Hvað er frjálshyggja (og hvað ekki)?

Ég var að hlusta á svolítið viðtal í dag þar sem einn viðmælenda sagði (réttilega) að margt fólk vissi ekki í raun og veru hvað frjálshyggja væri því það fær upplýsingar sínar um frjálshyggju frá fólki sem er andsnúið frjálshyggju.

Spyrill sagði þá að það jafnaðist á við að fólk fræddist um þróunarkenningu Darwins frá Gunnari í Krossinum.

Mikið rétt!

En hvað er frjálshyggja? 

Frjálshyggja er sú hugsjón að einstaklingurinn sé frjáls til að gera það sem hann vill á meðan hann skaðar ekki frelsi annarra til að gera það sama. Grundvallarforsendan er hið svokallaða friðsemdarlögmál, eða Non-aggression Principle, sem er skilgreint svo á einum stað:

The non-aggression principle (also called the non-aggression axiom, or the anti-coercion or zero aggression principle or non-initiation of force) is an ethical stance which asserts that "aggression" is inherently illegitimate.

En hvað er "aggression" eða árás? Það er t.d. ofbeldi af fyrra bragði, augljóslega (en ekki sjálfsvörn með beitingu valds). Þjófnaður er líka árás, hvort sem þjófurinn ógnar þér líkamlega og þvingar þig til að láta eigur þínar af hendi eða þjófnaðurinn fer fram í skjóli nætur og án þinnar nærveru.

Hvað leiðir svo af þessu? Það er margt. Skattheimta er t.d. ekki skilgreind öðruvísi en sem þjófnaður enda vita allir hvernig fer fyrir þeim sem borga ekki sína skatta, t.d. af því viðkomandi er ekki sammála því hvernig fjármununum er eytt eða vill frekar borga öðrum til að veita sömu þjónustu og skattheimtan á að fjármagna.

Af þessu leiðir að þú sem sjálfráða einstaklingur átt að geta drukkið þig til dauða eða sprautað þig með vímuefnum. Þú hefur um leið ekki rétt á að heimta að aðrir borgi fyrir þá heilsukvilla sem þú aflar þér með slíku líferni.

Af þessu leiðir að þú átt að sjá fyrir þér sjálfur en að öðrum kosti treysta á frjáls framlög frá öðrum til að halda þér uppi. Allar þær góðhjörtuðu sálir sem vilja aðstoða þá sem þurfa hjálp af einhverjum ástæðum þurfa að sýna í verki ásetning sinn og láta eigið fé af hendi og geta ekki bara sigað lögreglunni á samborgara sína til að fjármagna örlæti sitt.

Af þessu leiðir að ef þú átt verksmiðju sem spýr eitri eða sóti og drullu yfir hús nágranna þíns þá getur hann sakað þig um eignaspjöll, sama hvað líður vilja stjórnmálamanna til að búa til atvinnu í kjördæmi sínu.

Af þessu leiðir að þú hefur ekki rétt til að gera hvað sem er á lóð annarra, t.d. halda fjöldafundi eða bjóða í saumaklúbb. Þú getur leigt húsnæði og með leyfi eiganda sagt hvað sem þú vilt, eða talað á eigin landareign. Allt sem þú gerir í leyfisleysi á landi annars, eða er gert í leyfisleysi á þínu landi, flokkast sem árás.

En hvernig birtist frjálshyggjan í stjórnmálum?

Það er svo margt.

Frjálshyggjan álítur ríkiseinokun af hverju tagi vera árás. Þetta gildir um menntun, rekstur sjúkrahúsa eða framleiðslu peninga.

Frjálshyggjan tortryggir samþjappað vald í höndum stjórnmálamanna eða ríkisvalds því neytendur og þar með almenningur eru bjargarlausir gagnvart ákvörðunum hins opinbera. Selji maður ólífræn hænuegg sem eru verðlögð og merkt sem lífræn fer hann á hausinn daginn eftir að það spyrst út. Selji ríkisvaldið okkur eitraðar tannfyllingar gerist lítið og hægt og enginn missir vinnuna.

Lýðræðið er lítil sárabót. Það er lítið aðhald fólgið í því að kjósa á margra ára fresti og þurfa að vega og meta góð og slæm verk til að velja fólk í stöður. Þá er betra að geta kosið oft á dag, með því að velja eitt en ekki annað, og örva þannig frjálsan markað til að koma til móts við þarfir sem flestra sem hraðast og hagstæðast. Lýðræðið er skilvirkast þar sem stjórnmálamenn hafa lítið á sinni könnu og kjósendur geta auðveldlega lagt mat á verk þeirra eða verkleysi. 

Frjálshyggjan snýst ekki um að fyrirtæki eigi að fá að græða. Þau eiga bara að fá að starfa, og engar hömlur eiga að vera á stofnun hvers kyns fyrirtækja. Fyrirtæki tapa og græða, stundum til skiptis. Gömul fyrirtæki deyja og ný koma í staðinn. Hestvagnasmiðir fara á hausinn og bílaframleiðendur græða. Þetta er hin skapandi eyðilegging svokallaða. Henni ber að fagna. Það er ekkert fyrirtæki ómissandi og það á enginn að fá sérstaka vernd hins opinbera í samkeppnisumhverfi.  

Frjálshyggjan álítur ekki að núverandi ástand sé endilega það besta. Að rusli sé í dag safnað saman í stórum trukkum er bara ein leið af mörgum til að koma úrgangi frá heimilum. Í frjálsari heimi væri kannski búið að finna upp margar aðrar mögulegar lausnir sem fengju að þróast í samspili neytenda og veitenda. 

Frjálshyggjan snýst ekki um að traðka á öldruðum, öryrkjum og langveikum. Hún snýst um að við, sem frjálsir einstaklingar, finnum bestu lausnirnar á þeim takmörkunum sem jarðnesk tilvist setur óumdeilanlega á okkur. Sumir vilja bara græða, aðrir vilja bara gefa, en flestir eru einhvers staðar þarna mitt á milli. Það er þörf á kröftum okkar allra, hvort sem þeir felast í vöðvastyrk eða forritunargáfum. Frjáls markaður hjálpar okkur að hámarka bæði framlag okkar til lausna á vandamálum heimsins og finna hamingjuna á eigin forsendum. 

Það er ekki til ein einasta persóna sem getur búið til blýant ein og óstudd. Hinn frjálsi markaður framleiðir margar milljónir á dag og selur á örfáar krónur. Að hugsa sér hvað samtakamáttur mannkyns gæti gert fengi hann meira svigrúm til að athafna sig!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Geir. Engin vísindi og ekkert verkafólksins/fyrirtækjanna framlag er né verður nokkurn tíma meira virði en náungakærleikur og gott samfélag.

Verðmæti eru ekki mælanleg, ef grannt er skoðað.

Hvorki veraldleg né andleg.

Kærleikur er eina leiðin til friðar á jörðinni. Fjölmiðlaþöggun stuðlar að ófriði og skelfilegum afleiðingum þöggunar-valníðslukerfisins!

Ég er ekki að tala um "vinstri" eða "hægri" kærleika!

Bara einfaldan og raunverulegan óflokkaðan kærleika! Í náungans vandamálagarði!

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 13.11.2017 kl. 16:40

2 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

X-ið, óvænt einn gáfulegasti fjölmiðill landsins.  Það gerðist...

Fólk almennt veit ekki merkingu fjölda orða og hugtaka sem eru í daglegri (of)notkun.

Flest góð og gild orð eru bara upphrópanir núorðið.  Frjálshyggja, fasisti, rasismi, barnanýðingur ofl.

Mun ekki breytast held ég.

Ásgrímur Hartmannsson, 13.11.2017 kl. 20:17

3 identicon

Og hvar kem Ayn Rand inn í þetta með "frelsið" til að vera frekur?

Sigþór Hrafnsson (IP-tala skráð) 13.11.2017 kl. 22:09

4 Smámynd: Geir Ágústsson

Anna, það er alveg rétt að verðmæti eru ekki mælanleg, a.m.k. ekki verðmæti eins og vinátta og kærleikur. Stjórnmál eru farin að snúast alltof mikið um peninga - hver á meiri peninga en annar og hvernig á að breyta því - í stað þess að snúa um réttlæti - að nota lögin bara til að koma í veg fyrir árásir frekar en að nota það sem barefli til að siða pöpulinn til.

Sigþór, það er von að þú spyrjir. Ayn Rand kallaði sig ekki frjálshyggjumann (libertarianism), heldur "objecitivist". Hún lagði mikla áherslu að elska sjálfan sig og vildi meina að öðruvísi gæti maður ekki elskað aðra. Það má kannski segja að boðskapur hennar hafi verið sá sami og flugfreyjanna í flugvélinni ef þrýstingur fellur: Settu fyrst grímuna á sjálfan þig og síðan á barn þitt. Meðvitunarlaust foreldri getur ekki hjálpað neinum.

Geir Ágústsson, 14.11.2017 kl. 07:41

5 identicon

Þakka þér fyrir svarið Geir. Það er kannski ekki að Rand hafi verið frjálshyggjumanneskja, heldur frekar hvað margir úr þeim ranni virðast taka upp objectiveisma hennar. Sagt er að HHG stundi Rand trúboð í HÍ með því að gefa nemendum sínum bækur henna. Ekki veit ég hvort það er rétt en áhugavert er það  þessu samhengi.

Sigþór Hrafnsson (IP-tala skráð) 14.11.2017 kl. 16:18

6 Smámynd: Geir Ágústsson

Hugmyndafræði Ayn Ran á mjög margt skylt með hugmyndafræði frjálshyggju í klassískum skilningi. Hún talaði fyrir mjög litlu ríkisvaldi, sterkum eignarétti og frelsi einstaklingsins til að leita hamingjunnar á eigin vegum.

Það sem helst aðskilur hana frá klassískri frjálshyggju að mínu mati er t.d. andstaða hennar á trú á hið yfirnáttúrulega. Hér er frjálshyggjan afstöðulaus - þú getur verið trúaður eða ekki - en hún taldi trú byggjast á einhverju ósönnuðu, og vissulega óáþreifanlegu, og því ekki "objective". 

Það hafa allir gott af því að lesa sögur Ayn Rand, og þá sérstaklega Atlas Shrugged sem hafði mikil áhrif á mig. 

Geir Ágústsson, 15.11.2017 kl. 07:36

7 identicon

Geir

Þakka þér fyrir svarið. Ég reyndi að horfa á nýlega mynd gerð eftir þessari bók sem þú nefnir. Hún var hrikalega illa gerð og illa leikinn þ.e. greinilega gerð af miklum vanefndum, þannig að hún hjálpaði ekki sögunni nema að síður sé.

Eitt lykil plottið í sögunni fannst mér fullkomlega ótrúverðugt þ.e. þegar að auðjöfrar, arkitektar, framkvæmdafólk og listafólk flúði og fór að byggja sína eigin borg eða 'ir. Það sem er óraunhæft þarna er að listafólk mundi aldrei stilla sér við hliðina á auðmönnum í einum hóp. Þeir sem aðhillast Rand virðast margir halda í drauminn um þessa flóttaleið. Afbrigði af því kom á forsíðu Viðskiptablaðsins nú fyrir nokkrum dögum, þar sem fílóserað er um hvert auðmenn geti flúið ef að vinstri stjórn irði.

Sigþór Hrafnsson (IP-tala skráð) 15.11.2017 kl. 17:53

8 Smámynd: Geir Ágústsson

Auðvitað var Atlas Shrugged ekki byggð á sannsögulegum atburðum. Í sögu hennar tekur hún fyrir þá sem hún lítur á sem óvini hins verðmætaskapandi frumkvöðuls eða vinnandi manns: Auðjöfrana í jötu ríkisvaldsins, listamenn á opinberu framfæri sem sjá um að réttlæta óskapnaðinn gegn framfærslu og fleiri.

Á hinum endanum eru þeir sem vinna, finna upp og reyna að leysa vandamál samfélagsins með hugvitsemi, dugnaði og elju.

Hún hefur verið ásökuð um að vilja "sleikja reykháfa" í aðdáun sinni á iðnaði en menn eru þá að einblína á formið en missa af innihaldinu. 

Myndirnar hef ég ekki séð. Þær voru fjármagnaðar með frjálsum framlögum. Á tímabili voru leikarar eins og Brad Pitt og Angeline Jolie orðuð við framleiðslunna en ekkert varð úr. Þau (fyrrum) skötuhjú eru víst bæði aðdáendur Rand. 

Geir Ágústsson, 15.11.2017 kl. 19:20

9 identicon

Það versta var að það voru ekki sömu aðalleikara í mynd 1 og 2 og mynd 3. Þeim var skipt út í þeirri þriðju.

Sigþór Hrafnsson (IP-tala skráð) 17.11.2017 kl. 14:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband