Er vandamálið virkilega fjárskortur?

Íslendingar eru ung þjóð á evrópskan mælikvarða og eyða svipuðu hlutfalli af verðmætum sínum í heilbrigðisþjónustu og aðrar evrópskar þjóðir (en ættu raunar að eyða minna). 

Dreifbýlið kostar vissulega sitt en kostnaður vegna sjúkraflutninga og reksturs smærri heilbrigðisstofnana ætti varla að hlaupa upp í neinu nálægt heilu prósentustigi af landsframleiðslu Íslendinga.

Ég held að Íslendingar séu að mörgu leyti bara eilífðarsjúklingar og að það kosti sitt. Það er mín tilfinning að vandamál séu oft löguð með pillum í stað meðferða (t.d. sálfræðimeðferða), að endurhæfing sé í lágmarki og valdi miklum endurkomum, að þjónustu sé sinnt á dýran hátt frekar en ódýran (t.d. því að aðhlynningu aldraðra sé sinnt á dýrum sjúkrahúsrúmum frekar en ódýrari hjúkrunarheimilisrúmum).

Einnig er það mín tilfinning að dýrir læknar séu að sinna mörgu sem ódýrari hjúkrunarfræðingar gætu hæglega sinnt. Hjúkrunarfræðingar eru í 90% tilvika þeir sem ég mæti í mínar heimsóknir á dönskum heilsugæslum og geta leyst úr flestum vandamálum. 

Ég held því líka fram að þetta sé ekki hægt að laga í umhverfi ríkiseinokunar. Hvatinn til að prófa sig áfram, leita hagstæðustu lausna, gera tilraunir og þreifa sig áfram er einfaldlega varla til staðar. Að því leyti sem hann er til staðar er hann kæfður af regluverki, forskriftum frá ráðuneytinu og hreinlega af kerfinu sjálfu.

Þar með er ekki sagt að Íslendingar verði að gefa alveg ást sína á ríkiseinokun heilbrigðisþjónustu upp á bátinn (um leið og þeir bölva yfir því að mjólkin í næturopinni verslun 10-11 sé dýrari en mjólkin í Bónus og kalla það okur).

Íslendingar gætu byrjað á að forgangsraða í heilbrigðiskerfinu. Til dæmis mætti athuga hvað gerir það að verkum að augnlæknar og sjóntækjaverslanir geta starfað í blússandi samkeppnisumhverfi þar sem allt er rækilega skattlagt en um leið veitt afbragðsþjónustu og hvort ekki megi koma fleiri afkimum heilbrigðisþjónustunnar í sama umhverfi.

Eins mætti athuga sænska líkanið víðar, þ.e. að hið opinbera verðleggi einfaldlega sjúkdóma og heilsukvilla og bjóði einkaaðilum að keppa um að taka heilbrigðisþjónustuna að sér.

Norræna líkanið í heild sinni ætti almennt að skoðast sem valkostur við hið sovéska á Íslandi, þ.e. að stuðla að því að markaður heilbrigðisþjónustu verði í auknum mæli blanda af opinberum aðilum og einkafyrirtækjum. 

Ég held að vandamálið sé ekki fjárskortur í sjálfu sér heldur alveg gegndarlaus sóun á fé í ranga hluti.


mbl.is Öryggi sjúklinga ógnað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Við verjum miklu minna í heilbrigðisþjónustu en nágrannaþjóðirnar.

Reyndar eyða Norðmenn svipuðu og við sem hlutfall af landsframleiðslu en landsframleiðslan er þar tvöfalt meiri en hér svo að norðmenn eyða tvöfalt hærri upphæð á íbúa en við gerum.

Krafa Kára miðast við sama hlutfall af landsframleiðslu og Svíar. Landsframleiðslan er þó meiri á mann í Svíþjóð en hér svo að jafnvel þó að komið væri til móts við kröfu Kára þá myndum við ekki eyða jafnmiklu og Svíar.

Erlendar rannsóknir hafa sýnt að opinber heilbrigðisþjónusta er bæði betri og ódýrari en einkarekin og einkavædd. Rúnar Vilhjálmsson prófessor hefur bent á þessa staðreynd.

Ástæðan er væntanlega sú að með einkarekstri er gerð krafa um hærri laun og arðgreiðslur og til að ná þessum markmiðum er beitt sparnaði sem kemur niður á þjónustunni.

Þannig eigum við langt í land í samanburði við þær þjóðir sem við helst berum okkur saman við. Ástandið er þó miklu verra þegar kemur að fjárfestingum í heilbrigðisgeiranum. Þær hafa mjög lengi verið aðeins örlítið brot af því sem nágrannaþjóðirnar hafa varið í þennan málaflokk (sem hlutfall af landsframleiðslu).

Auk þess er hlutdeild sjúklinga í kostnaðinum miklu hærri hér en í nágrannalöndunum.   

Ásmundur (IP-tala skráð) 20.4.2016 kl. 16:45

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Sæll Ásmundur,

Sitt sýnist hverjum um ágæti ríkiseinokunar og hér er auðvelt að fara í "cherry picking".

Hvað sjálfan mig varðar er ég alsæll með mitt stærsta mein, sjóndepurð, á hinum frjálsa markaði. Á honum dansa þjónustuaðilar í kringum mig en ekki ég í kringum þá. 

Geir Ágústsson, 20.4.2016 kl. 18:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband