Einkabíllinn og almenningssamgöngur

Ráðvillt borgaryfirvöld leita nú leiða til að þrýsta fólki út úr einkabílnum og inn í strætó. Það er vonlaust barátta. Íslenskt veðurfar er slæmt, byggðin er dreifð (af góðum ástæðum - fólk vill pláss) og fólk vill sveigjanleika.

Bílaeign Íslendinga er ekki bölvun heldur blessun. Þökk sé henni geta flestar fjölskyldur spjarað sig sjálfar. Þær geta verslað inn fyrir alla vikuna í einu og bæði komist í matvöruverslun og áfengisverslun án þess að skipta um strætó eða rogast með þunga innkaupapoka á milli bygginga (ef áfengið væri selt í sömu verslunum og matvaran myndi þetta vandamál auðvitað leysast af sjálfu sér). 

Fólk getur skutlað börnum sínum á æfingar eða sótt þau á leikskólann með viðkomu í búð á heimleiðinni.

Fólk kemst í frí út á land og getur notið náttúrunnar eða heimsótt ættingja.

Fólk kemst sjálft til læknis eða á sjúkrahús nema eitthvað mjög alvarlegt sé að.

Fólk getur boðið öldruðum ættingjum með í bíltúr eða sótt það í fjölskylduviðburðinn.

Bíllinn er hið mesta þarfaþing og óþarfi að agnúast út í hann.

Það er hins vegar ákveðið plássleysi í gangi á vegum eins og annars staðar. Það væri líka plássleysi á klippistofum, í kvikmyndahúsum og flugvélum ef ekki væri fyrir ákveðnar leiðir til að dreifa álaginu.

Þessar leiðir eru: Tímapöntun og verð.

Tímapantanir raða viðskiptavinum þannig upp að allir komist að þótt ekki fái allir fyrsta valrétt á tíma.

Verðlag er notað til að flokka fólk eftir ákafa að komast inn eða njóta ákveðinnar þjónustu á ákveðnum tíma. 

Í gatnakerfinu er hins vegar hvorki hægt að panta tíma né aðgangsstýra með verðlagi.

Allir sem borga himinháa bifreiðaskatta og stjarnfræðileg eldsneytisgjöld hafa sama rétt til að nota vegakerfið og allir aðrir.

Kemur það þá einhverjum á óvart að vegirnir eru troðfullir tvisvar á dag af bílum þar sem einn eða tveir einstaklingar eru í hverri bifreið og þar sem mörg hundruð manns eru á leið á sama svæði?

Stjórnmálamenn kunna engin ráð sem duga. Þeir halda að það dugi að þröngva fólki inn í almenningsvagna. Ég þekki dæmi um konu sem býr í Breiðholti en vinnur í Árbæjarhverfi, en þessi hverfi liggja hlið við hlið. Hún þyrfti að eyða 45 mínútum í strætó og labba yfir 500 metra til að komast í vinnuna á morgnana. Skiljanlega velur hún að keyra í 10 mínútur í staðinn. 

Það er ekki hægt að hanna strætókerfi sem hentar öllum jafnvel þótt auðvitað megi alltaf dæla fé í fleiri vagna og vona það besta.

Lausnin er ekki sú að byggja enn eitt samgöngukerfið ofan á hið gamla, t.d. þessa svokallaða Borgarlínu. Í hana fara bara milljarðar sem verða dregnir út úr viðhaldi vega og rekstri strætisvagna. Vasar skattgreiðenda dýpka ekki þótt stjórnmálamenn vilji eyða meira fé úr vösum þeirra.

Það sem þarf að gera er að afnema hindranir á rekstur leigubíla og létta kröfur á rekstur hópferðabíla. Það þarf líka að hætta skattlagningu í þágu vegakerfisins og rukka í staðinn fyrir raunverulega notkun þar sem verðið fer eftir tíma dags og leið sem er valin. Og það þarf að hætta að innheimta skatta til að reka almenningssamgöngur.

Um leið yrði til markaður. Einkaaðilar færu að bjóða upp á hópferðir sem endurspegla raunverulegar þarfir. Fólk gæti t.d. pantað sér far frá Grafarvogi og niður á Lækjartorg með komutíma kl. 7:45 á virkum dögum. Hópferðarbíll safnar svo upp öllum farþegum með svipaðar þarfir - frá dyrum þeirra - og keyrir á áfangastað. Heimleiðin færi fram með svipuðum hætti. Þetta er tæknilega auðvelt. Það þarf bara að fjarlægja hindranir á slíkum rekstri.

Helst ættu einkaaðilar líka að reka vegina. Þeir gætu þá keppt í aðgengi og öryggi og verðlagt vegakerfið rétt með tilliti til viðhaldskostnaðar. Opinber miðstýring á vegakerfinu leiðir til sóunar og vanmats á raunverulegum þörfum vegfarenda.

Það er til nóg af vegum og óþarfi að hlaða fleiri kerfum ofan á núverandi vegakerfi. 

Stjórnmálamenn þurfa að geta sleppt tökunum. Að þeir geti það ekki er stærsta vandamál vegakerfisins. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er enginn að agnúast út í að menn eigi bíla.

Það er verið að gera þeim sem telja sig ekki hafa efni á að reka bíl kleift að komast leiðar sinnar á ódýrari og oft þægilegri hátt á mun styttri tíma en ella. Ég er ekki að tala fyrir sérhagsmunum mínum. Ég á bíl og hef ekki hugsað mér að verða bíllaus.

Það er einnig verið að skapa valkost fyrir bílaeigendur. Þeir geta valið á milli almenningssamgangna og einkabílsins þegar almenningssamgöngurnar henta betur td úr og í vinnu þegar umferðin er þyngst.

Aðalkosturinn við borgarlínuna er að hún verður á sér akrein og lendir því ekki í umferðarteppum auk þess sem ferðir verða svo tíðar að það er alltaf stutt í næsta vagn.

Ávinningurinn er gríðarlegur til lengri tíma litið: Minni umferð, minni mengun, minni þörf fyrir fleiri akreinar, mislæg gatnamót og bílastæði. Við fáum fallegri og skemmtilegri borg.

Sú borgarstjórn sem styður ekki slík mál er einfaldlega ekki að standa sig. Við þurfum ekki borgarstjórn sem vill láta allt reka á reiðanum. Þess vegna er Sjálfstæðisflokknum hafnað af borgarbúum.

Andstaðan gegn borgarlínunni minnir á þegar bændur fjölmenntu til að mótmæla símanum. Þeir óttuðust að nytin færi úr kúnum. Það var þó skiljanlegra enda mun meiri bylting en borgarlínan.

Þessar hugmyndir þínar eru afskaplega vanhugsaðar og myndu leiða yfir okkur mikla ringulreið.

Ásmundur (IP-tala skráð) 9.6.2017 kl. 12:59

2 identicon

Það er ekkert nýtt hér á ferðinni. Spilltir, æstir og ofbeldishneigðir lýðræðismúgir eru alltaf að ákveða hversu mikið á að stela og af hverjum og hver á að fá hversu mikið af þýfinu.

Ef þessi tiltekna umræða um samgöngur væri málefnaleg en ekki byggð í grunninn á heift og ofbeldi, væru talsmenn strætóa og lesta að sjálfsögðu löngu búnir að biðja um nógu mikið einstaklingsfrelsi til að stofna sín eigin strætó- og lesta-fyrirtæki og rukka viðskiptavini fyrir notkun á þeim. Þetta snýst augljóslega ekki um það. Þetta snýst aðallega um að stela pening af öðrum í gegnum ríkisvaldið svo menn geti fjármagnað sín "góðverk".

Múgurinn sem er stærstur og/eða með háværustu röddina sigrar, eins og venjulega. Það að traðkað sé á frelsi sumra einstaklinga sem hvorki vilja fjármagna né nota strætóa eða lestir, skiptir að sjálfsögðu engu máli. Megi þessir minnihlutahópar fara fjandans til.

SR (IP-tala skráð) 9.6.2017 kl. 20:09

3 identicon

SR þetta er rétt hjá þér ef við gerum ráð fyrir fræðum t.d. Rothbards um eignarétt.

Í dag er hins vegar reglan yfirleitt sú að á hverju afmörkuðu svæði á landakortinu er lýðræði og meirihlutinn ("múgurinn" eins og þú kallar hann) ræður og að þeir sem eru ósáttir geta flutt annað. Menn geta sett út á þetta kerfi en þannig er það í dag. Aðalatriðið finnst mér að reglurnar eigi að vera skýrar og auðvelt sé að flytja annað ef maður er ósáttur.

Gunnar (IP-tala skráð) 9.6.2017 kl. 20:40

4 identicon

Gunnar, góður punktur, en málið að þá að hafa sem flest sjálfstæð ríki. Ef menn eru andsnúnir einni alheimsríkisstjórn þá hafa menn um leið viðurkennt kosti fleiri sjálfstæðra ríkja. Af hverju að nema staðar við Ísland? Ísland gæti verið mörg sjálfstæð ríki og t.d. Raufarhöfn gæti lækkað tekjuskatta niður í 0% og orðið að næsta Singapúr á nokkrum árum.

Það væri annars athyglisvert að fylgjast með hvort Suðvesturhornið myndi setja upp landamæraverði til að skjóta fólk sem reyndi að flýja til Raufarhafnar, eins og svo mörg önnur sósíalísk ríki hafa gert í mannkynssögunni þegar það væri annars of auðvelt fyrir hýsla (sem sníkjudýrin lifa á) að flýja burt.

SR (IP-tala skráð) 9.6.2017 kl. 22:57

5 Smámynd: Geir Ágústsson

Óttinn við að hleypa einkaframtakinu af stað hefur alltaf verið til staðar. Einkaframtakið hagar sér ekki alltaf eins og vandlega smíðaðar áætlanir í ráðhúsinu. Það aðlagast hratt og tekur óvæntar stefnur. Stundum hleypur það langt á undan lagarammanum eins og Uber, Airbnb og slík fyrirtæki hafa sýnt okkur. Rafsígarettur eru annað dæmi um afurð einkaaðila sem hið opinbera hefur engin svör við. Fjórhjól á sínum tíma komust ekki til landsins því ríkisvaldið var ekki með sérstakan tollflokk fyrir slík tæki.

En hvað gerir það til að hleypa einkaframtakinu samt af stað? Jú, einhverjir rótgrónir hagsmunir háværra aðila komast í uppnám. Leigubílstjórar missa völd, áhrif og tekjur. Þá reyna menn að herða að einkaaðilum til að falla að kröfum hagsmunahópa frekar en að létta regluverkið á þá hagsmunahópa svo þeir geti brugðist við samkeppninni. 

Hvað gera menn í stað þess að leyfa einstaklingum að finna nýjar leiðir til að þjóna samborgurum sínum? Jú, reyna að hlaða enn meira af gölluðu kerfi ofan á hið gamla! Bóndi á ríkisstyrkjum lendir í samkeppni. Hvað er gert? Samkeppnisaðilanum er boðið að leggjast í ríkisjötuna líka og uppfylla allar kröfur í stað þess að vera léttur og sveigjanlegur og aðlögunarhæfur. Í stað þess að frelsa almenningssamgöngur á að byggja meira af þeim með fé skattgreiðenda. Í stað þess að sjúklingar geti lagst í rúm í Ármúlanum eru þeir sendir til Svíþjóðar.

Sem betur fer hefur mönnum tekist að brjóta á bak mörg ríkisafskiptin. Við megum kaupa bjór, hlusta á FM957 og horfa á Stöð 2. Baráttan heldur samt áfram og er við her af aðilum sem tortryggja samborgara sína og þjónustulund þeirra og ásaka alla sem starfa sjálfstætt um græðgi og annarlegar hvatir.

Geir Ágústsson, 10.6.2017 kl. 06:43

6 Smámynd: Geir Ágústsson

Varðandi flótta frá ríkisvaldinu þá er það auðvitað nokkuð sem margir gera. Sviss er troðfull af milljarðamæringum, svo dæmi sé tekið. Menn sem stunda viðskipti við Kína búa gjarnan í Hong Kong sem hefur varðveitt töluvert af sjálfræði sínu.

Á Íslandi þarf að rýma lög um sveitarfélög svo það sé auðveldara að stofna nýtt. Um leið þarf að fækka lagakvöðum á sveitarfélög. Þessa hugmynd hef ég viðrað víða.  Stór fyrirtæki hafa oft þurft að aðlagast þegar smærri samkeppnisaðilar eru stofnaðir. Af hverju er lítið sem ekkert slíkt aðhald á sveitarfélögum? 

Geir Ágústsson, 10.6.2017 kl. 07:46

7 identicon

Frábær grein um sveitafélögin Geir.

Við getum því miður látið okkur dreyma um þetta á meðan jafnarmenn eru við völd (þ.á.m. jafnaðarmennirnir í Sjálfstæðisflokknum sem eru 0,01 millímetra meira til hægri en aðrir). Fyrir jafnaðarmenn kæmi aldrei til greina að gefa sveitafélagi svo mikið frelsi, hvað þá að segja sig burt úr Íslandi. Að leyfa mönnum að ráða sér sjálfum og hætta að stela eigum þeirra - aldrei nokkurn tímann.

SR (IP-tala skráð) 10.6.2017 kl. 12:44

8 Smámynd: Geir Ágústsson

Sveitarfélög hafa mikið frelsi til að safna skuldum og stofna allskyns ónauðsynleg embætti sem kosta fúlgur. Menn hafa talað fyrir sjálfstæði sveitarfélaga og það allt. Það sjálfstæði virðist bara vera í eina áttina: Að þyngja hið opinbera. Kannski það renni einhvern tímann upp fyrir einhverjum að það gangi ekki til lengdar. 

Geir Ágústsson, 12.6.2017 kl. 07:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband