eftir vinnu. Íslendingurinn bítur á jaxlinn, tuðar aðeins meira, vinnur aðeins lengur til að geta keypt aðeins meira og hrynur svo í það um helgina. 

Þetta var félagsfræðigreining dagsins hjá mér. Ég lofa því ekki að hún standist gagnrýni. 


mbl.is Danir ánægðastir með lífið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband