Þess vegna eru stjórnarskrár ónýtur pappír

Upp úr miðöldum fæddist sú hugmynd að ríkisvaldið mætti skorða af með því að setja því stjórnarskrá. Stjórnarskrá mælti nákvæmlega fyrir um það hvað hið opinbera mætti gera og hvað ekki. Sumar stjórnarskrár banna ríkisvaldinu alveg að gera nokkurn skapaðan hlut sem ekki er talið sérstaklega upp. Aðrar segja hvaða fyrirvarar eigi að gilda ef ríkisvaldið vill þenja sig út, ræna eða ráðskast meira með fólk og fyrirtæki þess.

Hugmyndin var samt alltaf sú sama: Að setja ríkisvaldinu mörk svo það fari ekki að haga sér eins og einræðisherrar miðalda sem gerðu hvað sem þeir vildu á meðan þeir komust upp með það.

Þessi tilraun til að setja ríkisvaldinu mörk hefur samt mistekist eins og ítrekað hefur komið fram. Dómstólar ríkisvaldsins standa nánast aldrei í vegi fyrir neinu sem framkvæmdavaldi ríkisvaldsins dettur í hug að gera. Að dómstóll úrskurði einhverja löggjöf ólögmæta því hún er í trássi við stjórnarskrá er nánast fáheyrt. Ef sú staða kemur upp nægir yfirleitt að breyta örlitlu í orðalagi löggjafarinnar og þá sleppur hún í gegn.

En ef einhver áhugi er á því að setja ríkisvaldinu skorður og stjórnarskrár virka ekki, hvað er þá til ráða?

Tvennt kemur mér tilhugar:

Annað er að almenningur krefjist þess hreinlega að ríkisvaldið sé lagt niður. Kannski er það pólitískt óraunhæft.

Hitt er að almenningur byrji á ný að þróa með sér heilbrigða tortryggni gagnvart hinu opinbera og hætti að gleypa allt sem það lætur frá sér. Það ætti að vera mjög raunhæf og sanngjörn ósk.

Ég ber hana hér með fram. 


mbl.is Fer ekki gegn þýsku stjórnarskránni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll.

Sennilega er eitt þekkasta dæmi þess að ríkið tuktaði til dómstóla frá tímum kreppunnar miklu í USA. Eftir að hæstiréttur USA hafði dæmt einhver lög Roosevelt ólögleg hótaði hann að fjölga hæstaréttardómurum. Eftir það sigldu öll hans lög í gegnum hæstarétt :-)

Við þurfum ríkisvald. Ætlar þú t.d. að láta einkaaðila reka fangelsi eða lögreglu? Kannski er lausnin að reyna að orða stjórnarskrána skýrar og ekki láta lögfræðinga koma þar nærri - margir þeirra virðast líta á það sem dyggð að orða lög með óljósum hætti - líkt og lögin séu bara fyrir þá en ekki almenning. Kannski er það markmiðið?

Stjórnarskrá verndar auðvitað bara fólk ef fólk verndar stjórnarskrána. Hvernig er hægt að fá fólk til að vernda stjórnarskrána?

Til þess þarf fólk auðvitað að skilja hvað gerist ef við göngum gegn ýmsum mikilvægum atriðum eins og frelsi, eignarrétti og mikilvægi þess að samningar haldi. Í dag skilur fólk þetta ekki. Hvers vegna?

Vegna þess að menntakerfið undirbýr fólk ekki fyrir líf og starf í lýðræðissamfélagi. Getum við bara sett lög og þá hverfur ákveðinn vandi? Hafa lög ófyrirséðar afleiðingar (t.d. Dodd-Frank)? Hvað gerist ef við látum eins og efnahagsleg lögmál séu ekki til? Hvers vegna er frjáls verðmyndun mikilvæg? Hvers vegna eru niðurgreiðslur og tollar slæmir? Hvers vegna er pilsfaldakapítalismi slæmur?

Ég var auðvitað engin undantekning og var algerlega úti á túni að tjalda þar til rétt eftir hrun, þá vaknaði ég upp við vondan draum. Ég fór hins vegar að lesa mér til og það er til fullt af mjög aðgengilegu efni sem hægt er að halda að nemendum í bæði grunn- og framhaldsskóla. Það er hins vegar ekki gert :-( Ergo, allt er í steik og engin von að forðast þann mikla hvell sem bíður okkar :-(

Af hverju heyrir maður aldrei neina umræðu um það hvort skattheimta samræmist yfirhöfuð eignarréttarákvæðum stjórnarskrárinnar? Af hverju má þriðji aðili taka eigur fólks af því? Ef þessi þriðji aðili má taka hluta eigna fólks af hverju má hann þá ekki taka allt?

Hvar eru nú allir lögspekingarnir? Kannski eru þeir of uppteknir við að telja peningana sína? Kannski hefur þeim verið kennd tóm della í háskóla - líkt og hagfræðingunum?

Helgi (IP-tala skráð) 21.3.2014 kl. 07:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband