Sama innihald í mismunandi umbúðum

Skuldavandi er sami vandinn, sama hver glímir við hann. Hann verður til þegar einhver eyðir um efni fram - tekur lán í stað þess að framleiða verðmæti.

Í Danmörku eru framleiddir þættir sem heita Luksusfælden - eða lúxusgildran (og væri e.t.v. stórsniðug hugmynd að sjónvarpsefni á Íslandi). Þar kunna menn að taka á hinum svokallaða skuldavanda, sem í þeirra tilviki snýr að skuldavanda heimila en gæti alveg eins átt við um heilu ríkin. Fyrsta skrefið er alltaf að gera sér grein fyrir tekjunum, föstu útgjöldunum og skuldunum. Oftar en ekki er fólki sagt að selja bílinn og aðrar eignir sem mega missa sín, hætta framkvæmdum, losa sig við kettina og segja upp sjónvarpsáskriftum. Síðan er rætt við lánadrottna um lengingu lána og jafnvel lægri vexti gegn því að afborganir fari að berast hratt og örugglega. Neyslan er skorin niður og neyslufé skammtað. Áætlun er gerð um greiðslu afborgana nokkur ár fram í tímann. Á meðan þarf að herða ólina. Það er einfaldlega ekkert annað í stöðunni.

Á þetta horfir fólk og kinkar kolli og vonast til að fólk finni leið úr vandanum um leið og það lítur í eigin barm.

Hvað gerist svo þegar þátturinn er búinn og fréttirnar taka við? Þá breytist allt hugarástand okkar. Þá teljum við að nýtt lán muni leysa vandamál sem sköpuðust vegna fyrri lántöku. Þá skal sótt um nýtt kreditkort til að borga af því gamla. Þá er allt í einu gerð krafa um að skuldir séu felldar niður án þess að einhver raunveruleg geta til að greiða afganginn upp sé til staðar eða sé í bígerð.

Skuldavandi er vandi vegna of mikilla skulda. Okkur væri hollt að hafa það í huga. 


mbl.is Grískt ástand í Púertó Ríkó
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband