Samkeppni sveitarfélaga

Úr frétt mbl.is:

Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs, segir mögulegt að íbúar bæjarins verði orðnir um 50 þúsund árið 2030, ef áætlanir ganga eftir. Íbúar Kópavogs eru nú rúmlega 35 þúsund og fer fjölgunin nærri íbúafjölda Akureyrar. ... Hann seg­ir bæ­inn hafa aukið þjón­ustu en lækkað skatta.

Hérna sjáum við sveitarfélag með metnað. Sveitarstjórnin sýnir að það er hægt að gera allt í senn:

  • Lækka skatta
  • Auka þjónustu
  • Fjölga íbúum (með tilheyrandi kostnaði við innviðauppbyggingu)

Ég held að það ættu allir að fagna því að höfuðborgarsvæðinu er skipt upp í mörg sveitarfélög. Því fleiri því betra! Það neyðir þau til að stunda einskonar samkeppni um íbúana. Fólk þarf ekki að flytja á milli landsfjórðunga og langt frá vinum og ættingjum til að losna úr sveitarfélagi eins og staðan er víða úti á landi. Nei, það er nóg að keyra í 10 mínútur til að komast í annað sveitarfélag sem býður upp á betri þjónustu, lægri skatta og möguleika til að stofna heimili.

Samkeppni Kópavogs við Reykjavík er auðveld. Það ætti ekki að vera mikill vandi að tappa eins og 10-20 þúsund manns af Reykjavík. Þar er allt á hvolfi í rekstrinum. Hafnarfjörður hefur líka tekið sig á undanfarin ár, og Garðabær og Seltjarnarnes og Mosfellsbær eru öll á réttri leið. 

Það er íbúum höfuðborgarsvæðisins til happs að þurfa ekki að vera undir stjórn vinstrimannanna í Reykjavík. Megi sveitarfélögin halda áfram að vera sem flest! Samkeppni á milli þeirra er af hinu góða. 


mbl.is Liður í að fjölga íbúum í 50 þúsund
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Næsta skref er vonandi að Kópavogur segi sig úr Íslandi og verði sjálfstætt ríki. Kópavogsbúar: Hvað þætti ykkur um að þurfa ekki að borga skatta til íslenska ríkisins, sem er aðallega að sólunda skattfénu ykkar í allskyns vitleysu sem gagnast ykkur ekki neitt?

SR (IP-tala skráð) 15.6.2017 kl. 09:41

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Það væri óskandi. Eða eins og sagði í sjálfstæðisyfirlýsingu Bandaríkjanna:

"That whenever any Form of Government becomes destructive of these ends, it is the Right of the People to alter or to abolish it, and to institute new Government, laying its foundation on such principles and organizing its powers in such form, as to them shall seem most likely to effect their Safety and Happiness"

Þessi boðskapur var svo að vísu settur í ruslið þegar Lincoln meinaði Suðurríkjunum að lýsa yfir sjálfstæði frá Washington, en það er önnur saga.

Sé sjálfstæði Kópavogs ekki möguleiki er til vara hægt að minnka stórkostlega allar lagalegar skyldur á sveitarfélög svo þau geti leyft íbúum sínum að velja sjálfir þá þjónustu sem þeir vilja. Þannig væri hægt að gera söfnun á rusli, dreifingu á vatni og rafmagni og hita, lagningu lagna í jörðina og fleira slíkt að viðskiptum sem fara fram á milli einstaklinga og fyrirtækja. 

Geir Ágústsson, 15.6.2017 kl. 11:08

3 identicon

Það er að sjálfsögðu enginn metnaður fólginn i því að lækka skatta. Metnaður felst i uppbyggingu og aukinni þjónustu við íbúana. Minni tekjur opinberra aðila vegna lægri skatta vinna gegn þeim markmiðum.

Auk þess er það viðurkennt hagfræðilögmál að það eigi að hækka skatta í góðæri til að slá a þenslu. Þá er hægt að lækka þá þegar illa árar og örva þannig efnahaginn.

Ásmundur (IP-tala skráð) 15.6.2017 kl. 11:24

4 Smámynd: Geir Ágústsson

Ásmundur,

Þetta með að lækka skatta þegar heimilin þjást í efnahagslegri niðursveiflu - hvenær gerðist það seinast? Voru skattar ekki einmitt hækkaðir kröftuglega frá árinu 2009 til að halda uppi öllu ríkisbatteríinu?

Þetta svokallaða lögmál er langt í frá að vera viðurkennt. 

Það er gott ef stjórnmálamenn leyfa launafólki að halda eftir launum sínum. 

Það er yfirleitt nóg svigrúm í hinum opinbera rekstri til að skera niður án þess að það bitni á þjónustu við borgarana. Til dæmis gæti Reykjavík langt niður svokallað mannréttindaráð sitt og notað 160 milljónir á ári í skattalækkanir. Raunveruleg þjónusta við borgarana mundi ekki breytast neitt við það. 

Geir Ágústsson, 15.6.2017 kl. 11:33

5 identicon

Atvinnuþjófar hafa lengi stolið frá fólki til að fjármagna allskyns gæluverkefni, fórnarlömbunum "til góðs". Þeir hafa lengi verið metnaðarfullir og vilja alltaf stela meiru og meiru, ekki síður í uppsveiflu þegar meira þýfi er að hafa.

Ég vona að skattgreiðendur í Kópavogi segi sig burt frá svona hugsunarhætti. Þeir gætu þá sjálfir keypt það sem er þeir telja að sé þeim til góðs og sagt skilið við þjófana sem alltaf vilja sinn skerf af ágóðanum.

Leyfið restinni af Íslendingum að stela frá hverjum öðrum ef þeir vilja.

SR (IP-tala skráð) 15.6.2017 kl. 14:02

6 identicon

Geir, þetta er viðurkennt lögmál hjá hagfræðingum en auðvitað ekki hjá Sjálfstæðisflokknum. Þeir vilja alltaf lækka skatta, sama hvað.

Annars er þetta frekar augljóst. Með hærri sköttum hefur fólk minna fé milli handanna svo að það dregur úr þenslu. Svo þegar harðna fer á dalnum á ríkið heilmikið fé sem það getur nýtt til uppbyggingar þegar aðrir halda að sér höndunum. Með skattalækkun í niðursveiflu vænkast hagur almennings. Eyðsla eykst sem hefur jákvæð áhrif á efnahagslífið.

En þetta er eflaust of flókið fyrir flesta sjalla sem hugsa ekkert um pólitík og vilja bara græða á daginn og grilla á kvöldin, eins Hannes Hólmsteinn upplýsti okkur um hér um árið. Það er mikilvægara að sjá til þess að geta keypt hvítvín með humrinum á sunnudögum.

Ásmundur (IP-tala skráð) 15.6.2017 kl. 14:51

7 Smámynd: Geir Ágústsson

Ásmundur,

Það er þú þylur upp sem viðtekin sannindi eru rykfallin gervivísindi runnin undan rifjum John Maynard Keynes og höfðu fyrst og fremst þann tilgang að gefa endalausum ríkisafskiptum vísindalegan blæ. 

Ríkið á aldrei varasjóði þegar harðnar í dalnum. Það var fráfarandi vinstristjórn til happs að skuldir hins opinbera voru lágar þegar hrunið skall á. Vinstrimenn voru ekki lengi að bæta við þær. 

Ríkið getur aldrei dregið saman seglin þegar skatttekjurnar minnka. Menn segja í háði að það sé aldrei neitt varanlegra en tímabundinn skattur. Í því er sannleikskorn.

Ríkið getur ekki eytt öðru en því sem það tekur af fólki og fyrirtækjum þess, og allir vita að ríkið eyðir hverri einustu krónu sem það krækir í - jafnóðum - og gott betur. 

Geir Ágústsson, 15.6.2017 kl. 18:26

8 identicon

"þetta er viðurkennt lögmál hjá hagfræðingum"

Þetta er alls ekki viðurkennt lögmál hjá hagfræðingum. Hér er t.d. bók eftir hagfræðinginn Murray Rothbard, þar sem hann útskýrir m.a. hvers vegna fræði Keynes eru tóm vitleysa.

https://mises.org/library/man-economy-and-state-power-and-market

SR (IP-tala skráð) 15.6.2017 kl. 18:54

9 identicon

Auðvitað hafa frjálshyggjumenn reynt að gera þessa kenningu tortryggilega enda hamlar hún frelsi þeirra. En hún hefur reynst vel þar sem hún hefur ráðið ferð. Hún krefst hins vegar agaðra vinnubragða.

Það þarf ekki djúp vísindi til að sjá að með hækkuðum sköttum aukast tekjur ríkis og/eða sveitarfélaga. Þegar við bætist að opinberar framkvæmdir eru skornar niður í uppsveiflu er ljóst að ríkið sýnir mikinn tekjuafgang ef jöfnuður hefur verið í lagi fyrir.

Annars vantar ekki að frjálshyggjumenn vitni í þessar kenningar þegar það hentar þeim. Þannig var vinstri stjórnin harðlega gagnrýnd fyrir að hækka skatta eftir hrun og vitnað í kenningarnar um að það mætti ekki gera í samdrætti. Það er hins vegar ekki hægt að lækka skatta í samdrætti eftir gífurlega lækkun í uppsveiflu.

Geir það er ótrúlegt hvað þú fylgist illa með. Þú hefur ekki hugmynd um hvert helsta verkefni vinstri stjórnarinnar var. Það þurfti að reisa við fjármálakerfið og þjóðfélagið og til þess voru ekki til neinir peningar eftir margra ára óstjórn sjalla. Svo að ekki sé minnst á gífurlegt tap seðlabankans á ábyrgð Davíðs Oddssonar.

Ásmundur (IP-tala skráð) 15.6.2017 kl. 20:11

10 identicon

Þessi umræða mun engan endi taka.

Sem betur fer hafa þeir sem eru ósammála ennþá frelsi til að forðast ágangi íslenskra stjórnvalda með því að flytja sig og sitt fé til Hong Kong eða Monaco. Þetta er kosturinn við smærri stjórnmálaeiningar. Menn hafa valkosti.

Vonandi mun Kópavogur segja sig á endanum úr Íslandi svo að menn geti haft ennþá fleiri valkosti hér nær heimaslóðum.

SR (IP-tala skráð) 15.6.2017 kl. 21:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband