Besti framkvæmdastjóri landsins: Bjarni Benediktsson

Íslendingar bera óhóflega mikið traust til hins opinbera um leið og þeir kvarta yfir öllum hugsanlegum þáttum í opinberum rekstri. Þetta er einkennilegur geðklofi sem er vel þess virði að skoða aðeins.

Íslendingar virðast ekki treysta einkaaðilum til að reka sjúkrarúm (bara hjúkrunarheimili og hótel), lækna mein (nema meinið sé nærsýni eða skert heyrn), framkvæma eftirlit (nema með bifreiðum), mennta börn (nema með Rudolf Steiner-aðferðafræðinni), passa börn (nema barnapían sé 13 ára unglingsstúlka), reka vegi (nema þeir séu neðansjávar), borga sanngjörn laun (nema maður sé karlmaður), selja áfengi í smásölu (bara heildsölu) og skipuleggja hverfi (nema það sé sumarbústaðahverfi).

Allt kostar þessi opinberi rekstur og í fjarveru samkeppni kostar hann miklu meira en hann þyrfti. Samt er borið við fjárskorti. Allur hinn opinberi rekstur er í einu stóru fjársvelti þótt hið opinbera hirði megnið af allri verðmætasköpun landsmanna þegar allt er talið með. Ef Bónus hækkar mjólkina um fimmkall ætlar allt um koll að keyra. Okur, er hrópað! En ef ríkið „sækir“ milljarð hér og milljarð þar er það umborið enda tilgangurinn sá að bæta upp fyrir „fjársvelti“ einhvers afkimans í opinberum rekstri.

Það má af þessu ráða að sérhver einstaklingur sem situr í stóli forsætisráðherra er á sérhverjum tímapunkti talinn vera besti framkvæmdastjóri landsins og þá alveg sérstaklega ef honum tekst að hækka verðlagið á allri þjónustu ríkisins. Hallarekstur ríkisins er talinn vera merki um skynsamlega stjórn fjármála.

Framkvæmdastjórar einkafyrirtækja eru hins vegar álitnir mun síðri jafnvel þótt þeir selji grimmt af eftirsóttri vöru eða þjónustu og skili hagnaði. Hagnaðurinn er jafnvel fordæmdur og talinn til merkis um okur.

Titilinn „besti framkvæmdastjóri landsins“ er í dag í höndum Bjarna Benediktssonar. Honum tókst að forða sér frá milljónatapi í bankahruninu svokallaða og hlýtur skammir fyrir. Núna lætur hann ríkissjóð tútna út á kostnað skattgreiðenda og allir mótframbjóðendur hans, himinlifandi með vaxandi skattheimtu hins opinbera, eiga í mesta basli með að lofa enn meiri útgjöldum komist þeir í sæti besta framkvæmdastjóra landsins.

Já, leyfum einkaaðilum að senda logandi heitan geisla inn í augu fólks og lækna það af nærsýni. Nei, ekki leyfa einkaaðilum að vefja votu gifsi utan um handleggsbrot og bíða eftir að það storkni.

Já, kjósum þann sem lofar því að eyða mestu af fé okkar. Nei, ekki umbera hagnað einkafyrirtækis sem við eigum viðskipti við af fúsum og frjálsum vilja.

Til hamingju, forsætisráðherra. Þú ert besti framkvæmdastjóri landsins – að mati almennings og mótframbjóðenda þinna!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Starbuck

Suma þjónustu er einfaldlega hagkvæmara og betra fyrir samfélagið að fjármagna með sköttum heldur en beinum greiðslum frá notendum. 

Ef opinber rekstur í heilbrigðisþjónustu legðist af og hún yrði að engu leyti fjármögnuð með sköttum þá yrði það mjög algengt að fólk hefði einfaldlega ekki efni á því að sækja sér nauðsynlega þjónustu.

Í einkageiranum er stundum til staðar sóun sem ekki væri til staðar þegar ríkið sér um viðkomandi hluti.  Hvalfjarðargöngin eru gott dæmi um það.  Þar eru til staðar algjörlega óþörf störf (með tilheyrandi launakostnaði) við að rukka fólk sem notar göngin(og um leið eyða tíma þess að óþörfu).  Niðurstaðan er - meiri kostnaður og óþægindi fyrir notendur ganganna heldur en ef ríkið sæi um þetta.  Geir - þú vilt greinilega sjá meira af svona aukakostnaði og óþægindum.   

Starbuck, 20.10.2017 kl. 11:56

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Já það er þetta með hagfræði ríkiseinokunar sem mörgum finnst svo heillandi. Sem sagt það að:

- Engin samkeppni.

- Engin verðskilaboð.

- Engir eigendur sem hafa beinna hagsmuna að gæta af hagkvæmum rekstri sem skilar aðri.

- Allar mikilvægustu og stærstu ákvarðarnar teknar af skrifstofublókum í Reykjavík og byggðar á Excel-skjölum þeirra frekar en rekstrarþekkingu.

Gildir það sama þá ekki um skósölu, hárgreiðslu, bílatryggingar, sjónmælingar, brjóstastækkanir og öryggisgæslu í Kringlunni?

Geir Ágústsson, 20.10.2017 kl. 13:40

3 Smámynd: Starbuck

Geir

- Engin tilraun til að koma með málefnaleg svör við þeim atriðum sem ég nefndi.

Starbuck, 20.10.2017 kl. 21:32

4 Smámynd: Geir Ágústsson

Upptalning mín á helstu einkennum ríkiseinokunar Er nú einuvers konar svar við ath.semdum þínum og öðrum svipuðum. Sóun í einkageiranum, þarf sem samkeppni er möguleg, er mjög sjálfleiðréttandi vegna markaðsaðhalds. 

Geir Ágústsson, 21.10.2017 kl. 06:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband