Rétt ....og rangt

Afmarkaður en hávær hópur fólks á erfitt með að sætta sig við góðar fréttir og jákvæð þróun vekur hjá honum gremju, að sögn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, forsætisráðherra. Nefnir ráðherrann deilur um tölur Hagstofunnar um brottflutta Íslendinga máli sínu til stuðnings.

Það er rétt hjá forsætisráðherra að sumir - sérstaklega stuðningsmenn stjórnarandstöðuflokkanna - eigi erfitt með að sætta sig við jákvæðar hagtölur undanfarinna missera. Sumir í þessum hópi gera jafnvel tilraunir til að rekja allt sem gæti flokkast sem árangur til fráfarandi ríkisstjórnar - einhverra funda innan hennar eða tillagna sem náðu ekki hylli neins. 

En gott og vel, það er hlutverk stjórnarandstöðu að benda á aðrar hliðar málsins en þær sem blasa við (þótt það sé nú yfirleitt óþarfi að vera fjarstæðukenndur, en það er önnur saga).

En er þá ekki blússandi góðæri á Íslandi og allt á uppleið? Forstjórar fyrirtækja virðast vera jákvæðir. Jákvæðni almennings virðist vera á uppleið. Fasteignaverð er á rjúkandi uppleið. Kaupmáttur er sýnilega að batna. Skattar eru í hænuskrefum að lækka sem er mikil framför frá tíð fyrri ríkisstjórnar þar sem allir skattar voru á uppleið og nýir að bætast við.

Það er batnandi tíð á Íslandi en grundvöllur þessara betri tíma stendur á brauðfótum. Peningastefnan er sú sama og seinustu ár. Ríkisvaldið hleður á sig skuldbindingum í gegnum lífeyrisskuldbindingar opinberra starfsmanna. Báknið er enn risastórt og mun ekki þola neina skerðingu á mjólkun á fé úr vösum skattgreiðenda. Menntun og heilbrigðisþjónusta landsmanna er enn í vítahring rýrnandi þjónustu og aukins kostnaðar. Engar grundvallarbreytingar hafa átt sér stað frá því árið 2002 eða 2003 þegar allt var vissulega á uppleið en um leið á hraðferð fram af bjargbrún skuldsetningar og óhóflegrar bjartsýni. 

Ég vil leyfa mér að vera bjartsýnn á horfur Íslands á komandi árum og vona það allrabesta og sé margt sem hefur tekið breytingum á jákvæðan hátt undanfarin misseri. Ég vil um leið vara við því að hugarfar og ástand áranna 2002-2003 sé endurtekið - að ósjálfbært ástand sé lofað og á það trúað sem traustan grundvöll fyrir framtíðanna þegar svo er alls ekki.

Gleðilegt nýtt ár, kæru lesendur. 


mbl.is Sætta sig ekki við góðar fréttir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Rétt og rangt. Það má ekki gleyma því að þessir flokkar sem nú stjórna komu Íslandi í þá stöðu sem við erum á góðri leið með að vinna okkur út úr.

Þorsteinn (IP-tala skráð) 31.12.2015 kl. 16:43

2 identicon

Ég fæ ekki betur séð en hugarfar áranna 2002 og áranna fyrir hrun sé farið að gæta hér. Allavega þeir sem væla yfir því að geta ekki flutt gjaldeyri úr landi til fjárfestinga, notabene þeir sömu og fengu hundruði jafnvel milljarða afskriftir eftir hrun.

Filippus Jóhannsson. (IP-tala skráð) 31.12.2015 kl. 16:46

3 identicon

Sæll.

Ég held að mikið sé til í þessum orðum SDG, maður hefur séð ótrúlega marga hatast út í Framsókn. Ekki get ég sagt að ég viti hvað veldur þessum sterku tilfinningum í garð Framsóknar en ég hef ekki orðið var við svipað hatur í garð annarra flokka. Hvað ætli valdi?

Það sem er að bjarga okkur að miklu leyti er krónan. Ég sá nýlega að áætlað er að um 5000 störf hafi orðið til hérlendis á þessu ári sem er að kveðja. Þeir sem vilja endilega að Ísland gangi í ESB vilja aukið atvinnuleysi og draga þróttinn úr ferðamannageiranum - þó þeir kannski átti sig ekki á því að þeir vilji slíkt. Krónan hefur mikið með það að segja hve vel gengur í ferðamannageiranum. 

Meðalatvinnuleysi á evrusvæðinu hefur verið um 11% eða svo árum saman. Enn áhugaverðara er þó að ef þýsku atvinnuleysistölunum er kippt út úr þessu meðaltali (þar er atvinnuleysi lítið) fáum við út um 13% meðalatvinnuleysi á evrusvæðinu. Það er sláandi!!

Vonandi ber þjóðinni gæfa til að halda í krónuna þrátt fyrir háværan kór óvita.

Þó staðan sé góð í bili eru eigi að síður óveðursský sjáanleg. Geir nefnir réttilega lífeyrisskuldbindingarnar sem nú slaga í 800 ófjármagnaða milljarða.

Það sem líka skiptir máli er að vextir eru á uppleið, kannski ekki beinni uppleið, en ljóst er að það fer að verða dýrara að skulda. Það kemur íslenska ríkinu við - sem og skuldum hlöðnum sveitarfélögum landsins. 

Hvað gerist eftir næsta Grikklandsdrama? Hvenær verður staðan í Frakklandi og fleiri löndum Evrópu öllum ljós?

Mikið veltur á næstu forsetakosningum í USA, þar er enn naumur tími til að afstýra meiriháttar slysi sem hefði afleiðingar um allan heim.

Einhvern tímann kemur að sársaukafullri leiðréttingu í Kína. Hvaða afleiðingar mun hún hafa um heiminn?

Hvers vegna nefni ég þetta? Jú, vegna þess að staðan hérlendis ræðst af verulegu leyti af því sem gerist erlendis. Einhvers staðar sá ég að Steingrímur J. hefði aukið skuldir þjóðarinnar um litla 400 milljarða í sinni ráðherratíð (hef þó fyrirvara á því). Það er ekki lítið. 

Hérlendis er ríkisstjórnin þó á réttri braut með því að leggja áherslu á að greiða niður skuldir. 

Ég óska öllum gleðilegs árs :-) og þakka Geir sín ágætu pistlaskrif :-)

Helgi (IP-tala skráð) 31.12.2015 kl. 17:07

4 identicon

Er venjulegt fólk á Íslandi að tapa einhverju á þessum gjaldeyrishöftum?

Grímur (IP-tala skráð) 31.12.2015 kl. 17:54

5 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Var hann ekki að lýsa framsóknarmönnum á síðasta kjörtímabili?

Það held ég hljóti að vera.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 31.12.2015 kl. 17:55

6 Smámynd: Geir Ágústsson

Það sem vinstrimenn gagnrýna stjórnina fyrir er að vera ekki nægilega vinstrisinnuð. Sé hlustað á þá gagnrýni er víst að ríkisvaldið heldur áfram að þenjast út og að hagkerfið verður viðkvæmt fyrir niðursveiflu, hvort sem hún verður í álverði, fiskverði, ferðamannastraumi eða einhverju öðru. Það er viðbúið að sveiflur eigi sér stað og til að undirbúa þær er gott að vera skuldlaus, með lága yfirbyggingu og skilvirkan rekstur. Ekkert af þessu getur átt við um ríkisvaldið. Ríkisvaldið þarf að minnka. Gagnrýni vinstrimanna á stjórnina er of áberandi og of mikið mark er tekið á henni, nú eins og árin fyrir hrun.

Ríkisvaldið þarf að koma sér úr peningaútgáfu (leggja niður Seðlabanka Íslands og afnema lagalega tálma á notkun annarra gjaldmiðla eða sköpun nýrra gjaldmiðla), einkavæða heilbrigðis- og menntakerfið, skera reglugerðarfrumskóginn niður, greiða upp opinberar skuldir, afnema lög um lágmarksútsvar og sem flestar af lagaskyldum sveitarfélaga sem og tálmum á uppskiptingu stórra sveitarfélaga í smærri, afnema sem flesta skatta og lækka aðra sem allramest, afnema sértæka skatta, t.d. á útgerðina og innflutt matvæli (tollar), fækka opinberum embættismönnum, selja vegakerfið og flugvellina, selja öll ríkisfyrirtæki, þar á meðal Landsvirkjun, flytja stuðning við fátæka og aðra úr ríkiskerfinu og yfir í hendur góðgerðarsamtaka, hætta að refsa fyrir framleiðslun, notkun og sölu fíkniefna, og fylgja almennt þeirri reglu að ríkisvaldið eigi ekki að sjá um neitt nema mjög sterk rök séu fyrir því (sem fyrir mér finnast ekki en eitthvað mætti standa eftir til að byrja með, til málamynda).

Í stað þess að allt sé bannað sem er ekki sérstaklega leyft þarf að umbera allt sem er ekki sérstaklega bannað. 

Geir Ágústsson, 1.1.2016 kl. 11:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband