Blása heitu lofti til að mótmæla hlýnun

"Breytendur", mótmælasamtök gegn síbreytilegu loftslagi Jarðar, blása nú heitu lofti til að mótmæla hitabreytingum andrúmsloftsins seinustu tvo áratugi (sem eru sennilega staðnaðar núna og jafnvel að hefja niðursveiflu aftur). Athyglisvert áhugamál sem vissulega náði takmarki sínu: Að komast í fréttir.

Þeir eru til sem trúa því að CO2 sameindin (undir 0,04% andrúmsloftsins, uppbyggingarefni líkama okkar, hráefni plöntuvaxtar og afurð eldfjalla) sé drifkraftur loftslagsbreytinga. Gott og vel, gefum okkur að það sé satt (þótt flestar vísbendingar bendi í hina áttina). Spurningin sem þá vaknar er: Hvað með það?

Ég held að menn geri sér ekki grein fyrir afleiðingum þess að siga ríkisvaldinu á CO2-losandi iðju mannkyns. Sem stendur er brennsla jarðaefnaeldsneytis okkar langmikilvægasta uppspretta orku, og þeim mun mikilvægari eftir því sem fólk er fátækara (sólar- og vindorka er snobborka ríkra Vesturlandabúa og stórkostlega niðurgreidd; kjarnorka krefst gríðarlegrar tækniþekkingar; fallvötn finnast ekki nema á tiltölulega fáum blettum á Jörðinni; hin illa lyktandi gufuorka liggur víðast hvar djúpt og dýrt í jörðu niðri). Hvað yrði um núverandi útbreiðslu batnandi lífskjara á Jörðinni ef tappinn er settur á aukna nýtingu og notkun jarðefnaeldsneytis? Hvernig eiga fátæklingar í olíu- og kolaríkum löndum að lyfta sér upp á okkar snobbaða lífskjarastig án hagkvæmrar orkuuppsprettu?

Þessi barátta gegn hagkvæmustu orkugjöfum Jarðar er ekki alveg hugsuð til enda. Ef "hættan" er sú að einhver öfgaveðurbrigði magnist þá er mun léttara fyrir ríkt og mett fólk að byggja flóðgarða og steinsteypt hús en sveltandi fátæklinga. Ef "hættan" er sú að yfirborð sjávar er að hækka er mun auðveldara fyrir ríkt fólk að aðlagast lífinu á hærri jörð en fátæklinga sem lifa á núinu á nákvæmlega þeirri landspildu sem þeir búa á núna.

Niðurstaðan er því sú að gefið (en ekki sannað) að CO2-sameindin sé nú allt í einu orðin að afkvæmi djöfulsins þá er lausnin ekki sú að hatast við hana heldur gera fólki kleift að auðgast nægilega mikið (frjáls markaður, einhver!) til að lágmarka illmennsku hennar og neikvæð áhrif á líf og lífskjör. 


mbl.is Mótmæltu hlýnun jarðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Nibiru er kannski ástæðan fyrir loftlagsbreytingum, einhver hugsað úti það? http://youtube.com/watch?v=mkv4chj47XY&feature=related

Andri (IP-tala skráð) 15.1.2008 kl. 23:00

2 identicon

Þó ég sé sammála þér þá er sú staðreynd að jarðefnaeldsneyti eru að klárast í heiminum. Framleiðslan er ekki jafn mikil og hún var áður fyrr og verðið fer síhækkandi, þannig það getur verið mjög hagkvæmt að byrja á innleiðingu nýrra orkugjafa þó það 'bjargi' ekki endilega heiminum.

Ármann (IP-tala skráð) 15.1.2008 kl. 23:06

3 Smámynd: Geir Ágústsson

Andri,

Athyglisvert! Og veistu, ekki svo galin kenning miðað við allt sullið sem vellur úr fólki. 

Ármann (hinn áhyggjufulli),

Ef olíuþurrð eftir nokkra áratugi kallast að "að klárast", þá já, en annars er markaðurinn alveg hreint ágætur að "innleiða" tækni og varning sem kostar minna en það sem er fyrir og græða á mismuninum. Til dæmis að sækja olíu á 5.6km dýpi takk fyrir!

Ég sé ekki að Geir H. Haarde, George Bush eða Hugo Chavez séu í lykilstöðu til að ákveða hvað á að "innleiða" og hvað ekki. Sérstaklega ekki í ljósi þess að ríkisrekin fiskeldis- og loðdýraævintýri á þessu sviði eins og öðru eru frekar líklegri til að brenna upp stórum fjárhæðum af launum skattgreiðenda en að skila stórfé í kassann í formi ágóða sem afleiðing vel heppnaðrar viðskiptahugmyndar ("innleiðingar").

Geir Ágústsson, 15.1.2008 kl. 23:45

4 Smámynd: Geir Ágústsson

Skítt með 5.6 km. Hvað með 11.2 km dýpi á olíulind?

Geir Ágústsson, 15.1.2008 kl. 23:52

5 identicon

Já ekki bora of langt við viljum ekki bora í gegn, http://youtube.com/watch?v=uIRdDA_EDfM&feature=related

Andri (IP-tala skráð) 16.1.2008 kl. 00:41

6 identicon

Það væri nú gaman að fá að sjá hvaðan þú hefur heimildir þínar kæri vinur. Reyndar er ég hræddur um að viðhorf þitt sé mjög algengt meðal íslendinga enda getur virðst kjánalegt að vilja sporna við hlýnun fyrir okkur hérna í norðri.

En staðan er ekki alveg svo skondin fyrir þjóðir í kringum miðbaug. Við hér í norðri erum svaka rík eins og þú segir og ég er sammála þér að við getum ekki leyft okkur að hugsa hlutina ekki til enda þegar kemur að áhrifum á þróunarlöndin.

Það sem gerist þegar jörðin hlýnar: Eyðimerkur hlýna, ræktanlegt land rírnar eða verður óræktanlegt, aðgangur almennings að hreinu vatni minnkar, það flæðir yfir lágar eyjar og strendur.

Okkur er kannski sama, en raunverulegu fólki stendur raunveruleg ógn af þessu.

Ef við breytum ekki þróun útblásturs gróðurhúsalofttegunda munu eftirfarandi spár ganga fram samkvæmt rannsóknum Intergovernmental Panel on Climate Change:

Til 2080: 1.1 til 1.3 milljarðar manns hafa ófullnægandi aðgang að vatni. 200 til 600 milljarðar líða hungur. 2-7 milljónir á ári fórnarlömb flóða.

Það eru þegar 25 milljón manns á flótta undan loftslagsbreytingum. Árið 2050 er gert ráð fyrir að þau muni aukast í 250 milljónir.

Til ársins 2100 er gert ráð fyrir að: Ræktanleg land í Afríku og latnesku Ameríku minnki um allt að 1/3 og 1/2 í löndum eins og t.d. Pakistan. Sjávarmál hækki um 9-88 cm.

Ég trúi ekki að þér sé sama. Ég veit að mér er ekki sama.

Hitafarssveiflur hafa alltaf verið til staðar um það verður ekki deilt. Þær verða til dæmis til vegna sveiflna sem verða á útgeislun sólar. Þetta er vísindaleg staðreynd og þar sem mér sýnist þú vísindalega sinnaður þá skil ég ekki alveg af hverju þú efast um þá vísindalegu staðreynd að við erum að auka hlutfall gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu. Það er líka rétt að co2 eru "ekki nema" 0,04% af andrúmsloftinu. Lítið hlutfall af efnasambandi getur haft mikil áhrif. 0,04% af bleki í vatni t.d.

Gróðurhúsalofttegundir hafa áhrif á hversu miklum hita jörðin geisla út frá sér aftur í geiminn. Þetta veistu. Hærra hlutfall gróðurhúsalofttegunda = betur einangruð jörð = heitari jörð.

Ef hlýnun jarðar er ekki vandamál af hverju eru þá þjóðir heims að sameinast um að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda?

Af hverju hafa þjóðverjar dregið úr útblæstri þeirra um 21% ?! og Bretar um 12.5% ?! Af því að þeim finnst það svo töff?

Staðreyndin er sú að öll vísindasamfélög heimsins eru sammála um það að þáttur mannsins í hlýnun jarðar sé raunverulegur og sé að valda alvarlegum loftslagsbreytingum. En það eru til einstaka sjálfstæðir vísindamenn sem efast um það, það er rétt.

Ég hefði gaman af að fá að sjá hvaðan þú hefur upplýsingar um að hlýnun jarðar sé stöðnuð eða að ganga til baka því það stangast á við allt sem ég hef fundið um efnið.

http://en.wikipedia.org/wiki/Global_warming,

http://en.wikipedia.org/wiki/Greenhouse_gas,

http://en.wikipedia.org/wiki/List_of_Kyoto_Protocol_signatories

http://en.wikipedia.org/wiki/Kyoto_Protocol#Increase_in_greenhouse_gas_emission_since_1990

http://en.wikipedia.org/wiki/Sea_level_rise

http://en.wikipedia.org/wiki/Effects_of_global_warming_on_India

http://www.guardian.co.uk/environment/2007/may/14/climatechange.climatechangeenvironment

http://www.ethicurean.com/2006/10/25/reichert-on-global-warming/

Árni Þorlákur Guðnason (IP-tala skráð) 16.1.2008 kl. 18:03

7 Smámynd: Geir Ágústsson

Nú nema þá kólnun sé handan við hornið, séð t.d. í ljósi þess að núverandi hlýnun hefur sennilega stöðvast. Við hvaða drauga er þá verið að berjast?

Meint samstaða vísindamanna er ekki til staðar þótt IPCC haldi henni fram til að vekja athygli á fagnaðarerindi sínu (sem um leið er dómsdagserindi)! 

Þegar Jörðin var enn heitari en hún er í dag átti sér stað hvorki meira en minna en Landbúnaðarbyltingin mikla! Ég sé ekki hvað er að óttast. Of fá dauðsföll vegna kulda?

"Just in case"-afstaðan byggð á óvissum vísindum og misgóðri tölfræði er einfaldlega ekki verjandi afstaða þegar hún kemur niður á lífskjörum Jarðarbúa. 

Geir Ágústsson, 16.1.2008 kl. 19:25

8 identicon

Árni færðu borgað fyrir þessa vitleysu? eða ertu orðin alveg heilaþvegin af plat vísindum og plat pólitíkusum.

Andri (IP-tala skráð) 16.1.2008 kl. 19:44

9 Smámynd: Geir Ágústsson

Andri, vertu kurteis takk. Ég og Árni erum í linkastríði upp á að verða ofan á: Hið frjálsa fyrirkomulag auðsköpunar (aðlögunarhæfni), orkuþorsta og lífskjarabætingar mannkyns, eða alheimsríkisvald CO2-eftirlits (eldfjöll og túndrur Síberu njóta samt undanþágu vona ég!). Nógu erfitt er að berjast fyrir sínum málstað þótt ekki bætist við dónaskapur!

Geir Ágústsson, 16.1.2008 kl. 20:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband