Allt nema lægri skatta, ekki satt?

Þegar stjórnmálamenn reyna að hunsa lögmál hagfræðinnar dettur mér alltaf í hug lítil saga sem ég heyrði frá manni sem þekkti til í Sovétríkjunum sálugu (og vann raunar fyrir miðstjórnina þar til hann gat flúið land). 

Sagan segir að dag einn voru sovésk yfirvöld að ákveða hvað hlutir ættu að kosta og hvers vegna. Þau komust að því að barnamatur væri góður. Hann ætti því að vera ódýr. Vodki væri hins vegar slæmur. Hann ætti að vera dýr.

Afleiðingin var sú að hvergi var hægt að kaupa barnamat en vodki var alstaðar til sölu. 

(Það borgaði sig jú ekki að framleiða barnamat á meðan vodki var mjög arðbær.)

Nú er enginn að segja að íslensk yfirvöld séu á svipaðri vegferð (nema þegar kemur að verðlagi peninga og landbúnaðarvarnings). En eitt eiga þau sameiginlegt með þeim sovésku: Þau reyna að breyta lögmálum hagfræðinnar með valdboði.

Tökum heilbrigðisþjónustu sem dæmi. Hún er niðurgreidd. Sá sem fer illa með líkama sinn, t.d. með feitmeti, hreyfingarleysi og reykingum, er litlu verr staddur gagnvart heilbrigðisþjónustunni og sá sem skokkar reglulega, borðar mikið af grænmeti og neytir hvorki áfengis né tóbaks. Reykingamaðurinn fær niðurgreidd lungnaþembulyf. Skokkarinn fær niðurgreidda aðgerð á slitnum krossböndum. Niðurgreidd þjónustu nýtur meiri eftirspurnar en sú óniðurgreidda. Eftirspurnin eykur álag. Því er mætt með biðlistum og skömmtunum. Menn halda samt áfram að ganga í þjónustuna. Svo furða menn sig á því af hverju kostnaður við heilbrigðiskerfið vex stjarnfræðilega. 

Annað dæmi er menntun. Hún er niðurgreidd. Fyrir vikið er meiri eftirspurn eftir menntun en annars væri. Ekki skiptir máli hvort maður lærir kynjafræði eða klíníska sálfræði. Fólk velur sér ekki nám út frá verðlagi þess eða væntum tekjum. Eftirspurnin eftir menntun leiðir til offramboðs af menntuðum einstaklingum í leit að þægilegri innivinnu. 

Og svo eru það skattarnir. Þeir eru hærri en flest fólk er tilbúið að sætta sig við. Það nennir enginn að borga hálfan handlegg fyrir klippingu eða aðstoð við flutninga. Menn hafa engu að síður áhuga á þjónustunni og eru tilbúnir að borga fyrir hana. Málamiðlunin er því svört atvinnustarfsemi. Siggi málar stofuna fyrir Lúlla lækni svo hann geti farið í vinnuna og gegn hagstæðara verði vill hann fá borgað í reiðufé og án pappírsvinnu. Allir vinna, bókstaflega. En nei, nú mæta yfirvöld á svæðið og vilja banna reiðufjárviðskiptin. Í leiðinni banna þau viðskiptin alveg. Lúlli læknir tekur sér frí frá læknavaktinni á spítalanum til að mála stofuna. Siggi situr heima hjá sér og spilar á Playstation. Allir tapa. 

Ég vil hvetja fjármálaráðherra til að verða sér úti um eintak af bókinni Hagfræði í hnotskurn. Sú bók gæti sparað honum margan hausverkinn. 


mbl.is Vill banna launagreiðslur í reiðufé
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll.

Mig grunar nú að partur af þessu öllu hjá honum Benedikt sé að tryggja ríkinu tekjur. Nú er hann kominn í valdastöðu og hann vill vera þar áfram. Hver er besta leiðin til þess? Alls konar lýðskrum - í dag er orðið aflandsfélag nánast eins og blótsyrði þó ekkert sé að því að eiga aflandsfélag. Hvers vegna aflandsfélög til? Dettur engum í hug að spyrja þeirrar spurningar? Hann skorar mörg stig á því að hjóla í svona félög enda stutt í öfund hjá ansi mörgum. 

Benedikt vill endilega líta út sem maður sem passar upp á ríkiskassann með því að passa að allir borgi sinn hlut. Partur af þessu er líka sjálfsagt að hann vill hafa nægt fé til að eyða svo hann hljóti nú endurkjör.

Það litla sem ég hef heyrt til núverandi fjármálaráðherra bendir eindregið til þess að hann hafi afar lítinn skilning á efnahagsmálum.

Núverandi stjórn, ef hún nær að sitja í 4 ár, mun sitja á meðan hrun verður. Hverjum ætlar Benedikt að kenna um hrunið? Aflandskrónueigendum? Þeim ríku? Hann þarf að fara að hita upp afsökun sem jafnframt tryggir að hann nái aftur kjöri.

Annars minnir þessi frétt mig á það sem gert var á Indlandi fyrir örfáum mánuðum: Þá voru ákveðnir peningaseðlar bannaðir. Hvað gerðist? Það fór allt í steik og mun sú snilld valda samdrætti í indversku efnahagslífi. Sumum er auðvitað bara sama. 

Helgi (IP-tala skráð) 1.2.2017 kl. 07:49

2 identicon

Þetta er mjög vond hugmynd.  Hann er ekki að passa upp á ríkiskassann með þessu heldur að efla vald bankastofnana á kostnað almennings.

Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 1.2.2017 kl. 07:58

3 Smámynd: Geir Ágústsson

Það styttist í lög sem skylda bankana til að afhenta skattheimtuyfirvöldum öll gögn um alla, fylgjast með "óeðlilegri" hegðun og hvaðeina. Bankarnir taka glaðir við verkefninu. Ríki og bankar færast skrefi nær í því tilhugalífi sem þeir hafa átt undanfarna áratugi. 

Af öllu því sem Karl Marx mælti með til að koma á sósíalísku þjóðskipulagi hefur sennilega fátt verið meira notað en þetta ráð:

Centralisation of credit in the hands of the state, by means of a national bank with State capital and an exclusive monopoly. 

https://www.marxists.org/archive/marx/works/1848/communist-manifesto/ch02.htm

Geir Ágústsson, 1.2.2017 kl. 09:30

4 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

Svarta atvinnustarfsemin verður þá að "greiða fyrir greiða."  Og dópdílerar fara að borga skatt... en ríkið mun ekki fatta það.  Og ekki einu sinni reyna það.

Svo gæti það alveg gerst að svarta hagkerfið fari bara að vinna á öðrum gjaldmiðli.  T.d dollar.  Eða bara hverju sem er, menn kunna alveg á reiknitölvu, og eru með app fyrr allt og ekkert.

Það sem gæti þá gerst er að krónan detti út sem gjaldmiðill, og stór hluti alls fjármagns fari bara hreinlega úr landi.

Sem mun gerast, vegna þess að það verður að gerast.

Ásgrímur Hartmannsson, 1.2.2017 kl. 18:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband