Hvað gerist þegar eftirspurn eftir eplum eykst?

Spurt er:

Hvað gerist þegar eftirspurn eftir eplum eykst?

Hagfræðin lýsir þessu ágætlega.

Í fyrstu hækkar verð á eplum - fleiri vilja krækja í hlut af sömu uppskeru og var til staðar á hinni fyrri eftirspurn.

Hærra verð þýðir meiri hagnaður eplaframleiðenda. Þeir bregðast við með því að bæta við trjám. Samkeppnisaðilar, t.d. peruræktendur, sjá hinn aukna hagnað á markaði epla og hefja sína eigin eplarækt. 

Hið aukna framboð í umhverfi sömu eftirspurnar þrýstir verðinu aftur niður. Jafnvægi næst á ný. Hagnaður eplaframleiðenda verður sá sami og í flestum öðrum greinum og fjárfestar í leit að nýjum tækifærum líta á aðra markaði.

Af einhverjum ástæðum virðast lögmál hagfræðinnar ekki eiga við um húsnæði í Reykjavík. Ástæðan er ekki sú að fjárfestar eru sofandi á verðinum og hættir að leita að heppilegri ávöxtun fyrir fé sitt. Ástæðan er ekki sú að menn hafi ekki trú á að hin aukna eftirspurn endist.

Ástæðan er einfaldlega sú að hið opinbera setur markaðinum stólinn fyrir dyrnar og meinar honum, beint eða óbeint, að auka við framboð þar sem eftirspurn er mikil.

Ástæðan er ekki sú að Airbnb hefur hafið innreið sína á Íslandi. Án Airbnb væri bara búið að finna aðrar leiðir til að hagnast á vel borgandi ferðamönnum sem vilja búa í póstnúmerum 101 og 105 í Reykjavík.

Hið opinbera er að sá eitri í jörð þar sem annars væri hægt að rækta eplatré. 


mbl.is Airbnb og lítið framboð hækkar verð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta kemur ágætlega fram í Vesturbænum þar sem kaffihúsið hans Gísla Marteins fær vínveitingaleyfi en veitingahúsið Borðið ekki.  Þess vegna á almenningur ekkert sameiginlegt með stjórnmálamönnum hvort sem þeir kenna sig við hægri eða vinstri.  Þeir eru í besta falli til óþurftar en oftast til ills eins.

Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 18.5.2016 kl. 11:21

2 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

"...hið opinbera setur markaðinum stólinn fyrir dyrnar og meinar honum, beint eða óbeint, að auka við framboð þar sem eftirspurn er mikil"

Það gerir hið opinbera, með því að framfylgja ekki lögum sem gilda um afnot af húsnæði í skipulagðri íbúðabyggð. Slíkt húsnæði er almennt óleyfilegt að nota í atvinnuskyni, þar á meðal til rekstrar gististaða fyrir ferðamenn, hvort sem slík starfsemi fer í gegnum AirBnb eða aðra farvegi. Með því að framfylgja ekki þeim lögum, heldur snúa blinda auganu við þessari svörtu atvinnustarfsemi, er hið opinbera með aðgerðaleysi sínu að stuðla að skerðingu á framboði íbúðarhúsnæðis, sem skapar skort og hækkar verð.

Rétt er að halda því til haga að hin svokölluðu "lögmál" hagfræðinnar virka ekki nema á heilbrigðum markaði. Hinsvegar ef lögleysa ríkir á tilteknum markaði þar sem sumir fara eftir leikreglum þess markaðar en aðrir ekki, þá verða bæði samkeppnisstaðan og verðmyndunin á þeim markaði skökk. Undir slíkum kringumstæðum hegðar sá markaður sér ekki í samræmi við svokölluð "lögmál" hagfræðinnar og reyndar hvorki lög né lögmál neins. Eins og þessi svokölluðu "lögmál" kveða á um, leiðir skortur á framboði til hærra verðs. Í þessu tilviki er skorturinn á framboðinu og þar með hærra verð, hinu opinbera að kenna, þar sem það leyfir lögleysu að viðgangast og viðheldur með því ólögmætum forsendum verðmyndunar á húsnæðismarkaði.

Ef hið opinbera myndi aftur á móti framfylgja lögum og stuðla þannig að heilbrigðri verðmyndun samkvæmt leikreglum þessa markaðar, þá myndi það leiða til aukins framboðs íbúðarhúsnæðis og þar með lægra verðs á slíku húsnæði. Vissulega myndi það um leið draga úr framboði á gistirýmum fyrir ferðamenn, en það myndi þá einfaldlega skapa sóknarfæri fyrir aðila sem vilja fjárfesta í uppbyggingu nýrra og löglegra gistirýma, eða þá sem fyrir eru með löglegan rekstur að hækka verð og framlegð af þeim rekstri, allt í samræmi við hin sömu "lögmál" hagfræðinnar. Auk þess er fjöldi ferðamanna nú þegar kominn að mörkum þess sem landið þolir með góðu móti, og er því full ástæða til að setja frekari fjölgun þeirra einhverjar skorður. Það stafar ekki af hagfræðikenningum heldur raunverulegum náttúrulögmálum, og samkvæmt þeim er hvorki hægt að auka framboðið á Geysi né Gullfossi.

Guðmundur Ásgeirsson, 18.5.2016 kl. 17:47

3 Smámynd: Geir Ágústsson

Guðmundur,

Ég þakka fyrir ítarlegt innlegg og fróðlegt eins og alltaf en hvernig stendur á því að fólk er frekar að vasast í því að leigja út ólöglega frekar en að finna sér stabíla langtímaleigjendur sem borga fastar og reglulegar greiðslur?

Ég spyr af einskærri forvitni því ekki held ég að allir séu tilbúnir að leggja á sig mikla áhættu og framkvæma lögbrot nema hvatarnir til þess séu mjög sterkir og miklu sterkari en að fylgja línunni ef svo má segja. 

Ég sé fjárhagslegu hliðina en er það allt og sumt? 

Geir Ágústsson, 18.5.2016 kl. 18:03

4 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Svarið er einfalt: græðgi og skammsýni.

Hvorugt atriðið er neitt nýmæli hér landi.

Bæði eru ósiðir sem landsmenn virðast seint ætla að venja sig af.

Guðmundur Ásgeirsson, 18.5.2016 kl. 18:43

5 identicon

Það er ekki hægt að skrifa það á græðgi og skammsýni að fólk treysti ekki stjórmálamönnum fyrir peningum.  Það veit af langri reynslu að það er nánast kjánalegt að fylgja línunni.

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/05/18/vidurkenndi_ad_vera_med_sjod_foreldranna/

Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 18.5.2016 kl. 21:25

6 Smámynd: Geir Ágústsson

Elín,

Ég tek heilshugar undir tortryggni þína á stjórnmálamönnum. Hún er verðskulduð.

Mér finnst hins vegar einkennilegt að á meðan sárlega vantar minna húsnæði í Reykjavík, sérstaklega fyrir ungt fólk eða litlar fjölskyldur, þá rísi hver skrifstofubyggingin á fætur annarri og leigufélögin raka saman seðlum. Ekki vantar heldur stórar íbúðir og stærra húsnæði almennt. Einnig virðist ekkert mega byggja í miðbæ Reykjavíkur nema hótel. 

Þegar eitthvað lítur út eins og rotnandi epli, lyktar af rotnandi epli og bragðast eins og rotnandi epli er mjög líklegt að um rotnandi epli sé að ræða - þ.e. ríkisafskipti. 

Geir Ágústsson, 19.5.2016 kl. 03:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband