Hér skal vísað í birt gögn

Nú er ég enginn lögfræðingur, og hef litla þolinmæði fyrir lestri á löngum lagatexta, en sem betur fer kemur stundum hvorugt að sök til að komast að lögfræðilegri niðurstöðu (takk Loftur).

Byrjum nú á smá texta úr tilskipun ESB (íslenska, enska) um tryggingar innistæða:

Tilskipun þessi getur ekki gert aðildarríkin eða lögbær yfirvöld þeirra ábyrg gagnvart innstæðueigendum ef þau hafa séð til þess að koma á einu eða fleiri kerfum viðurkenndum af stjórnvöldum sem ábyrgjast innlán eða lánastofnanirnar sjálfar og tryggja að innstæðueigendur fái bætur og tryggingu í samræmi við skilmálana í þessari tilskipun.

Lesist: Hafi ríki gert ráðstafanir vegna tryggingar innistæða samkvæmt tilskipun ESB, þá er ríkið ekki ábyrgt fyrir þeim innistæðum.

Ekki vantar að slík ráðstöfun finnist á Íslandi. Hún er í formi laga um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta (1999/98). Þar segir meðal annars:

8. gr. Afturköllun leyfis.
Nú uppfyllir aðildarfyrirtæki ekki skyldur sínar gagnvart sjóðnum samkvæmt lögum þessum og reglugerð og skal þá stjórn hans tilkynna það ráðherra og Fjármálaeftirlitinu án tafar. Ráðherra veitir hlutaðeigandi aðildarfyrirtæki þá allt að þriggja mánaða frest til úrbóta að fengnu áliti Fjármálaeftirlitsins. Hafi aðildarfyrirtækið ekki uppfyllt skyldur sínar að þeim fresti liðnum getur stjórn sjóðsins, að fengnu áliti Fjármálaeftirlitsins, lagt dagsektir á fyrirtækið. Greiðast þær þangað til aðildarfyrirtækið hefur uppfyllt skyldur sínar gagnvart sjóðnum. Sektirnar geta numið 50–500 þús. kr. á dag.
Hafi aðildarfyrirtæki ekki uppfyllt skyldur sínar gagnvart sjóðnum innan eins mánaðar frá álagningu dagsekta getur ráðherra tilkynnt því að hann hyggist afturkalla starfsleyfi þess hafi fyrirtækið ekki uppfyllt skyldur sínar að tólf mánuðum liðnum.
Nú rennur frestur skv. 2. mgr. út án þess að hlutaðeigandi aðildarfyrirtæki hafi uppfyllt skyldur sínar gagnvart sjóðnum og getur þá ráðherra afturkallað starfsleyfi þess að fengnu áliti Fjármálaeftirlitsins. [Skuldbindingar sem stofnað er til áður en leyfi er afturkallað skulu njóta tryggingaverndar í samræmi við ákvæði III. kafla.]1)
[Nú rennur frestur skv. 1. og 2. mgr. út þegar um er að ræða útibú aðildarfyrirtækis með staðfestu í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins, í aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum og getur stjórn sjóðsins þá tilkynnt útibúinu að hún hyggist útiloka það frá sjóðnum hafi það ekki uppfyllt skyldur sínar að tólf mánuðum liðnum.]2) Ef frestur skv. 1. málsl. rennur út án þess að útibúið hafi uppfyllt skyldur sínar getur sjóðurinn útilokað það frá aðild að sjóðnum að fengnu áliti Fjármálaeftirlitsins. [Skuldbindingar sem stofnað er til áður en útibú er útilokað frá aðild að sjóðnum skulu njóta tryggingaverndar í samræmi við ákvæði III. kafla.]1)
Ákvæði 1.–3. mgr. eiga einnig við um útibú aðildarfyrirtækja með staðfestu í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins.

Hver segir svo að það hafi vantað reglurnar í íslensku fjármálakerfi? Hér er kveðið á um dagsektir (greiddi einhver banki slíkar?), afturköllun leyfa (var það einhvern tímann gert?), útilokun frá sjóðnum (fékk einhver slíka hótun/tilkynningu/meðferð?) og fleira gotterí.

Ég get með engu móti séð að Íslendingar hafi brugðist skuldbindingum sínum gagnvart EES/ESB, og hef enga vitneskju um neitt sem bendir til þess að Landsbanki Íslands, hið íslenska Fjármálaeftirlit eða nokkur annar aðili hafi brotið gegn tilskipun ESB.

Ég get því með engu móti séð að íslenskir skattgreiðendur séu nú skuldbundnir til að greiða svo mikið sem eina krónu af vangoldnum "tryggðum" innistæðum í Icesave. Jú nema pólitísk ákvörðun sé tekin um slíkt, sem verður ekki gert fyrr en Alþingi samþykkir Icesave-samning Steingríms J. og Jóhönnu Sig. (hlutverk þess samnings er einmitt að taka pólitíska, en ekki réttarfarslega ákvörðun um skuldbindingar íslenskra skattgreiðenda gagnvart Icesave, alveg óháð því hvað einhver fyrri ráðherra eða seðlabankastjóri sagði við einhvern í fyrri tíð: "Þegar meirihluti alþingismanna samþykkir Icesave-ánauðina, þá er tekin sú ákvörðun að íslenskir skattgreiðendur taki á sig stórfelldar skuldir vegna ófara einkafyrirtækis. Þá, en fyrr ekki, hefur sú ákvörðun verið tekin svo bindandi sé fyrir Ísland, hvort sem gösprurum líkar það betur eða verr.").

Lögfræðiálit í hina áttina er hér með eftirlýst! Finnst slíkt?


mbl.is Fréttaskýring: „Einhver barnaskapur sem nær bara engri átt“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Einar Jón

Frábært að einhver skuli nenna að grafa upp þessa lagatexta og reyna að útskýra þá.

Málflutningur beggja aðila hefur hingað til að mestu leyti verið í formi órökstuddra fullyrðinga án vísunar í nokkur lög, svo það hefur ekki nokkur leið að skilja hver staðan er án þess að leggjast í eigin rannsóknir.

En mér finnst þetta líka sýna svart á hvítu hversu handónýt Haardestjórnin og seðlabankastjórnin var í þessum málum.
Núverandi ríkisstjórn virðist vera að gera illt verra í nafni þess að takmarka skaðann, svo þeir hefðu varla verið mikið skárri.

Einar Jón, 7.7.2009 kl. 12:03

2 identicon

Mikið er nú svalandi að lesa eitthvað af viti á þessu annars galna moggabloggi, þar sem skrifin hafa jafnan einungis óljósar afspurnir af raunveruleikanum. Þetta var eins og glas af ísköldu vatni. Takk fyrir mig!

Einsi (IP-tala skráð) 7.7.2009 kl. 12:11

3 Smámynd: Geir Ágústsson

Einar,

Hvað það var sem Haarde og co. gerðu, þá var það ekki bindandi. Hvernig veit ég það? Nú af því það virtist hafa verið þörf á sérstakri "samninganefnd" á vegum núverandi ríkisstjórnar, sem gaf af sér þetta plagg sem núna er verið að reyna selja Íslendingum.

Einsi,

Þakka þér!

Geir Ágústsson, 7.7.2009 kl. 12:55

4 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Einar Jón: þetta er nú allt saman til á íslensku í Stjórnartíðindum.

Annað sem er til á íslensku er eftirfarandi álit Ríkisendurskoðunar úr skýrslu um endurskoðun ríkisreiknings frá 2007 þar sem segir orðrétt á bls. 9 og er áréttað á bls. 57 um Tryggingasjóð Innstæðueigenda:

"Sjóðurinn getur með engu móti talist eign ríkisins og það ber heldur ekki ábyrgð á skuldbindingum hans"

Guðmundur Ásgeirsson, 8.7.2009 kl. 17:37

5 Smámynd: Halldór Bjarki Christensen

ef þau hafa séð til þess að koma á einu eða fleiri kerfum [sem] tryggja að innstæðueigendur fái bætur og tryggingu í samræmi við skilmálana í þessari tilskipun

Þú skautar mjög létt yfir þann hluta textans sem er í viðtengingarhætti.  Tryggði Tryggingarsjóður þegar til kastanna kom að innistæðueigendur fengju bætur og tryggingu (20.000 ECU innað 3 mánuða) í samræmi við skilmálana í þessarri tilskipun?

Er hægt að hugsa sér aðstæður, þar sem t.d. Landsbankinn einn hefði farið á hausinn, og þessir örfáu (hlutfallslega) milljarðar í Tryggingarsjóði hefðu dugað til að tryggja innistæðurnar?

Og að síðustu: Setjum sem svo að ég stofni mitt eigið tryggingafélag, leggi þar rauðan 500 kr. seðil í bótasjóð, og ábyrgðartryggi bílinn minn hjá þessu tryggingarfélagi. Setjum nú sem svo að ég þvínæst rústi 10-15 aðra bíla með hugsanlega löglegum en ábyggilega vítaverðum glæfraakstri. Ætli einhver muni líta svo á að með þessum 500 kr. hafi ég uppfyllt skyldu mína til að ábyrgðartryggja bílinn, eða að ábyrgðartryggingin takmarkist við þennan eina fimmhundruðkall?

(Við öllum spurningunum er svarið 'nei'.)

Pointið er, að það er fullkomlega ótrúverðugt að halda því fram að innistæðutryggingasjóður hafi verið hannaður til þess að tryggja innistæður í stóru bönkunum. Voru það ekki 1% af innistæðum sem voru lagðar þar inn? Miðað við stærð stóru bankanna, er og hefur alltaf verið fráleitt að það eitt geti nægt til þess að  "tryggja að innstæðueigendur fái bætur og tryggingu í samræmi við skilmálana í þessari tilskipun".

Það er líklega þess vegna sem Bretar og Hollendingar þráspurðu hvort ekki væri öruggt að ríkið ábyrgðist Tryggingasjóð. Og þess vegna sem bæði Hollendingar og Bretar sóttust eftir því að ábyrgjast sjálfir þessar innistæður, með því að þær yrðu færðar í dótturfélög. 

Sjá umfjöllun fimmta Baldwin bróðurins.

Halldór Bjarki Christensen, 9.7.2009 kl. 09:46

6 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Sæll Halldór Bjarki. 1% inngreiðslur í tryggingasjóð innstæðueigenda eru mjög í samræmi við það sem gengur og gerist í öðrum ríkjum á EES-svæðinu. Hinsvegar er rétt að tryggingasjóðurinn var ekki hannaður til að bregðast við kerfishruni. Þetta sjónarmið kemur t.d. fram í skýrslu um innstæðutryggingakerfi sem var hluti af ársskýrslu bankanefndar franska seðlabankans árið 2000. Formaður nefndarinnar sem skrifaði skýrsluna var Jean-Claude Trichet seðlabankastjóri Evrópu, sem þá var seðlabankastjóri Frakklands.

Guðmundur Ásgeirsson, 9.7.2009 kl. 10:08

7 Smámynd: Geir Ágústsson

Guðmundur,

Nákvæmlega. Kerfiskallarnir sem hönnuðu þetta "tryggingakerfi" höfðu ekki ímyndunarafl til að ímynda sér hrun fiat currency peningafölsunarkerfis seðlabanka heimsins. Engu að síður var það ætlun ESB að tilskipun þessi hlífði skattgreiðendum við bankahruni - það var ásetningurinn, hvað svo sem viðkemur gölluðu tryggingakerfi ESB.

Halldór Bjarki,

Ef ríkið setti í lög að 500 kr iðgjald í bótasjóð gæfi þér ótakmarkað leyfi til að keyra utan í bíla eins lengi og þú kemst upp með það, þá er ég ekkert viss um að aðrir bíleigendur yrðu ánægðir (skiljanlega!), en lögin væru engu að síður lög, sem þú gætir varið þig með í rétti gegn lögsóknum hinna ósáttu bíleigenda.

Vond lög, en lög engu að síður. Í tilviki laga 98 frá 1999, þá eru þessi lög að verja saklausan, íslenskan almenning fyrir skuldahít í áratugi, á kostnað breskra og hollenskra innlánseigenda, í skjóli tilskipunar frá ESB. Já, tilskipunar.

Geir Ágústsson, 9.7.2009 kl. 13:42

8 Smámynd: Einar Jón

Guðmundur: Lögbirtingarblaðið er því miður ekki til á flestum menningarheimilum.

Það að þetta sé í lögbirtingarblaðinu er álíka gagnlegt fyrir hinn venjulega Íslending og plönin um að rífa húsið hans Athurs Dent í Hitch-hikers Guide to the Galaxy: "It was on display in the bottom of a locked filing cabinet stuck in a disused lavatory with a sign on the door saying #Beware of the Leopard#."

Og fyrst þetta er svona augljóst ættu fleiri að vitna í þetta frekar en að vera sífellt með órökstuddar upphrópanir sem engu áorka.

Einar Jón, 10.7.2009 kl. 16:21

9 Smámynd: Halldór Bjarki Christensen

Guðmundur:

Spurningin er ekki hvort tryggingarsjóðurinn hafi getað tekist á við kerfishrun.Það er nokkuð augljóst að tryggingarsjóðurinn hefði ekki einusinni getað tekist á við gjaldþrot eins banka. Þess vegna eru rökin um kerfishrunið tiltölulega gagnslítil. (Hefur hann yfir höfuð borgað eitthvað út vegna Kaupþings og Glitnis?)

Geir:

Það stendur hvergi í tilskipuninni að það eigi að leggja 1% innistæðna í sjóð, eða að það nægi. Það stendur að ríkið eigi að sjá til þess, að það sé tryggt að almenningur fái peningana sína aftur ef bankar fara á hausinn.

Halldór Bjarki Christensen, 11.7.2009 kl. 15:35

10 Smámynd: Geir Ágústsson

Halldór,

Hvar?

Geir Ágústsson, 13.7.2009 kl. 15:17

11 Smámynd: Halldór Bjarki Christensen

§3.1.

Each Member State shall ensure that within its territory one or more deposit-guarantee schemes are introduced and officially recognized. ... the system must be designed to prevent deposits with credit institutions belonging to the system from becoming unavailable and have the resources necessary for that purpose at its disposal

§7.1

Deposit-guarantee schemes shall stipulate that the aggregate deposits of each depositor must be covered up to ECU 20 000 in the event of deposits' being unavailable.

Semsagt: Ríkið á að setja upp kerfi sem tryggir að innistæður séu tryggðar upp að 20.000 ECU.

Hvar er minnst á 1% af innistæðum?

Halldór Bjarki Christensen, 15.7.2009 kl. 12:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband