Hvað með mjólk og lambakjöt?

IFS greining spáir því að peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands (SÍ) haldi stýrivöxtum bankans óbreyttum á næsta vaxtaákvörðunardegi, þann 12. febrúar næstkomandi.

..segir í frétt. Mjög gott. Rök eru færð fram. Ástæður eru gefnar upp. Niðurstaðan verður kannski á þann veg sem spáð var fyrir, en kannski aðeins öðruvísi.

IFS ætti í leiðinni að spá fyrir um verð á mjólk og lambakjöti í næstu viku. Verð á þessu er líka ákvarðað að einhverju eða töluverðu leyti af lítilli nefnd sprenglærðra sérfræðinga sem viða að sér tölfræði og reyna að stilla saman framboð og eftirspurn við eigin væntingar og vonir, án þess að valda algjörri ringulreið með róttækum breytingum.

Í grunninn er öll svona handstýring á verðlagi eins og að reyna halda einu tannhjóli kyrru á meðan öll hin snúast á sama hraða, án þess að vélin brotni niður. Markaðsverð á öllu er háð markaðsverði á öllu, og væntingum og vonum kaupenda og seljenda á öllu. Hver lætur sig dreyma um að geta haldið einu verði föstu eða hækkað eða lækkað það úr takti við öll önnur verð á öllu í öðru og um leið forðast að valda ringulreið?

Brjálæðingar, kannski?

Ég get alveg skilið sósíalista sem kalla hinn frjálsan markað "ringulreið". Þeir skilja ekki þá ringulreið, og það gerir enginn, enda er hún byggð á samstillingu á væntingum og vonum og kröfum og áætlunum allra í hagkerfi alls heimsins. Skrýtnara finnst mér samt árátta þeirra að vilja stjórna þeirri ringulreið - að vilja skipta á væntingum og vonum og áætlunum og kröfum allra í heiminum fyrir eigin smekk á einhverju einu tannhjóli hinnar gríðarstóru maskínu sem kallast mannkyn og hagkerfi heimsins.

Sumir sem muna eftir fyrrum Sovétríkjunum kannast við litla sögu sem átti að hafa gerst á einhverri verðlagsskrifstofunni: Vodki var slæmur og átti að vera dýr, en barnamatur var góður og átti að vera ódýr. Niðurstaðan var sú var að hvergi var hægt að fá barnamat, en vodka var hægt að nálgast hvar sem er.  

Svo hvað ætli verðið á mjólk ætti að vera í næstu viku, að mati verðlagsnefndar? 


mbl.is IFS spáir óbreyttum stýrivöxtum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll.

Fínn pistill.

Vandinn við svona miðstýrðar verðlagsákvarðanir er að þeir sem þær taka hafa ekki þær upplýsingar sem þarf - þó þeir telji sig hafa þær. Örfáir menn með próf í hagfræði eða einhverju öðru vita ekki meira en neytendur viðkomandi vöru hvað hún á að kosta.

Hvernig veit einhver hvað bensín á að kosta? Hvernig veit einhver hvað mjólk á að kosta? Hvernig veit einhver hvað peningar eiga að kosta?

Vandinn er að enginn veit þetta og þeir sem þykjast vita þetta eru að búa til massíf vandamál.

Hér sjáum við aðeins um afleiðingar þessarar visku sumra:

http://www.bloomberg.com/news/2013-09-27/venezuela-is-running-out-of-toilet-paper-.html

Svo er nú önnur saga hvernig skólakerfið, sérstaklega framhaldsskólinn, getur útskrifað fólk sem er fullkomlega ólæst á efnahagsmál og lætur auðveldlega ljúga að sér. Fólk sem er fullkomlega ólæst á efnahagsmál er ekki undir það búið að vera kjósandi. Ég var fullkomlega úti á túni að tjalda þangað til ég fór að lesa mér til. Það gerðist hins vegar ekki fyrr en eftir hrunið.

Í dag t.d. sér maður og heyrir reglulega einhverja spekinga segja að krónan sé ónýt o.s.frv. án þess að tilgreint sé hvað það er sem gerir hana "ónýta". Er það verðbólgan? Eru það vextirnir? Hvort tveggja skrifast á reikning hins opinbera.

Svo er krónan auðvitað ekki eini gjaldmiðillinn sem rýrnað hefur verulega undanfarið. Eftir því sem ég kemst næst hefur dollarinn tapað 96% af verðgildi sínu frá 1913. Er hann þá líka ónýtur?

Ég tek undir spurningu þína: Hvað ætti mjólk að kosta í næstu viku?

Helgi (IP-tala skráð) 7.2.2014 kl. 05:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband