Drekka minna en kunna ekki að skrifa

Mikið er nú gert úr því að unglingjadrykkja á Íslandi sé í sögulegum lægðum. Borgarstjóri segir að það sé vegna átaks yfirvalda. Þau bjóði nú upp á fleiri tómstundir. Foreldrar séu líka byrjaðir að taka höndum saman. Meira er í boði og annað en bara að drekka sig til dauða.

Við þetta hafði ágætur maður eftirfarandi athugasemd sem ég leyfi mér að birta nokkurn veginn óbreytta:

"Mun sennilegri skýring er að krakkarnir hafa aðgang að endalausri afþreyingu í tölvum sínum og s[í]mum. Þ[á] geta þau notað samf[é]lagsmiðla og stefnum[ó]tasiður til að komast á séns og því minni ástæða til að hanga í vandræðalegum unglingapart[ý]um."

Ég ætla að taka undir þessa athugasemd. Sjálfur á ég einn 13 ára sem sýnir ekki minnstan áhuga á því að fara í partý. Það eru heldur engin bekkjarpartý hjá honum. Strákarnir "hittast" á netinu og spila saman tölvuleiki. Það er enginn hvati né þörf til að standa upp og fara út úr húsi þar sem freistingar heimsins, tækifæri og möguleikar bíða ungmennanna. Ég held að minn strákur eigi eftir að "hanga í tölvunni" til 18 ára aldurs hið minnsta.

Nú bý ég að vísu ekki á Íslandi heldur í Danmörku þar sem áfengi má selja löglega til ungmenna frá 15 ára aldri, en það breytir því ekki að í stað partýa eru komnir tölvuleikir sem spilast á netinu. Þetta er einföldun en ekki í fjarri lagi.

En hver er hin hliðin? Unglingarnir eru hættir að drekka já, en þeir eru líka hættir að skrifa og lesa. Þeir ná sér ekki í bók og setjast niður og lesa. Nei, þeir "chatta" í símunum á samfélagsmiðlum. Þeir telja að þeir fái nægan lestur út úr því að lesa smáskilaboð. 

Skólarnir hafa líka breyst. Þar er tölvum af ýmsu tagi rúllað fyrir framan nefið á þeim frá 8-10 ára aldri. Kennararnir þurfa bara að virkja eitthvað smáforrit og krakkarnir læra svo af skjánum. Þeir skrifa ekki stíla í höndunum. Þeir lesa sér ekki til afþreyingar.

Ungmennin skiptu út bók og bjór fyrir tölvu. 

Svolítið kaldhæðin sýn á hlutina gæti því verið svohljóðandi:

  • Krakkarnir hættu að drekka og lesa, og í staðinn eru þeir edrú og ólæsir.
  • Þeir fóru að borða hollar og hreyfa sig meira, en um leið er sjálfsmynd þeirra löskuð af eintómum samanburði við aðra á samfélagsmiðlunum.
  • Í stað þess að læra spjara sig í frumskóginum sem lífið er eru þeir heima, til friðs í tölvunni og undir verndarvæng foreldra og kennara frá morgni til kvölds. 

Er það of mikil einföldun? 


mbl.is Sífellt fleiri ólæsir og óskrifandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haukurinn

Kæri Geir,

Já.

Haukurinn, 16.11.2017 kl. 08:41

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Já, ætli það ekki.

Það vantar samt eitthvað í umræðuna. Hún er úr samhengi. Menn blása til fagnaðarláta yfir lítilli unglingjadrykkju. Í allt annarri og alveg ótengdri umræðu syrgja þeir svo faglega vankunnáttu krakkanna. Þetta hlýtur bara að hanga saman einhvern veginn og ég held að tölvan sé að hluta stærðin sem á eftir að taka tillit til. 

Ég meina, ef menn geta tengt saman minnkandi glæpatíðni unglinga við útgáfur á nýjum skotleikjum þá held ég að máttur tölvuheimsins megi seint verða vanmetinn!

http://www.telegraph.co.uk/technology/video-games/8798927/Violent-video-games-reduce-crime.html

Ef krakkarnir eru of uppteknir að spila tölvuleiki til að fremja glæpi þá hljóta þeir líka að vera of uppteknir til að drekka áfengi. 

Geir Ágústsson, 16.11.2017 kl. 09:43

3 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Ég er ekki viss um að unglingar lesi mikið meðan þeir drekka, þ.e. þeir sem ennþá drekka. Annars fer þetta held ég eftir bókmenntunum. Sumt er í lagi að lesa edrú. Annað er betra að lesa drukkinn. Og svo er allt hitt sem er ekkert ráðlegt að lesa yfir höfuð, drukkinn eða ódrukkinn.

Annars er einfalt að leysa úr þessu:

1. Banna tölvuleiki.

2. Lækka áfengiskaupaaldur.

Þorsteinn Siglaugsson, 16.11.2017 kl. 09:47

4 Smámynd: Geir Ágústsson

Það er ekkert að því að lesa þunnur.

Geir Ágústsson, 16.11.2017 kl. 10:27

5 Smámynd: Haukurinn

Kæri Geir

Vissulega - en pælingin þín er samt sem áður skemmtileg.Unglingadrykkju og ofdrykkju fylgja þó aðrir fylgikvillar - sem og temja ungmenni sér vana sem að öllu jöfnu eiga eftir að koma niður á lífi þeirra þegar til lengri tíma er litið.

Einhvern tímann heyrði ég því hent að íslensk ungmenni neyttu í auknu mæli annarra fíkniefna í stað áfengis - en ég sel það ekki dýrara en ég keypti það, og það var á brunaútsölu.

Vissulega hafa tölvurnar og snjallsímarnir áhrif - sem og samfélagsmiðlar. Þau ýta að því er virðist undir aukna andfélagslega hegðun, minni hreyfingu, auka streitu og hafa neikvæð áhrif á geðheilsu ungmenna. Hvort að aukin tölvunotkun hefur áhrif á faglega þekkingu þori ég ekki að segja, en það verður að segjast að sá máti sem börn og ungmenni öðlst þekkingar og meðhöndla hana er búin að breytast mikið á síðustu 10-20 árum - og á enn eftir að breytast og þróast.

En hvernig sem því líður, þá ber að fagna því að íslensk ungmenni hafa stórminnkað drykkju á síðari árum - hvort það er allt Degi og hans félögum að þakka þori ég ekki að segja.

Haukurinn, 16.11.2017 kl. 11:32

6 Smámynd: Geir Ágústsson

Það er a.m.k. ekki hægt að fá allt í einu. Krakkar hanga inni í tölvu, en láta það eiga sig að drekka. Þeir drekka sig ekki fulla í unglingapartýum heldur tengjast á samfélagsmiðlum og skiptast á nektarmyndum. Þeir hreyfa sig meira og borða hollar en bera sig meira saman við falsímyndir á netinu og missa sjálfstraustið. Það er engin leið að kenna þeim nema með tölvum svo þeir eru að mestu ólæsir og óskrifandi en á móti kemur venjast þeir tækninni og tileinka sér hana hratt sem mun gagnast þeim seinna. 

En sjáum hvað setur. 

Geir Ágústsson, 17.11.2017 kl. 08:26

7 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Ólæsir unglingarnir ódrukknir í tölvuleik. Já, heimur versnandi fer. Það vitum við gömlu mennirnir Geir smile

Þorsteinn Siglaugsson, 17.11.2017 kl. 20:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband