Bloggfærslur mánaðarins, júní 2010

Að ræða eða ekki ræða

Skemmtileg lýsing á "viðræðuferlinu" hér þar sem vísað er í þessa könnun:

Mjög merkilegt er að svo stór hluti vilji að Össur hætti dyraati sínu í Brussel því að á tímabili vildu margir Íslendingar „sjá hvað væri í boði“ og höfðu þá fallið fyrir plati vinstrimanna um að aðild að ESB væri létt spjall yfir kaffibolla en ekki bein og afdráttarlaus ósk um að landið og allar auðlindir þess renni til Brussel.

 Í fréttinni segir:

Ljóst sé hins vegar að talsverður tími muni fara í að ræða þætti á borð við sjávarútvegsmál, landbúnaðarmál og byggðamál. 

 Já auðvitað fer langur tími í að "ræða" þessa þætti. ESB vill komast inn á hina íslensku landhelgi en Íslendingar vilja hafa hana út af fyrir sig. Þarna ber himin og haf á milli og í raun er um óbrúanlegt bil að ræða. Þess vegna verða "viðræður" um það tímafrekar.


mbl.is Enn greint á um hvort ESB-aðild sé háð Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hið sanna ástand Íslands

Oft eru ræður Jóhönnu Sigurðardóttur og fleiri úr hennar flokki mjög gagnlegar því þær segja gjarnan andstæðu þess sem rétt er. Jóhanna segir til dæmis að krónan hafi styrkst, en það er tímabundin tálsýn. Hún segir verðbólguna vera á niðurleið. Það er sömuleiðis tálsýn. Krónustyrking og verðbólgufall getur ekki átt sér stað nema krónunni sé leyft að taka út verðhrun sitt og styrkjast á raunverulegum forsendum. Í dag koma fastar viðjar ríkisvaldsins í veg fyrir slíkt.

Sumir stjórnarherrar hafa talað um að atvinnuleysi sé ekki eins mikið og fyrst var óttast. Það er vegna landflótta verðmætaskapandi fólks, og er neikvætt.

Jóhanna talar um að hagvöxtur sé að "hefjast". Það má vera, enda er hagvöxtur fyrst og fremst mælieining á útgjöld. Ef ríkið tekur 1000 milljarða lán og reistir fyrir það pýramída úr grjóti á toppi Esjunnar þá mun sú framkvæmd teljast sem plús á hagvaxtarreikninginn. Skaðleg aðgerð fyrir hagkerfið engu að síður.

Þessi ríkisstjórn og raunar megnið af stjórnarandstöðunni man ekki hvernig Ísland komst í áratugalanga uppsveiflu upp úr lokum 9. áratugs 20. aldar. Þess vegna mun þessu Alþingi ekki takast að rétta við þjóðarskútuna.


mbl.is Hagvöxtur að hefjast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verða búslóðirnar kannski 20 á viku bráðum?

Ef fer sem horfir þá mun landflóttinn halda áfram og jafnvel aukast á næstu misserum. Efnahagsstjórnin er í molum og ennþá er verið að gera illt verra. Þetta hljóta meira að segja stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar að sjá.

Hver er svo leiðin út úr kreppunni? Hún er sáraeinföld. Ríkið þarf að hætta að eyða meira en það hefur í tekjur, og það sem það hefur í tekjur er alltof mikið. Ríkið þarf sem sagt að skera útgjöld sín niður um tugi prósenta og lækka skatta á allt og alla. Þetta er sögulega séð besta leiðin út úr efnahagshruni. Sú versta er að skuldsetja ríkið á bólakaf og hlusta á þá sem tala um að "eyða" sig út úr kreppunni með skuldsettri neyslu.


mbl.is Allt að 10 búslóðir fluttar til Noregs í hverri viku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aukin eftirspurn, óbreytt framboð

Útgjalda- og eyðsluveisla hinnar nýju borgarstjórnar byrjar aldeilis vel þótt hún geri það í upphafi fyrst og fremst með táknrænum hætti. Fyrsta skrefið: Auka eftirspurn eftir sundferðum í Reykjavík hjá fólki sem nú þegar þarf ekki að borga mikið fyrir slíkt, og væntanlega í leiðinni þrengja að þeim sem borga hæsta verð og þar með draga úr eftirspurn þeirra í sundlaugar borgarinnar. Að minnsta kosti á laugardögum.

Þetta heitir að auka eftirspurn eftir lítt/illa borgandi kúnnum um leið og framboði (af plássi) er haldið föstu, og þannig minnka eftirspurn hjá þeim sem áður mátu sundferðir nógu mikið til að vilja greiða fyrir þær nokkra hundraðkalla.

Þetta er e.t.v. ekki stórt skref í útgjaldaaukningu/tekjumissi fyrir borgarsjóð, en líklega vísbending um það sem koma skal. Innan mánaðar eða tveggja verður annaðhvort búið að setja útsvarið í topp eða gefa til kynna að það sé á döfinni. "Gjaldskrárhækkanir" byrja svo fljótlega að sýna sig. Borgarsjóður fer síðan fljótlega út í lántökur (skattlagningu framtíðarinnar) enda þykir sumum innan borgarstjórnar það vera skynsamlegt ("Samfylkingin telur skynsamlegt að taka lán til að halda uppi framkvæmdastigi í kreppunni").

Ætli Dagur B. Eggertsson sé búinn að taka þrefalt veð á húsnæði sínu og dæla fénu í nýtt parket og eldhús til að halda uppi "framkvæmdastigi"? Eða lætur hann skattgreiðendur eina um slíka bábilju?

Hækkandi skattar. Hækkandi skuldir. Góð hugmynd?


mbl.is Ókeypis í sund fyrir börn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar keisarinn hlær, þá hlægja aðrir með

Besti flokkurinn er e.t.v. "ekki stjórnmálaflokkur í hefðbundnum skilningi þess orðs", en hann hefur engu að síður raunveruleg völd í mjög hefðbundnum skilningi þess orðs. Hann og samstarfsflokkur hans í borgarstjórn geta ákveðið að féfletta núverandi og komandi kynslóðir Reykvíkinga með stóraukinni skattlagningu og gjaldtöku á öllu mögulegu og einnig stórkostlegri skuldsetningu borgarinnar og leppfyrirtækja hennar. Í stíl R-listans.

Jón Gnarr mun láta Dag B. Eggertsson sannfæra sig um að hækka útsvarið í topp. Það er nánast öruggt. Enginn mun þora að segja neitt því þegar keisarinn segir "brandara", þá hlægja hinir sem vilja vera í hlýjunni og taka þátt í veislunni. Þannig er það og hefur alltaf verið í pólitík, og alveg hægt að ganga að því sem gefnum hlut. 

Vonandi innleiðir Jón Gnarr einhverjar góðar breytingar í borgina og kemur með ferska sýn á t.d. botnlaust bruðlið í rekstri borgarinnar. Vonandi gerir hann það, þótt hann hafi ekki fært neitt nýtt fram ennþá t.d. þegar kemur að myndun meirihluta þar sem flokknum sem missti mest fylgi er úthlutað nánast hverju sem hann vill. 


mbl.is Meira ímyndunarafl en rökhugsun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kolröng áhersla á 'neyslu'

Hagstofa Íslands hefur ekki lært neitt af hruninu frekar en hagfræðideild Háskóla Íslands, hagdeild ASÍ eða greiningardeildir bankanna, þ.m.t. Seðlabanka Íslands. Áfram er byggt á kenningum Keynes þar sem svokölluð "aggregate demand" er ranglega talin vera drifkraftur hagkerfisins.

Ef hagfræðingar hins blanda hagkerfis (þar sem ríkið einokar peningaútgáfu og bankarnir græða á henni) mættu ráða, þá værum við öll að botna öll kreditkort núna til að eyða og eyða og halda þannig "einkaneyslu" uppi og þar með "eftirspurn" í hagkerfinu. Spekingarnir segja að með því móti mætti koma "hjólum hagkerfisins" af stað og þannig eyða kreppunni.

Þetta raus þarf að hunsa. Almenningur þarf að spara, hætta að eyða og byrja að greiða niður skuldir. Spekingarnir sem halda á lofti merki hins blandaða hagkerfis eru hugmyndafræðingar kreppunnar. Þeim þarf að sópa af borðinu.


mbl.is Raunlækkun um á annan tug prósenta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

'Öðlast' eignarrétt á vatnsauðlindum?

Það er vægast sagt furðulegt að tala um að löggjöf "veiti" eignarréttindi og þá sérstaklega á einhverju sem er í raun eign einhvers. Eða hvað var það sem gaf landeiganda "leyfi" til að setja upp dýran borbúnað, bora eftir vatni og síðan nýta það? Gaf löggjafinn "leyfi" fyrir því að verð á landi endurspeglaði m.a. aðgang að vatni á því?

Ekkert slíkt átti sér stað. Landeigandi lítur einfaldlega á vatnsból á landi sínu sem hluta af eign sinni rétt eins og grasið og steinana, og leggur í fjárfestingar út frá þeirri vitneskju (rétt eins og hann girðir af graslendi, grefur skurði á landinu eða slær grasið). Landeigandinn treystir því svo að ef einhver spillir vatninu hans eða sýgur það í burtu án leyfis þá geti hann leitað til yfirvalda sem verja eignarrétt hans með lögreglu og dómstólum.

Nú er hins vegar talað um að "veita" eða "afnema" eignarréttindi á vatnsbólum með löggjöf. Landeigandinn horfir upp á réttarstöðu sína komast í algjöra óvissu. Hann veit ekki hvort löggjafinn ákveði að þjóðnýta eign hans eða ekki. Skiptir engu máli hvort ríkið talar um "bætur" eða annað slíkt. "Bætur" vegna þjóðnýtingar eru einfaldlega handahófskennd upphæð sem er ákveðin einhliða af "kaupanda", án þess að "seljandi" hafi nokkuð um það að segja. Sannkölluð andstæða frjálsra viðskipta.

Í stað þess að tala um að landeigendur "öðlist" eignarrétt eða ekki væri mun hreinlegra og hreinskilnara að tala um "þjóðnýtingu" eða ekki þjóðnýtingu. Sú orðanotkun er mun betur lýsandi fyrir þessa umræðu alla og varpar skýrari ljósi á undirliggjandi hugmyndafræði hlutaðeigandi.


mbl.is Ósáttir við þjóðnýtingu vatns
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gagnslaus spá byggð á sandi

Nýjasta spá Hagdeildar ASÍ er gagnslaus og spáir hvorki rétt á röngum forsendum né rangt á réttum forsendum. Ef hún gengur eftir þá verður það af tilviljun einni.

Talað er um að atvinnuleysi sé ekki eins slæmt og talið var í fyrri spá. Þetta er útskýrt á einum stað: "Skárri staða skýrist m.a. af því að fleiri hafa dregið sig út af vinnumarkaði en áætlað var."

Er lágt atvinnuleysi jákvæð hagstærð ef það verður m.a. útskýrt með því að verðmætaskapandi hendur hafa hreinlega flúið land? Er hið lækkandi atvinnuleysi þá ekki merki um að verðmætasköpun og þar með "vöxtur" hagkerfisins verði rýrari en ella? Hefði þá ekki verið betra að hafa iðjulausar en hæfileikaríkar hendur á landinu svona nú ef ske kynni að einhver þyrði að fjárfesta í vinnu þeirra? Er hið fallandi atvinnuleysi sem afleiðing landflótta þá ekki merki um að hagvöxtur verði minni en ella, þegar hinar atvinnulausu hendur voru a.m.k. á landinu og tilbúnar í uppbygginguna þegar kallið kæmi?

Allar spár ASÍ um "verðbólgu" (sem þeir skilgreina sennilega ranglega sem hækkandi verðlag, en ekki réttilega sem aukning á peningamagni í umferð) eru gagnslausar á meðan hér ríkja gjaldeyrishöft og gengi íslensku krónunnar er afskræmd spegilmynd af raunverulegu verðmæti hennar á markaði, og fær ekki að leiðrétta sig.

Hagvaxtarspá ASÍ hefur m.a. sem forsendu að "fyrirhugaðar stórframkvæmdir í atvinnulífinu komist á skrið á næsta ári og auki verulega á atvinnuvegafjárfestinguna næstu tvö árin" og þar með er hagvaxtarspá ASÍ strax orðin gagnslaus og úreld. Ríkisstjórnin hefur gert allt sem á hennar valdi stendur til að flæma fé og fjárfesta frá landinu, og þeir fáu sem hafa þorað að tala um fjárfestingar á Íslandi (t.d. einkaspítala á Reykjanesi, virkjanir eða hugmyndir Magma Energy) fá skammir frá yfirvöldum. 

Hagdeild ASÍ byggir spá sína á tvennum stoðum:

  • Hagfræðinálgun sem byggist á módelum og reiknilíkönum, en ekki raunveruleikanum
  • Pólitískri nálgun sem endurspeglar með engu móti pólitískan raunveruleika í dag

Þessa spá er því rólega hægt að setja ofan í skúffu og leyfa henni að dvelja þar. 


mbl.is Spá 4,8% samdrætti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ísland þarfnast stjórnarskipta

Skattgreiðendur sjá nú fram á að geta arfleitt jafnt börn sín sem barnabörn að skuldum vegna gríðarlegs hallareksturs hins opinbera. Tónlistarhöllin við höfnina er enn í byggingu. Hundruðum milljóna er sólundað í þýðingar á umsóknareyðublöðum Evrópusambandsins.

Ríkið talar um að ráðast í „mannaflsfrekar framkvæmdir" á kostnað skattgreiðenda, sem vitaskuld þýða ennþá mannaflsfrekari uppsagnir hjá einkaaðilum.

Hækkandi skattbyrði, gjaldeyrishöft og aðrar viðjar eru smátt og smátt að kyrkja hagkerfið. Ríkið hefur tekið yfir allar tegundir fyrirtækja og rekur þau nú með tapi á kostnað skattgreiðenda, um leið og samkeppnisaðilum þeirra blæðir hægt og rólega út og svona má lengi telja.

Þetta og meira til eru ljómandi góðar ástæður fyrir Íslendinga til að byrja hugleiða stjórnarskipti. Meira um það í Morgunblaðsgrein eftir mig í dag. Ójá.


mbl.is Halli hins opinbera 24,2 milljarðar króna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skuldsett opinber neysla?

Hvaða tölu vantar í eftirfarandi útdrátt (feitletrun mín)?

Landsframleiðsla er talin hafa aukist um 0,6% að raungildi frá 4. ársfjórðungi 2009 til 1. ársfjórðungs 2010. Á sama tíma jukust þjóðarútgjöld um 1,3%. Einkaneysla dróst saman um 0,6%, samneysla um 0,5% og fjárfesting dróst saman um 15,6% en sá samdráttur skýrist að mestu leyti af kaupum á skipum og flugvélum á 4. ársfjórðungi.

 "Þjóðarútgjöld" hækkuðu um 1,3% m.v. sama tíma í fyrra.

Einkaneysla, "samneysla" og fjárfesting dregst saman.

Niðurstaðan: "Landsframleiðsla" eykst um 0,6%.

Einkaneysla dregst saman. "Landsframleiðsla" vex. Er rétt ályktað hjá mér að mismunurinn á þessu tvennu sé neysla hins opinbera? Opinber útgjöld?

Ef þau eru að aukast, á meðan einkaneysla er að dragast saman (auk allra skattstofna ríkisins), er hún þá að aukast með lántökum og skuldsetningu hins opinbera?

Ef svo er, þá eru fréttir af aukningu "landsframleiðslu" slæm tíðindi.

Í Bandaríkjunum stæra stjórnvöld sig nú af "aukningu" landsframleiðslu. Um það hefur eftirfarandi verið sagt (feitletrun mín):

In recent months, GDP numbers have rebounded - primarily as a result of record low interest rates reliquifying the credit market and government stimulus jolting consumer spending. Although the "positive growth" has delighted Obama's economic brain trust, it has done little to boost the fortunes of Main Street. As I have said many times, GDP largely measures spending, and spending is not growth

...sama hvað hver segir!


mbl.is Aukning landsframleiðslu 0,6%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband