Um mikilvægi fríverslunar

Í frétt á Viðskiptablaðinu segir

Embættismenn segja ekkert leyndarmál að íslensk stjórnvöld vilji algera fríverslun eftir útgöngu Breta úr ESB.

Þetta eru góðar fréttir. Bretar kaupa mikið af íslenskri framleiðslu og borga sennilega ágætlega fyrir hana líka. Íslendingar geta líka keypt mikið af Bretum. Frjáls samskipti, án heimatilbúinna hindrana í formi tolla og annarra hafta, eru arðbær öllum sem að þeim koma. 

En hafa Íslendingar raunverulega skilið hagfræðina á bak við frjáls viðskipti?

Það held ég ekki.

Þeir skilja hana í tilviki Bretlands því þar hafa Íslendingar í gegnum árin lært að stunda viðskipti og hagnast vel á þeim.

Þeir skilja hana hins vegar ekki í tilviki erlendra fjárfestinga. Íslendingar tala jafnvel um að erlendir fjárfestar séu að mjólka hagkerfið. Það eru jú þeir sem fá hagnaðinn þegar vel gengur. Útlendingar byggja verksmiðju, verksmiðjan skilar gróða og gróðinn er svo tekinn úr landi! Hræðilegt! Væri ekki betra ef útlendingarnir hefðu haldið sig fjarri? Hefði ekki átt að leggja fé lífeyrissjóðanna undir í staðinn? 

Útlendingar mega ekki eiga neitt að ráði í sjávarútvegsfyrirtækjunum. Þar hafa fyrirtæki því neyðst til að treysta á innlent fjármagn og eigið rekstrarfé. Það hefur e.t.v. verið sjávarútvegsfyrirtækjunum til happs að sjávarútvegur víðsvegar erlendis er blússandi taprekstur bundinn í viðjum ríkisafskipta og að það sé því e.t.v. ekki sama pressa á að standa sig vel í alþjóðlegri samkeppni. Íslendingar hafa svo getað fjárfest í sjávarútvegi erlendis - orðið þessir "erlendu fjárfestar" sem margir bölva - og geta þannig dreift rekstraráhættu sinni.

Franski hagfræðingurinn og stjórnmálaheimspekingurinn Frederic Bastitat skrifaði á sínum tíma litla hugleiðingu um viðskiptahindranir sem ég vil hvetja alla til að lesa. Hana má lesa hér á ensku og í sumarhefti Þjóðmála í íslenskri þýðingu minni. 

Að öðru: Í dag tókst mér ekki að finna neina áhugaverða frétt á mbl.is til að hugleiða út frá. Þá kom Viðskiptablaðið til bjargar eins og oft áður. Viðskiptablaðið er besti fjölmiðill Íslands. Það er bara það sem ég vildi segja. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband