Um réttindi okkar, ef einhver eru

Í þessum pistli eftir einn besta pistlahöfund Íslands, Pawel Bartoszek, eru margar áhugaverðar vangaveltur.

Dæmi:

Við getum ímyndað atburðarrás þar sem harðstjórn sviptir stóran hluta þegna sinni rétti til lífs með lögfræðilega óaðfinnanlegum hætti. Er þjóðarmorð við slíkar aðstæður þá löglegt?

Annað dæmi:

En segjum að einhver ríki segi bara upp öllum mannréttindasáttmálum sem þau eru aðili að. Segjum að ríki hendi mannréttindum úr sínum stjórnarskrám. Má þá allt?

Enn eitt dæmið:

Sumir líta svo á að til séu einhver “náttúrulög” sem ná yfir önnur lög. Við getum þá kannski litið svo á að hægt sé að nota guð í lögfræðilegum skilningi eins og Einstein gerði í eðlisfræði. Sem feluorði fyrir einhverskonar “alheimsreglu”. En ef ég greini það í sundur þá kemst ég óhjákvæmilega að því að sum réttindi eru “óhagganleg” vegna þess að nógu mörgu fólki sem skiptir máli finnst að svo eigi að vera.

Að lokum:

Mannréttindi koma frá fólki. En það er ekki gott að hugsa það þannig. Kommúnistar hugsuðu þetta þannig. Sjáið hvernig það gekk.

Allir telja sig hafa einhver réttindi, til dæmis réttinn til bóta eða réttinn til að vera látinn í friði. En hvaðan koma þessi réttindi og hvernig eru þau rökstudd? Þetta er spurning sem heimspekingar af öllu tagi hafa velt fyrir sér lengi. Kristnir menn benda á Guð. Aðrir benda á ríkisvaldið. Enn aðrir tala um náttúrulegan rétt, óháðan bæði guði og mönnum. Heilu bækurnar finnast um efnið, sumar þeirra mörg hundruð ára gamlar. 

En kannski er þetta ekki svona flókið.

Fyrst þurfum við að verða sammála um að allir menn séu af sömu gerð. Enginn einn er æðri öðrum. Er hægt að sammælast um það? Ef ekki, hvernig á að rökstyðja flokkun á mönnum? Reyndu! Er það ætterni eða innistæða á bankabók eða húðlitur? Ég flyt sönnunarbyrðina á þann sem vill meina að menn séu ekki allir sömu tegundar.

Sem aukaforsenda skulum við gera ráð fyrir að einstaklingar einir hafi réttindi. Ríkisvaldið, Hagkaup og Frímúrarafélagið hafa ekki réttindi. Ef ég stel frá Hagkaup er ég að stela frá eigendum Hagkaupa, en ekki fyrirbærinu Hagkaup. Þegar ég greiði skatt til ríkisvaldsins er ég að láta fé fara úr mínum vasa og í vasa annarra. Embættis- og stjórnmálamenn ráðstafa fénu, ekki ríkisvaldið. 

Næst þurfum við að verða sammála um að ef allir menn eru sömu tegundar, með sömu réttindi, þá megi enginn einn gera eitthvað við aðra sem hann bannar að sé gert við hann sjálfan. (Sadó-masókistinn fær ekki frjálsar hendur hér, því hann gefur leyfi til að meiðast, og þarf því leyfi til að meiða aðra.)

Af ofangreindu leiðir að ríkisvaldið er glæpastofnun, frjáls markaður samskipta og viðskipta hið eina réttláta fyrirkomulag samfélagsins, skattar eru þjófnaður, þrælahald brýtur á réttindum rétt eins og skattlagning, eignarrétturinn er framlenging sjálfseignarréttar einstaklinga á eigin líkama, og að frjálshyggja sé hin eina réttláta stefna sem ber að stefna að. Q.e.d.

(Lesandann bið ég afsökunar á mjög stuttri röksemdarfærslu, en ég get vísað í margar og þykkar bækur eða styttri greinar og ritgerðir ef áhugi er á slíku.) 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband