Nokkur orð um meintan arð af auðlindum

Á Íslandi er að mörgu leyti aðskilnaður á milli stjórnmála og sjávarútvegs. Sjávarútvegurinn er starfsvettvangur einkafyrirtækja sem kaupa, lána, fjárfesta, borga, þéna og ýmist græða eða tapa. Þau þurfa að haga seglum eftir vindi og þræða flókið samspil gengisbreytinga, markaðsverðs á sjávarfangi, eldsneytiskostnaðar, flutninga, árstíðasveifla, aðgengi að starfsfólki, reksturs á skipum og húsnæði og svona mætti lengi telja.

Þeim sem tekst það tekst að skila hagnaði. Af honum er svo tekinn ríflegur skattur. Eftir stendur fé sem má nota til að fjárfesta fyrir (t.d. bæta aðbúnað eða endurnýja búnað) og greiða hluthöfum arð.

Þeim sem tekst það ekki tapa fé - eigin fé og ekki annarra. 

Stjórnvöld sitja svo hinum megin við borðið og taka við skattgreiðslunum. Þau taka enga áhættu en njóta ágóðans. 

Nú er verið að tala um að breyta þessu. Stjórnvöld vilja snarauka skattheimtuna. Bætist þá enn í flækjustig sjávarútvegsfyrirtækja. Svigrúmið til að taka á sig gengissveiflur minnkar til dæmis. Allt annað líður líka fyrir aukið fjárstreymi úr rekstri sjávarútvegsfyrirtækja - fjárfestingar, getan til að ná hæft starfsfólk og halda því, viðhald, endurnýjun og allt þetta.

Menn segja að sjávarútvegurinn hafi efni á þessu. Það gleymist að þótt sumir skili góðum hagnaði í dag þá gera aðrir það ekki endilega.

Menn gleyma því líka að ytri aðstæður breytast hratt fyrir sjávarútveginn. Gengi gjaldmiðla getur breyst hratt. Fiskurinn getur synt í burtu.

Spurningin er því: Ef ríkisvaldið ætlar sér að sjúga til sín enn meira fé þegar vel gengur ætlar það þá líka að hlaupa undir bagga ef og þegar náttúruleg áföll dynja á eða ytri aðstæður verða sjávarútveginum óhagstæðar?

Ætlar ríkisvaldið að blanda sér með þessum hætti í rekstur sem í dag er í höndum einkaaðila og taka á sig þá rekstraráhættu sem einkaaðilar búa við í dag?

Eða ætlar ríkið bara að þjóðnýta gróðann og einkavæða tapið? Og hvað halda stjórnvöld þá að verði um þessa iðngrein?

Maður spyr sig. Ég sé alveg dollaramerkin í augum margra stjórnmálamanna en ef ríkið ætlar sér að auka afskipti sín af rekstri sjávarútvegsfyrirtækja er spurningin bara hvenær en ekki hvort skattgreiðendur þurfa að standa reiðubúnir og borga brúsann þegar eitthvað fer úrskeiðis.


mbl.is „Hreinskipt og gott samtal“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband