Menntun og verðmætaskapandi þjálfun: Ekki eitt og hið sama

Sitt er hvað, menntun og verðmætaskapandi þjálfun. Menntun getur auðvitað verið í formi verðmætaskapandi þjálfunar, og verðmætaskapandi þjálfun utan skóla mætti oft kalla menntun, en þetta er ekki sjálfkrafa eitt og hið sama. 

Menntaverðbólgan hrjáir íslenskt samfélag eins og flest í hinum vestræna heimi. Fólk útskrifast með margar háskólagráður og lendir á atvinnuleysisskrá eða heldur einfaldlega áfram að mennta sig. Ekki er víst að allar þessar gráður séu nýtilegar til nokkurs skapaðar hlutar.

Danir eru nógu kræfir til að segja það hreint út hvaða menntun leiðir til ráðningar og hvaða menntun er hreinlega gagnslaus. Hérna er til dæmis frétt í dönskum miðli með fyrirsögninni: Hérna er sú menntun sem þú skalt EKKI taka ef þú vilt finna vinnu.

Yrði ekki allt brjálað á Íslandi ef svona frétt yrði sögð?

Tölurnar tala sínu máli í Danmörku. Offramboð er á arkitektum og allskyns félagsvísindafólki. Skortur er á læknum, verkfræðingum (með 5 ára háskólagráðu), tannlæknum og meira að segja hagfræðingum og lögfræðingum.

Svona tölfræði fyrir Ísland liti eflaust svipað út. Ég er viss um að kynjafræðingar, bókmenntafræðingar og allskyns félagsfræðingar eru stórt hlutfall atvinnulausra á Íslandi, eða að stórt hlutfall fólks með þess konar gráður er að vinna við eitthvað allt annað en gráðan (eða gráðurnar) gefur til kynna - jafnvel við eitthvað sem krefst alls ekki langtímaskólagöngu.

Margt af því sem er kennt í háskólum er jafnvel eitthvað sem mætti kalla áhugamál. Tökum stjórnmálaheimspeki sem dæmi. Hana má læra með því að lána eða kaupa nokkrar bækur og byrja að lesa. Lestur getur farið fram utan vinnutíma, á kvöldin og um helgar, eða í leyfum. Að "mennta" sig sem stjórnmálaheimspeking er áhugamál og ætti ekki að vera á kostnað annarra en þeirra sem það stunda. 

Sitt er hvað, menntun og verðmætaskapandi þjálfun. Ef fleiri vissu þetta yrði minni tíma og minna fé sóað í skólastofnanir á Íslandi.


mbl.is Fá störf fyrir menntafólk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband