Einkaeiga EÐA ríkiseiga - engin 'almannaeiga' er til

Ég tek að öllu leyti undir eftirfarandi orð Vefþjóðviljans:

"Það er nefnilega lítið haldið í öllu talinu um að almenningur eigi eitthvað 100%. Orkufyrirtæki og auðlindir geta annars vegar verið í eigu einstaklinga og einkafyrirtækja þeirra og hins vegar í eigu hins opinbera, ríkis og sveitarfélaga. Í fyrra tilvikinu má auðvitað segja að viðskiptavinir einkafyrirtækjanna hafi talsverð áhrif á stjórn þeirra með því að beina viðskiptum til þeirra eða ekki. Í síðara tilvikinu stýra stjórnmálamenn og vinir þeirra þessum fyrirtækjum og þegar hlýnar í veðri hækkar verðið á heita vatninu. Í hvoru tilvikinu hefur almenningur meira vægi? Sem viðskiptavinur einkafyrirtækis eða sem kjósandi á fjögurra ára fresti?"

Bein og dagleg kosning með debetkortinu eða óbeint kosning á fjögurra ára fresti með atkvæðaseðli? Ég kýs fyrrnefnda kostinn. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Karl Lúðvíksson

Heyr Heyr Geir, kapítalískt lýðræði fyrir mig, þar sem hver og ein einasta eydd króna er atkvæði.

Sigurður Karl Lúðvíksson, 19.2.2008 kl. 17:12

2 Smámynd: Auðun Gíslason

Einkennilegt að þeir sem halda þessu fram, m.a. lögfræðingar, hafi aldrei lesið eða heyrt um almenninga.  Þar á meðal t.d. fjörur sem voru almenningar.  Þar áttu allir í sveitinni rétt á því sem fjaran gaf af sér, hvort heldur var reki, hvalreki eða annað matarkyns.  Og hver átti afréttina?  Er það ekki alveg nýtt að ríkisvaldið sé ásælast land, sem ekki sannast að er ekki í einkaeign.  Áður var slíkt land í almannaeigu/almennings, ekki satt?  Svo má nú minna á að tilkoma ríkisvalds er tiltölulega nýtilkomin í sögulegu samhengi, a.m.k. í Evrópu.  Hver átti lönd og skóga, sem ekki voru í einkaeign í þann tíð.  Það má ekki líta á einkaeign sem einhverskonar náttúrulegt fyrirbæri! 

Auðun Gíslason, 19.2.2008 kl. 17:24

3 Smámynd: Geir Ágústsson

Auðun,

Einhvern tímann heyrt um "tragedy of the commons"?

Annars er þér velkomið að gera samkomulag við nágranna þinn um að báðir eigi "jafnan rétt" á húseignum og lóðum hvors annars. Bara vinsamlega ekki blanda því saman við ríkiseign á orkufyrirtækjum þar sem ekkert slíkt samkomulag er til staðar, en ríkisrekin og lögvarin einokun er það vissulega.

Hvað varðar einkaeign og náttúrulega tilvist hennar í samfélagi manna (sem gjarnan er tröðkuð niður með ofbeldi af valdhöfum), lesa Rothbard.  

Geir Ágústsson, 19.2.2008 kl. 17:32

4 Smámynd: Sigurður Karl Lúðvíksson

Um hið fræga tragedy of the commons með Richard Dawkins. Mjög athyglisverð klippa.

Sigurður Karl Lúðvíksson, 19.2.2008 kl. 17:42

5 Smámynd: Sindri Guðjónsson

Já þarna hitta þeir naglann á höfuðið. Hverju orði sannara.

Sindri Guðjónsson, 19.2.2008 kl. 20:27

6 identicon

Spurning:

Telurðu að orkuverð muni lækka ef OR væri einkavætt? 

(Nú þegar er verið að nota kosti einkaframtaksins, þar sem verk á vegum OR eru boðin út, en samkeppni um verk gæti minkað við einkavæðingu þar sem eigandinn myndi hengjast til að vinna verkin sjálfur. Samkeppni á markaðnum er síðan enginn, getur það leitt til lækkaðs verðs?

Þú getur nú þegar valið þér raforkusala (með kreditkortinu), mjög fáir eru reyndar að nota sér þann möguleika. )

Sveinn hinn Ungi (IP-tala skráð) 19.2.2008 kl. 20:45

7 Smámynd: Geir Ágústsson

Sveinn,

Ég vildi óska að ég gæti svarað þér með "já" eða "nei", get það samt ekki og ákveð því að svara með þveröfugri spurningu:

Hefur verð á einkaveiddri (nýyrði!) þjónustu farið lækkandi eða hækkandi miðað við verðlag á þjónustu sem ríkið veitir (og verndar sjálft sig gegn samkeppni með lögum)? Verðlagsþróun heilbrigðis- og menntakerfis er ágætis vísbending um "rétt" svar hérna.

Nú verður eflaust fátt um óyggjandi svör því að:

  • Ríkið er með einokun á gjaldmiðlaútgáfu, sem það misnotar með vísvitandi peningaútgáfu, eða skort þar á, með verðbólgumarkmið í huga, en þó fyrst og fremst með einokunarstöðu sína sem innblástur að aðgerðum
  • Ríkið setur allskyns skilyrði gegn allskyns einkaframtaki með hugtök eins og "lágmarksskilyrði" og "reglugerðir ESB" að vopni
  • Ríkið stjórnar því hver má grafa hvar fyrir t.d. lögnum eða ljósleiðurum, og hver má ekki
  • Ríkið er fjárþyrst og það drepur niður hugmyndaauðugt nýjabrumið sem hefur ekki fjársterka og þolinmóða bakhjarla. Dæmi; tollar, vörugjöld, skráningargjöld, virðisaukaskattur, fjármagnstekjuskattur 

Ég hef því ekki augljóst já-svar handa þér. Ég veit það samt að þegar samskipti neytenda og veitenda eru hvað greiðust, og þegar samskipti neytenda við nýja veitendur eru það einnig, þá gerist ýmislegt sem er ekki hægt að sjá fyrir í kerfi sem gerir ráð fyrir því að "status quoe" sé lykillinn að framtíðinni. 

Til dæmis er hækkun heitavatnsreikningsins sem afleiðing hlýs sumars umhugsunarefni, svo áminning Vefþjóðviljans sé höfð í huga. 

Geir Ágústsson, 19.2.2008 kl. 21:23

8 identicon

Úr því að svarið er nei, þá eru þetta bara trúarbrögð.

Maður rökræðir svosem ekki mikið um trúarbrögð.

Sveinn hinn Ungi (IP-tala skráð) 20.2.2008 kl. 22:02

9 Smámynd: Geir Ágústsson

Þú ert að gefa þér að mitt svar sé "nei", í ljósi þess að ríkið á allt sem það vill og stjórnar öllu sem það vill með sköttum og lögum, og að núverandi ástand ríkis-einokunar sé best fyrir neytendur.

Ég er að segja: Gefið að ríkisvaldshindrunin á milli neytenda og seljenda hverfi, þá sé ómögulegt að vita hvort fólk sé tilbúið að borga meira eða minna, fyrir meiri eða minni þjónustu, sem er betri eða verri en það sem þú, nútímamaðurinn, þekkir í dag.

Trúarbrögð þín byggjast á því að hylla núverandi ástand á meðan enginn er með óyggjandi völvuspá fyrir betrumbótum frjálsara fyrirkomulags.  Maður rökræðir svosem ekki mikið við völvuspár-aðdáendur sem hylla nákvæmlega núverandi ástanda, og neyta að afnema þrælahald nema fyrir liggi óyggjandi sannanir þess að  þrælarnir verði verðmætari starfskraftar frjálsir en ófrjálsir.

Geir Ágústsson, 20.2.2008 kl. 22:53

10 identicon

Af því að þú svarar ekki með hreinu og kláru jái, þá er svarið hugsanlega og líklega nei og þá erum við komnir út í það að þetta er trúaratriði frekar en rökrænt. Nema þú sért hreinlega að tala um allt annað þjóðskipulag, afnám skatta og gjalda, afnám allra stofnanna ríkisins eins og heilbrigðiskerfis, skólakerfis, löggæslu, dómstóla, utanríkisþjónustu o.s.frv. Margt af þessu má eflaust skera niður, en ertu að tala um að leggja þetta allt niður í heilu lagi?

Það er mannlegt að vilja halda í það sem reynist vel, það gera allir (eða flestir). Ég er reyndar mikill aðdáandi einkaframtaksins, en það þarf að vera á heiðarlegum forsendum. Það þarf t.d. að vera til staðar frjáls og opinn markaður með vöruna og öllum frjálst að bjóða í fyrirtækið sem á að einkavæða. Á þetta hefur skort í Íslensku einka(vina)væðingunni. Eins og ég skrifaði við annan pistil hjá þér, þá eru nútíma einkaþotufurstar ekki neinir sollit, heiðarlegir, gamaldags atvinnurekendur, eins og Þorvaldur í Síld og Fisk eða Pálmi í Hagkaup. Nútíma útgáfa af þannig manni gæti verið Helgi í Góu eða Björgúlfur Guðmundsson. En líklegasta manngerðin til að ná í svona bita væri ævintýramaður eins og Hannes nokkur sem tapaði 80 miljörðum en talaði um að allt væri í himnalagi. Svo er strax hlaupið undir ríkispilsfaldinn þegar eitthvað bjátar á, eins og núna þegar bankarnir eru að lenda í vanda, þá á ríkið og lífeyrissjóðirnir að koma til bjargar og skyndilega lækka þeir launin hjá sér, sniðugir. Hér er eingöngu um ímyndarbrellu að ræða.

Ég er nú ekki meiri trúmaður í þessu en svo að ég hef verið fylgjandi flestum einkavæðingum hingað til. Ég vill einkavæða miklu meira. Selja RÚV. Einkavæða leikskólana og jafnvel menntaskólana. Sérstaklega var ég ánægður með sölu Símans. Þar var auðséð að ný tækni væri að koma og bullandi samkeppni væri framundan. Því fyrirtæki væri miklu betur komið í hendur á einkaaðilum.

Nú geri ég þér tilboð: Þú selur mér bílinn þinn og gerir við mig óuppsegjanlegan leigusamning til 30 ára. Ég ákveð einhliða leigutaxtann á tímabilinu. Samþykkt?

Sveinn hinn Ungi (IP-tala skráð) 21.2.2008 kl. 13:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband