Ef það virkar fyrir kvikmyndaiðnaðinn ...

Nú þarf varla að deila um það að niðurgreiðslur til einhverrar starfsgreinar valda uppsveiflu fyrir nákvæmlega þá starfsgrein. Menn deila helst um réttmæti þess að sumir fái niðurgreiðslur en ekki aðrir - að kvikmyndagerðarmenn geti þegið fé úr vasa ræstitæknisins eða forritarans til að hækka laun sín og auka umsvif.

Kvikmyndaiðnaðurinn fær beina styrki í formi endurgreiðslu. Snyrtilegra hefði verið að afnema skatta á kvikmyndaiðnaðinn, t.d. gera laun og búnað vegna kvikmyndaframleiðslu undanþegin virðisauka- og tekjusköttum.

Um leið mætti reyna að skapa álíka uppsveiflu í öllum öðrum atvinnugreinum á Íslandi, sem sagt með því að afnema skatta á laun og kaup á vörum og þjónustu með öllu.

Það getur varla verið pólitískt markmið að tryggja eingöngu samkeppnishæfni afþreyingariðnaðarins því nóg er af afþreyingu - nánast offramboð.

Það getur varla verið pólitískt markmið að sjúga fé, getu, svigrúm og umsvif úr starfssemi sem stendur á eigin fótum í alþjóðlegu samkeppnisumhverfi - að fullu skattlögð og án undanþága frá opinberri innheimtu - til að niðurgreiða afþreyingu. Afþreyingu!

Því af hverju ætti ríkisvaldið að leggja meiri áherslu á framleiðslu afþreyingar en t.d. hönnun og framleiðslu stoðtækja, fiskvinnslutækja og hugbúnaðar, svo dæmi séu tekin?

Leiðist stjórnmálamönnum svona mikið?


mbl.is Hækkun tryggir samkeppnishæfni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það vantar ekki framleiðendur stoðtækja, hugbúnaðar og fiskvinnslutæki. Þegar okkur vantar stóriðju bjóðum við lægri raforku. Þegar okkur vantar ferðamenn í lundabúðirnar bjóðum við þeim að versla tax free. Þegar okkur vantar erlent fjármagn í kvikmyndagerð þá bjóðum við endurgreiðslur. Við borgum þegar þess er þörf en ekki ef við komumst hjá því.

Davíð12 (IP-tala skráð) 15.3.2016 kl. 11:26

2 Smámynd: Geir Ágústsson

"Það vantar ekki framleiðendur stoðtækja, hugbúnaðar og fiskvinnslutæki."

Rétt athugað, en allt fékkst þó án niðurgreiðslna, og raunar undir fullum þunga skattheimtunnar. Enda eru Íslendingar hér samkeppnishæfir á alþjóðlegan mælikvarða og skapa störf sem laða til sín bæði Íslendinga með menntun erlendis frá og útlendinga þegar upp á vantar.

Það er svo vægast sagt umdeilt hvort stóriðja eigi að njóta ívilnana. Af hverju má hún ekki borga fullt verð fyrir land sem fer undir vatn og rafmagn sem er framleitt í uppistöðulónum? Persónulega tel ég hana alveg geta staðið undir því en geti hún það ekki má eflaust selja rafmagnið til annarra sem borga markaðsverð fyrir (gefið að raforkuframleiðsla hætti að vera á könnu opinberra fyrirtækja með önnur markmið en rekstrarfræðileg).

"Tax free" er nú ekki svo stór biti af verðlaginu. Fer ekki megnið af fé ferðamanna í uppihald, gistingu og leigu bíla? Af hverju eiga íslenskir skattgreiðendur að borga meira en ferðamenn í skatta af sömu þjónustu?

Ég sé samt punktinn hérna: Úr því sumir njóta ívilnunar þá eiga sumir aðrir, en ekki allir, líka að njóta hennar. Minn punktur er samt: Látum engan njóta ívilnunar, eða alla. 

Geir Ágústsson, 15.3.2016 kl. 11:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband