Þegar ríkisvaldið leyfir sér meira en það leyfir þegnum sínum

Hin mikla umræða um yfirheyrsluaðferðir CIA (ef svo má kalla) fær vonandi einhverja til að hugleiða hvað það nú er sem þetta ríkisvald er og hvers vegna við umberum það. 

Er ríkisvaldið búið til af einstaklingum til að standa vörð um hagsmuni þeirra, og hefur ekki meiri réttindi en hver og einn einstaklingur sem stendur að baki ríkisvaldinu? Eða er ríkisvaldið sjálfstætt fyrirbæri sem um gilda önnur lög en hvern og einn einstakling innan umráðasvæðis þess?

Ef ég seilist í vasa nágranna míns og hirði úr honum peninga er ég að stela. Þegar ríkisvaldið gerir það sama er það að skattleggja.

Ef ég tek nágranna minn með valdi og læt hann klæðast búning og skjóta á annað fólk kallast það mannrán og jafnvel þrælahald. Ef ríkisvaldið gerir það heitir það þegnskylda eða herkvaðning.

Ef ég tek nágranna minn og bind niður í stól og ber hann til óbóta svo hann segi eitthvað sem ég vil heyra heitir það mannrán og pynting. Ef ríkisvaldið gerir það heitir það yfirheyrsla.

Ef ég æði inn á land nágranna míns og gref þar fyrir gufuorkuveri heitir það þjófnaður og ágangur. Ef ríkisvaldið gerir það heitir það þjóðnýting og opinber framkvæmd.

Ef ég banna nágranna mínum að kveikja sér í sígarettu, blóta, horfa á klámmynd eða sprauta sig með heróíni er ég að beita hann ofbeldi og valdi. Ef ríkisvaldið gerir það er það einfaldlega að framfylgja handahófskenndum lögum sem það hefur ákveðið að gildi fyrir alla. 

Ég hvet alla sem hafa einhvern áhuga á svona hugleiðingum til að kaupa eða sækja og prenta út eða lána eintak af Lögunum eftir Frederik Bastiat. 


mbl.is Sumir fulltrúar fóru yfir strikið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Stundum komast einkaaðilar upp með ofbeldi.

Refsarinn (IP-tala skráð) 12.12.2014 kl. 18:18

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Rétt. Þeir hafa samt í fæstum tilvikum ósvífni í sér til að kalla ofbeldið einhverjum öðrum nöfnum en það.

Geir Ágústsson, 13.12.2014 kl. 18:56

3 identicon

Það er auðvitað ekki ekki hægt að bera saman ríkisvaldið og einstaklinga í þessu samhengi.

Ákvarðanir ríkisvaldsins eru, ef rétt er staðið að málum, sameiginlegar meirihlutaákvarðanir til að halda uppi lögum og reglu.

Núverandi stjórnvöld virða hins vegar ekki vilja þjóðarinnar og virðast tilbúin til að misnota aðstöðu sína í eiginhagsmunaskyni á kostnað almennings . Það er galli á stjórnarskrá ef ekki er hægt að flæma slík stjórnvöld frá völdum

Einstaklingar geta eðlilega aðeins tekið ákvarðanir varðandi þá sjálfa og þá aðeins innan þeirra marka sem ríkisvaldið setur þeim.

Þetta eru grundvallaratriði í lýðræðisríki sem varla þarf að ræða frekar.

Ásmundur (IP-tala skráð) 14.12.2014 kl. 11:05

4 Smámynd: Geir Ágústsson

Nú búa Íslendingar við svokallað fulltrúalýðræði. Það hefur bæði kosti og galla. Í því felst hins vegar framsal á valdi til kjörinna fulltrúa. Þeir ráða á meðan þeir eru við völd. Um þá er kosið á 4ra ára fresti. Skoðanakannanir binda í engu hendur þeirra. Stjórnarskráin segir að þingmenn séu bundnir af eigin sannfæringu og engu öðru. Sumir þingmenn virða samt ákvarðanir landsfunda flokka sinna og þess sáttmála sem ríkisstjórnarflokkar gera sín á milli.

Og lengra nær það ekki.

En það er eitt að framselja vald til kjörinna fulltrúa. Það er eitthvað annað að ætla að ríkisvaldið hafi einhver önnur völd eða meiri en hvers og eins borgara eða einstaklings. 

Geir Ágústsson, 15.12.2014 kl. 08:26

5 identicon

Það er ekki tilgangurinn með fulltrúalýðræði að veita fulltrúunum leyfi til að hunsa vilja þjóðarinnar og jafnvel svíkja þau loforð sem komu þeim til valda.

Tilgangurinn er að treysta völdum fulltrúum til að taka ákvarðanir í samræmi við vilja og hagsmuni þjóðarinnar. Misbeiting valds til að skara eld að köku einstakra hagsmunahópa á kostnað almennings liggur þar langt fyrir utan.

Í fulltrúalýðræði er að sjálfsögðu ætlast til að meirihlutavilji þjóðarinnar komi fram. Annars er ekki um neitt lýðræði að ræða.

Ásmundur (IP-tala skráð) 16.12.2014 kl. 10:30

6 Smámynd: Geir Ágústsson

"Vilji þjóðarinnar" felst í því að kosningabærir einstaklingar kjósi á milli hinna ýmsu frambjóðenda á 4ra ára fresti - þá frambjóðendur sem þeir telja að muni berjast fyrir málum sem er viðkomandi kjósendum að skapi (eða lofi því að gera ekkert, ef því er að skipta).

Thats it.

Geir Ágústsson, 16.12.2014 kl. 18:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband