Af hverju 'forsenda'?

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra (og flugfreyja - nú til dags er víst "inn" að taka fram menntun ráðherra), segir að samþykkt á hraðsuðufrumvarpi um aukið hreðjatak ríkisins á Seðlabanka Íslands sé "forsenda" efnahagsaðgerða núverandi ríkisstjórnar.

Þetta útskýrir hún ekki, en ég sé nokkrar mögulegar túlkanir á orðum hennar (sem ég ber hér með undir lesendur þessarar færslur):

  • Seðlabanka verði gert að lækka vexti umtalsvert: Þetta mundi gera lántökur ódýrari, þ.á.m. lántökur bankanna í nýprentuðum peningum (hvað heitir það nú aftur? Skuldabréf?). Keynes-hagfræðin segir að fjöldaframleiðsla á peningum komi "hjólum hagkerfisins" aftur af stað. Jóhanna virðist hafa lesið um Keynes samhliða flugfreyjunámi sínu og ætti því að þekkja vel til.
  • Seðlabanka verði gert að skipta um stjórnendur sínar samkvæmt forskrift Jóhönnu: Jóhanna vill að bankastjórar séu tilnefndir, af henni, "faglega", samkvæmt meðmælum þeirra sem nú þegar stjórna Seðlabanka Íslands (eða starfssystkinum þeirra). Ætli hún taki Ingu-sollu á þetta og ráði vinkonur sínar í allar lausar stöður sem þá myndast?
  • Jóhanna ætlar sér að nota allskyns frumvörp eins og þetta til að slá á frest nauðsynlegum og mjög sársaukafullum niðurskurði í rekstri hins opinbera (sem hún kryddar sennilega með hressilegum skattahækkunum): Að mínu mati mjög líkleg ástæða þess að Jóhanna einblínir á skipurit einnar ríkisstofnunar af ótalmörgum, þar sem fyrir tilviljun situr fyrrverandi forsætisráðherra hinna hræðilegu Sjálfstæðismanna. Eða hvers vegna ekki að stokka upp Fjármálaeftirlitið? Nú eða Samkeppnisstofnun? Ekki vantar íslenskar ríkisstofnanir sem hafa engu minni völd til afskipta af viðskiptalífinu en Seðlabanki Íslands (sem er meira að segja tiltölulega vanmáttugur, sérstaklega nú þegar IMF hefur verið boðið í heimsókn þangað).

Sennilega hafa trúfastir stuðningsmenn Samfylkingar (t.d. þeir sem kjósa allt nema Sjálfstæðisflokkinn, sama hvað er í boði) einhverjar aðrar og betri útskýringar á því hvers vegna lagafrumvörp á nú að samþykkja innan ákveðinna, mjög þröngra tímamarka, og að engin umfjöllun, skýrsla, ígrundun eða nánari skoðun má seinka. Ég hlakka til að heyra þær, en held mig við mínar tilgátur í bili.

Annars verð ég nú að vera góður þegn og segja eitthvað slæmt um Sjálfstæðisflokkinn líka. Þar á bæ láðist að einkavæða bankana að fullu. Þeir voru seldir en samtímis var þeim og viðskiptavinum þeirra talið í trú um að ríkið gæti og ætlaði sér að ábyrgjast skuldbindingar þeirra þegar bólusprengjan óumflýjanlega færi af stað. Skamm, Sjálfstæðismenn, að hafa ekki lagt Keynes og Marx á hilluna fyrir löngu!


mbl.is Framsókn skekur ríkisstjórnina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

Ég er jafn hissa og þú Geir, að Seðlabanka-frumvarpið geti verið "forsenda" efnahagsaðgerða. Að því er bezt verður greint, er EKKI verið að breyta peningastefnunni, sem þó er forsenda efnahagslegs stöðugleika og viðreisnar. Að vísu er peninga-stefnunefnd ætlað að ákveða stýrivexti, en varla teljast vaxtaákvarðanir vera peningastefna ?

Ætli Jóhanna hafi heyrt um "torgreinda peningastefnu" (discretionary monetary policy) eða "reglu-bundna peningastefnu" (rule-bound monetary policy) ? Hefur einhver af hagfræðingunum sem báru ábyrgð á efnahagshruninu logið því að Jóhönnu, að vaxaákvarðanir væru peningastefna ?

Líklega er þó málið einfaldara. Er ekki bara verið að rýma til fyrir gömlum krata-jálkum, sem eru orðnir lúnir af setu í Háskóla Íslands, eða sendiráðum í framandi löndum ? Mér dettur Þorvaldur Gylfason í hug, eða (haltu þér fast Geir) Jón Baldvin Hannibalsson (MA-próf í hagfræði frá Edinborgarháskóla í Skotlandi 1963). Hann styður Jóhönnu til formanns í Samfylkingunni og hún styður Jón Baldvin til setu í Seðlabankanum. Eru ekki gömlu Alþýðuflokks-draugarnir afturgengnir ?

Loftur Altice Þorsteinsson, 23.2.2009 kl. 23:37

2 Smámynd: Einar Jón

Flugfreyjustarfið er ekki menntun - þetta er vinna, með nokkurra vikna námskeiði í upphafi, sennilega svipað og meiraprófið (og var örugglega enn styttra fyrir 40 árum). Ekki segjum við alla sem hafa meirapróf hafa "vörubílstjóramenntun", eða hvað?

En má ekki segja að Davíð hafi haft hreðjatak á seðlabankanum of lengi? Hann skipaði sig sjálfur, og báðir eftirmenn hans í forsætisráðherrastól hafa beðið hann að hætta. Og er þetta ekki langstærsta opinbera fjármálastofnunin sem enn hefur ekki "axlað ábyrgð" með því að skipta um yfirmenn?
Eins og ég sagði í síðustu færslu vil ég losna við hann úr bankanum sem fyrst "hvað sem það kostar", þó að við fáum þjálfaðan apa í staðinn. Ég vona þó að þingmenn sýni örlítið meiri skynsemi en það og hafi vit á að ráða hæft fólk, óháð pólitík.

Að öðru leyti er ég bara nokkuð sammála þér, þó það sé hægt að skamma Sjallana fyrir margt annað en að hafa valið verstu mögulegu leiðina í stað þeirrar næstverstu.

Einar Jón, 24.2.2009 kl. 05:55

3 Smámynd: Geir Ágústsson

Einar,

Enn heldur stjórnarformaður Samkeppnisstofnunar starfi sínu. Hann er að vísu í orlofi núna á meðan hann sinnir stöðu viðskiptaráðherra, en það er önnur saga.

Geir Ágústsson, 24.2.2009 kl. 08:53

4 Smámynd: Einar Jón

Nú þekki ég ekkert til starfa Samkeppnisstofnunar (enda bara mataður af fjölmiðlum), og google hjálpar lítið. Ég spyr því eins og fávís kona:

Hver var hennar þáttur í hruninu, og hversu margra milljarða tjóni olli hún?
Hvaða völd hefur hún, og hverju var klúðrað?

Einar Jón, 24.2.2009 kl. 09:21

5 Smámynd: Geir Ágústsson

Ef þú svarar sömu spurningum um Seðlabanka Íslands þá skal ég með ánægju flétta saman einhver svör um Samkeppnisstofnun.

Ekki að ég telji Seðlabanka Íslands vera saklausan. Lögum samkvæmt átti hann að halda "verðlagi stöðugu" og samkvæmt hagfræðinni sem keyrt er á þýðir það bara eitt á tímabili vaxandi peningamagns: Háir stýrivextir. Um það eru allir 'mainstream' hagfræðingar alveg skelfilega sammála, þar á meðan þeir sem eiga að leysa núverandi stjórnendur af, hverjir sem það nú verða.

Geir Ágústsson, 24.2.2009 kl. 10:48

6 Smámynd: Einar Jón

Þessu hefur verið margsvarað - ég vísa í samatekt Helga Hjörvars frá því í nóvember sem ég tel að standist að mestu, þrátt fyrir yfirklór aukabankastjóra seðló (linkur neðst á sömu síðu).

Að auki tel ég að nokkuð til í þeirri kenningu að vaxtaálag ríkisins hafi verið hærra en ella því að ráðherrar og Seðlabankastjórar viku ekki eftir hrunið. Ef  neyðarlánin (sem bera kringum 5% vexti ef ég man rétt) eru á 1% hærri vöxtum vegna þessara manna kostar það okkur milljarða á hverju ári.

Einar Jón, 24.2.2009 kl. 12:34

7 Smámynd: Einar Jón

En stýrivextirnir voru ekki eina tólið sem seðlabankinn hafði.

Ef hann hefði hækkað bindiskyldu bankanna, eins og Kanada gerði með góðum árangri, hefði fallið verið mun lægra (þó það hefði eflaust komið mun fyrr).

Eins hefði einhver getað skikkað IceSave & co. til að kúpla sig frá íslensku bönkunum (veit ekki hver bæri ábyrgð á því) og þá hefði ábyrgðin ekki lent á ríkissjóði.

Einar Jón, 24.2.2009 kl. 12:49

8 Smámynd: Geir Ágústsson

Margt gott í grein HH (og annað er tittlingaskítur þar sem persónuleg óvild skín í gegn).

Að Ísland taki ábyrgð á IceSave og Edge er pólitísk ákvörðun sem á vitaskuld að láta reyna á fyrir dómstólum.

Hækkun bindiskyldu er frábær hugmynd. Raunar ætti hún að vera 100% því allt annað er peningaframleiðsla.

Daginn sem IMF gekk inn um dyr Seðlabanka Íslands þá sagði hann: "Hækkið stýrivexti í 18%." Ég sé ekki hvernig nafnskiltið á hurð seðlabankastjóra kemur því mikið við. Það að stýrivextir hafi verið 13% eða 3% eru bara mismunandi lóð á vegasalti þar sem verðbólga (peningaframleiðsla) er á hinum, að því er kenningin segir.

Ég veit ekki hvernig seðlabankastjóri, sama hver það er, ætti að geta vikið sér undan því að halda stýrivöxtum háum á tímum hárrar verðbólgu miðað við lagaumhverfið og löglega skilgreint hlutverk Seðlabanka Íslands í dag. (Punktur 5 hjá HH)

Ég legg til að Seðlabanki Íslands sé lagður niður og ríki og efnahagsmál verði aðskilin (þar með talin útgáfa á peningum).

Geir Ágústsson, 24.2.2009 kl. 18:20

9 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

Ekki gef ég mikið fyrir þekkingu Helga Hjörvar á peningamálum. Ég hlustaði á hann fjalla um þau mál á Alþingi fyrir nokkrum dögum og flest sem hann sagði var rangt. Þessir punktar sem hann var með í nóvember, sýna líka stjarnfræðilega vanþekkingu, svo tónað sé við hans eigin stef um "stjarnfræðilegt vanhæfi."

Þrátt fyrir það er ég ekki að verja tilveru Seðlabankans, enda líklega enginn hérlendis sem hefur gagnrýnt jafn mikið tilveru bankans. Við Geir erum algjörlega sammála um það efni og væri betur að hlustað væri grannt eftir því sem við höfum verið að segja.

Seðlabanki er framkvæmda-aðili "torgreindrar peningastefnu" og honum er ætlað að gera allt það sem menn sjá eftir efnahagshrun að er rangt. Seðlabönkum er ætlað að hræra í vöxtum og peningamagni, þar til allt hagkerfið er í upplausn. Út um allan heim er starfsemi seðlabanka byggð á fölsun kenninga, sem hugsaðar voru fyrir örfá stærstu hagkerfi heimsins.

Því miður er enginn skilningur á peningamálum í stjórnkerfi landsins. Þar tróna hagfræðingar sem eru að verja eigin gerðir og eigin setu. Það hlýtur að vera skemmtilegt, að fást við að "fínstilla" hagkerfi landa og beita hókus-pókus aðferðum við að beygja hjá efnahagslegum blindskerjum. Því miður er þessi skemmtan hagfræðinganna öll á kostnað almennings.

Loftur Altice Þorsteinsson, 24.2.2009 kl. 20:51

10 Smámynd: Einar Jón

Að Ísland taki ábyrgð á IceSave og Edge er pólitísk ákvörðun sem á vitaskuld að láta reyna á fyrir dómstólum.

Ísland ber alltaf €20K ábyrgð á hverjum reikningi Icesave af því að þetta er útibú frá íslenskum banka, sem hefur ríkisábyrgð. Allt umfram það er eins og þú segir pólitísk ákvörðun.

Hækkun bindiskyldu er frábær hugmynd. Raunar ætti hún að vera 100% því allt annað er peningaframleiðsla.

Af hverju þarf allt að vera 100% eða 0% hjá þér? Millivegir virka oftast ágætlega. Það er t.d. alveg hægt að vera á móti 100% frjálshyggju án þess að vera argasti bolsévíki.

En nú er ég allt of djúpt sokkinn í mál sem ég hef sáralítið vit á, og hefði átt að þegja fyrir löngu...

Einar Jón, 25.2.2009 kl. 06:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband