Fríblöð Danmerkur sækja öll í lægsta samnefnarann

Sem íbúi í Kaupmannahöfn, notandi lestakerfisins og maður sem er með eindæmum gagnrýninn á fjölmiðla þá get ég ekki annað en sagt að öll dönsk fríblöð fylgja sömu hugmyndafræði, og hún er sú að gæla við lægsta samnefnarann.

Með þessu á ég við að öll dönsk fríblöð stíla inn á það að reyna ná til allra. Þau hafa áhyggjur af flestu sem hægt er að hafa áhyggjur af (offitu, CO2, umferð, mataræði, yfirvöldum, einkafyrirtækjum, osfrv) og hafa yfirleitt á takteinum marga svokallaða "sérfræðinga" í hinu og þessu til að taka undir þær áhyggjur. Í dag er ríkið of afskiptasamt og frekt, á morgun er það að vanrækja viðkvæm málefni og þjóðfélagshópa. Í dag er of kalt, á morgun er of heitt.

Fríblöðin stíla á alla, en reyna engu að síður að skera sig úr á einhverjum sviðum. 

Áskriftarblöðin í Danmörku hafa aðra nálgun. Þau stíla yfirleitt á ákveðinn markhóp (eru "til vinstri" eða "til hægri") en inn á milli reyna þau að þóknast öllum. Þau eru ekki að hverfa þótt öll hafi þau neyðst til að draga saman seglin vegna aukinnar samkeppni um lesendur. Minn grunur er sá að þeir sem nenna ekki að lepja upp alla froðuna sem fjölmiðlar dæla út haldi áfram að kaupa dagblöð. Að það, á einn eða annan hátt, sé e.t.v. það sem þurfi til að gera Nyhedsavisen frábrugðinn öðrum dönskum fríblöðum, og lifa þannig af núverandi leiðréttingu vestræns hagkerfis á offramboði ríkisprentaðra peninga.

Annars get ég ekki neitað því að fríblöð í vestrænu samfélagi eru góð viðskiptahugmynd. Þau þurfa bara að koma út og lenda í höndunum á fólki sem les þau og auglýsingar þeirra. Allur kostnaður vegna þrifa á þeim eftir lestur lendir á skattgreiðendum og ef blöðin liggja eins og hráviði út um allt þá er ekki við þau sjálf að sakast, heldur yfirvöld. Hver mundi ekki vilja reka fyrirtæki sem hirðir allan ágóðann en getur velt kostnaðinum á aðra, í nafni "samfélagsins" eða einhvers annars huglægs fyrirbæris sem hefur, ef marka má umræðuna, allt í senn sjálfstæða vitund, hugsun, sjálfræði og ábyrgð?


mbl.is Segir fríblöð eiga erfiða tíma framundan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband