Sovét-Ísland

Íslenska ríkið stendur í margs konar framleiðslu, þar á meðal á peningum (með aðstoð viðskiptabankanna), reglum og landbúnaðarvörum (með aðstoð bænda).

Aðkoma ríkisvaldsins að einhverju þýðir um leið aðgangur að fé skattgreiðenda (beint í gegnum skattheimtuna eða óbeint í gegnum ábyrgðir), reglugerðarfrumskógur, hömlur á frjáls viðskipti og valfrelsi og pólitískri afskiptasemi.

Ríkisvaldið þykist vita hvaða vexti peningar eiga að bera og hvað bændur þurfa að framleiða mikla mjólk.

Fyrir utan að byggingar MS og Seðlabankans eru svipaðar á að líta í fljótu bragði má draga upp fjöldan allan af samlíkingum milli peninga- og mjólkurframleiðslunnar. Afleiðingar peningaframleiðslu er samt erfitt að útskýra fyrir þeim sem hafa ekki kynnt sér grunnatriði hagfræðinnar. Í tilfelli mjólkur einfaldast málið aðeins. Það má því nota lýsingar á neikvæðum afleiðingum ríkisafskiptanna á mjólkurframleiðslu sem myndlíkingu fyrir neikvæðar afleiðingar peningaframleiðslunnar. 

Ríkisafskiptin múlbinda markaðsaðila við blöndu af reglugerðum og niðurgreiðslum. Án niðurgreiðslanna væri ekki hægt að lifa af innan reglugerðanna. Án reglugerðanna missir ríkisvaldið skjólstæðinga af ríkisspenanum og þar með trygga kjósendur fyrir ákveðna flokka.

Ríkisafskiptin skekkja samband kaupenda og framleiðenda. Verðlag eru þau skilaboð sem ganga fram og til baka í takt við breytingar á framboði og eftirspurn. Með því að búa til eitthvað annað verðlag en markaðsverð er verið að rugla alla framleiðslu, ýmist með því að senda skilaboð til framleiðenda um að framleiða meira eða minna en þörf er á, eða kaupenda um að kaupa meira en er í boði eða of lítið til að borga fyrir alla framleiðsluna. 

Ríkisafskiptin draga úr völdum þeirra sem eiga framleiðslutækin og þeirra sem eiga peninga til að kaupa varninginn og flytja yfir í hendur stjórnmálamanna sem hafa engra persónulegra hagsmuna að gæta annarra en þeirra að tryggja sér endurkjör.

Ríkisafskiptin auka völd hins opinbera - gera því kleift að halda úti stærri her embættismanna en annars væri þörf á, og sjúga meira af fé úr vösum skattgreiðenda en annars væri þörf á.

Ríkisafskiptin verja innlenda starfsemi fyrir erlendri samkeppni og tryggja þannig að hún sé rekin með óhagkvæmum hætti og geti þar með ekki staðist samkeppni. Hún er því bundin við innanlandsmarkað á bak við tollamúra og verndandi löggjöf og á enga möguleika á útrás erlendis eða hagræðingu innanlands.

Ríkisafskiptin eru réttlætt með því að tala niður hina innlendu ríkisframleiðslu, t.d. með því að segja að hún gæti aldrei spjarað sig án aðstoðar. Hið hreina íslenska lambakjöt og náttúrulegu afurðir eru víst ekki nógu góðar til að keppa á hillum lúxusverslana erlendis við síðri varning, eða hvað?

Megi stjórnmálamenn sem fyrst missa áhugann á að framleiða mjólk og rækta rollur og færa verkefnið yfir á hæfari hendur.


mbl.is Framleiðsluskylda minnkuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband