Áhrif tillagna VR

VR ályktar sem svo:

Stjórn VR skorar á ríkisstjórnina og alþingi að nota tækifærið nú til að leiðrétta óréttlæti fyrri stjórna, að hækka skattleysismörk verulega og hækka skattprósentuna á móti. Þannig má  laga skattbyrðina og færa upp á við í tekjustiganum. Einnig bendir VR á þá leið að taka upp fastskattavísitölu sem drægi úr áhrifum neysluskatta á vísitölu til verðtryggingar og að frekari áhersla verði lögð á beina skatta. Þannig má forðast óþarfa hækkun á höfuðstól og afborgunum verðtryggðra lána almennings þrátt fyrir nauðsynlega tekjuöflun ríkisins.

Segjum sem svo að þessum tillögum yrði fylgt eftir. Hverjar yrðu afleiðingarnar?

Hækkun skattleysismarka og hækkun skattprósentu

Hér er gerð tilraun til að flytja skattbyrðina "upp tekjustigann" í stað þess að lækka hana. Eru til einhver gögn sem benda til þess að þetta hafi gerst við seinustu hækkun skattleysismarka? Að vísu var þá einnig farið í lækkun skatthlutfallsins sem ætti að draga úr tilhneigingu þeirra sem geta til að lækka sig í beinum launatekjum og hækka við sig annars konar tekjur, t.d. vegna svartrar vinnu. Þegar múrinn milli núll-skatts og einhvers skatts er hækkaður, þá er hætt við að færri vilji og nenni klifra yfir hann. Þegar það borgar sig varla að vinna fyrir meira en sem nemur tekjum upp að skattleysismörkum, þá er hætt við að færri muni nenna því.

Áhrif hækkandi neysluskatta reiknuð út úr vísitölu neysluverðs

Hvert er hlutverk vísitölu neysluverðs? Á einum stað segir: "Vísitala neysluverðs er viðmiðunarkvarði milli tímabila og lítur til verðbreytinga á vörum og þjónustu sem eru á útgjaldalið heimilanna."

Af hverju er þessi vísitala reiknuð út? Það er meðal annars gert til að lánveitendur geti fengið vísbendingu um kaupmátt útlána sinna ef þeir hefðu peninginn í höndunum í dag og ætluðu út í búð og versla fyrir þá. Kaupmáttur þessi hangir ágætlega saman við magn peninga í umferð (í tiltekinni mynt).

Ef verðlag er hækkað með skattahækkunum, þá minnkar kaupmáttur peninga - fleiri peninga þarf til að eignast sama varning. Segjum nú sem svo að ég láni út 1000 kr. sem í dag duga til að kaupa eina DVD-mynd (DVD-vísitala upp á 1). Segjum svo að á morgun setji ríkið á afþreyingarskatt upp á 10% sem hækkar verð á DVD-myndum upp í 1100 kr (DVD-vístalan fer í 1,1). Ég sem útlánandi sé kaupmátt útláns míns minnka, en hafði sem betur fer sett ákvæði í lánasamninginn um að kaupmáttur lánsins eigi að vera fastur, mælt í DVD-vísitölunni. Höfuðstóll þess hækkar því í 1100 kr, samkvæmt þeim samningi.

En nú setur ríkið lög sem segir að afþreyingarskattur eigi ekki að reiknast inn í DVD-vísitöluna. Það sé hreinlega bannað. Ég sem útlánandi þarf því að sjá á eftir þeim kaupmætti sem skatturinn ylli á útláni mínu. Hvernig bregst ég við því, ef ég lögsæki ríkið hreinlega ekki fyrir þessa árás á gildan lánasamning minn við lántakanda? Ég hætti að nota DVD-vísitöluna sem viðmiðun, fer t.d. að styðjast við gullverð eða einhverja aðra vísitölu sem er ekki búið að brengla.

Og þannig er það nú einfaldlega.


mbl.is VR: Ótrúverðug framkoma stjórnvalda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

 Mig langar aðeins að gera smá athugasemd. Við þetta.

"Af hverju er þessi vísitala reiknuð út? Það er meðal annars gert til að lánveitendur geti fengið vísbendingu um kaupmátt útlána sinna ef þeir hefðu peninginn í höndunum í dag og ætluðu út í búð og versla fyrir þá. Kaupmáttur þessi hangir ágætlega saman við magn peninga í umferð (í tiltekinni mynt)."

Þetta er ekki rökrétt. Þetta er þjóðhagslega skaðlegt og andstætt kenningum um frjálsann markað. Ef þú aðhyllist þær. Ef ekki þá vil ég benda þér á annan vinkil.  Þetta er vatn á millu Samfylkingar sem er búin að selja þjóðinni það að verðtrygging sé vegna krónunnar. Það er ósönn fullyrðing. Verðtrygging lánsfjár með vísitöluútreikningum neysluverðs er langt frá því að vera eðlileg leið til að tryggja ávöxtun lánsfjármagns.

Þetta skapar ójöfnuð. Það er ekki gott að fjármagn sé tryggt á þennan hátt. Það eru til mikið betri leiðir.

Verðtrygging er skaðleg fyrir allt hagkerfið.

http://www.smugan.is/pistlar/nr/2337

Við viljum það sama...kröftugt skapandi fjármálalíf. 

Vilhjálmur Árnason (IP-tala skráð) 7.10.2009 kl. 17:42

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Sæll Vilhjálmur,

Ég þakka fyrir ágæta ábendingu.

Þú segir: "Afnám verðtryggingar og lækkun vaxta sem leiðir til verðmætasköpunar í hagkerfinu. Þá lækka skuldir og verðgildi krónunnar styrkist."

Með öðrum orðum, að skapa umhverfi þar sem verðmætasköpun er að minnsta kosti ekki eftirbátur krónufjölgunar, ef ég skil þig rétt.

Verðtrygging verður samt ekki afnumin si svona, nema hætta á að lánveitendur streymi til dómstóla og lögsæki ríkið fyrir að ógilda lánasamninga sem byggjast á tilteknum grundvelli, sem gjarnan er vísitölumæling neysluverðs, framkvæmd af Hagstofu Íslands.

Einnig, að af hagstjórnarhugmynd þín ber árangur, krónan styrkist, verðmætasköpun eykst, fjölgun króna í umferð hægist,  þá í raun "hverfur" verðtrygging einfaldlega með því að vísitala neysluverðs stendur í stað.

Sjálfur er ég stuðningsmaður þess að binda peningaseðla, myntir, innistæður og önnur peningaígildi við gull og silfur þannig að ekki sé hægt að fjölga peningum í umferð nema með því að stækka gullgeymslur peningaútgefenda, sem vel á minnst verða fleiri en ríkisvaldið eitt. Betri agi í peningamálastjórn hefur ekki fundist í gjörvallri sögu peninga á þessari jörð.

Geir Ágústsson, 8.10.2009 kl. 13:53

3 Smámynd: Geir Ágústsson

...og leggja niður Seðlabanka Íslands, vitaskuld.

Geir Ágústsson, 8.10.2009 kl. 13:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband