Heppilegt að lækka skatta

Ferðamenn sem koma til Íslands borga lægri skatta af sömu þjónustu og Íslendingar. Þetta er m.a. rakið hérna (Vefþjóðviljinn): 

  • Íslendingurinn greiðir 25,5% virðisaukaskatt af rúminu sínu og sænginni en ferðamaðurinn 7% af hótelgistingu.
  • Landinn greiðir 20% vörugjöld af smábíl til ríkisins en ferðamaðurinn leigir sama bíl án vörugjalda.
  • Landsmenn greiða 25,5% virðisaukaskatt af kaupum á flíspeysu en ferðamenn geta keypt hana „tax free“ og fengið skattinn endurgreiddan að verulegu leyti.
  • Hingað til hafa ferðamenn svo getað valsað um helstu náttúruperlur landsins og sent skattgreiðendum árlega mörg hundruð milljóna króna reikning fyrir rekstri og viðhaldi sem af rápinu hlýst. 

Hvað er til ráða? Íslenska ríkið vill vitaskuld sjúga meira ofan í vasa sína. Skatta á ferðamenn væri því hægt að hækka upp í þá sem Íslendingar greiða fyrir sambærilega þjónustu og varning og ferðamenn nýta mest.

Önnur leið væri sú að minnka ríkisvaldið. Ríkið gæti selt lönd sín og notað ágóðann til að lækka skuldir sínar. Einkaaðilar tækju við þeim og myndu rukka fyrir aðgang að viðkvæmum svæðum, bæði til að fjármagna viðhald þeirra og vernd en einnig til að stilla af framboð og eftirspurn. Fái einkaaðilar að græða vel á ferðamönnum, innlendum sem erlendum, er viðbúið að fjöldi ferðamannastaði aukist verulega. Samkeppni milli þeirra yrði til þess að stilla af verð en um leið halda uppi gæðum (aðgengi, aðstöðu og þjónustu). 

Hver veit nema einhverjum einkaaðilum takist að sameina það tvennt sem kemur svo mörgum til góða: Tekjur af ferðamönnum og tekjum af nýtingu náttúruauðlinda! Hérna er lítil dæmisaga um sameiningu gasvinnslu og fuglavarps. Sniðugt, ekki satt?

Ríkið gæti í leiðinni lækkað virðisaukaskattinn (gjarnan niður í 0%) og afnumið ýmis gjöld og tolla á innfluttan varning. Þar með endar mismunun á Íslendingum og útlendingum og allir geta byrjað að lifa í sátt og samlyndi. 

Ríkisvald sem hefur minna að gera klúðrar minna.

Í leiðinni væri svo hægt að lengja jólafrí þingmanna fram að sumarfríi þeirra. Nóg er af trjám sem þarf að gróðursetja og verslunarkjörnum til að vígja. Þeir gætu staðið í þess konar iðju í 9 mánaða fríi sínu. 


mbl.is Heppilegt að auka skattlagningu núna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband