Um fréttamat fréttamanna

Fréttamönnum finnst alltaf mjög fréttnæmt þegar fréttamönnum er sagt upp. Það er kannski eðlilegt og ómeðvitaður hlutur af þeirra eigin hagsmunabaráttu, sem er auðvitað sú að fréttamenn séu sem flestir. Hver vill ekki frekar tilheyra stórum félagsskap sem stendur saman en fámennum félagsskap sem hægt er að hunsa?

Vorið 2009 var niðurskurði hrint af stað hjá mínum atvinnuveitanda eftir að pantanir höfðu ekki látið sjá sig síðan um haustið 2008. 15% allra starfsmanna, þvert á allar deildir, var sagt upp (að mínu mati ekki besta leiðin því sumir höfðu meira að gera en aðrir, en heldur ekki mín ákvörðun að taka). Samt var nóg að gera hjá t.d. minni deild sem var að vinna að pöntunum sem teygðu sig allt að því 2 ár fram í tímann. Að missa 15% samstarfsfélaga minna var erfitt, bæði persónulega og faglega. Fyrirtækið komst samt í gegnum erfiðasta hjallann og er í dag fjölmennara en fyrir haustið 2008. Eigendur þess þurftu ekki að drekkja því í skuldum eða selja verðmæti út úr því á útsöluverði. Niðurskurðurinn styrkti fyrirtækið þegar til lengri tíma var litið.

Ekki var þetta samt talið vera neitt sérstaklega fréttnæmt, enda var það heldur ekki. Einkafyrirtæki sem segir upp starfsfólki til að lifa af erfitt árferði er daglegt brauð. Þau sem kunna að haga seglum eftir vindi og lifa af erfiða tíma geta ráðið fólk þegar betur árar, og boðið betri kjör. Fyrirtæki sem hanga í dauðateygjunum eru engum til gagns og veita í besta falli tímabundið athvarf fyrir starfsfólk sem sífellt þarf að óttast gjaldþrot atvinnuveitanda síns.

Fréttamat fréttamanna er alveg afskaplega sjálfhverft, og kannski er það eðlilegt. Látum samt ekki áhuga fréttamanna á uppsögnum fréttamanna villa okkur sýn: Þetta er nokkuð sem gerist oft á dag á hinum frjálsa markaði, og enginn fréttamaður veitir því sérstaka athygli.  


mbl.is „Ég var rekinn í dag“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Góður pistill hjá þér, Geir.

Ég rita um málið hér: 'Skorið niður hjá ríkinu í ríkinu: Rúv!'

Jón Valur Jensson, 27.11.2013 kl. 14:16

2 Smámynd: Jóhannes Ragnarsson

Hvað segið þið þá um ,,fréttamatið" á Morgunblaðinu, heiðruðu herrar, - ekki síst í ljósi þess að téð Morgunblað hefur átt það til að kalla sig ,,blað allra landsmanna?

Jóhannes Ragnarsson, 27.11.2013 kl. 14:31

3 identicon

Eða ekki reka hásetana

því það er löngu kominn tími á nýjan skipstjóra hjá RUV

Grímur (IP-tala skráð) 27.11.2013 kl. 14:46

4 identicon

Takk fyrir stórgóðan pistil.

Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 27.11.2013 kl. 15:15

5 identicon

Almenningur (IP-tala skráð) 27.11.2013 kl. 15:20

6 identicon

Eins og maðurinn , þá væntanlega þinn maður á þingi, Bjarni Ben var að segja á Alþingi núna rétt áðan; "horfa þarf í alla þætti ríkisfjármála" Þá er ekki verið að horfa i þá fjármuni sem settir eru í landbúnaðarsamfélagið, án samráðs við þjóðina. Ekki að ná í alla þá fjármuni sem hægt er úr sjávarútvegsins. Nei, Vigdís, með frænda sinni Jón Val í eftirdrætti; fer mikinn, auðlindarákvæðið skal vera vegna ESB en ekki vegna þjóðar. Svo skal skera niður þá einu jákvæðu stefnumótun vegna samfélagsins í heild, ekki bara sumra (lesist sem Líú, Bændamafían, sumir fjármagnseigendur) Stöðva ESB sem mest sem menn mega. Í millitíðinni færi Vigdís, frænka þín, sínu fram, RÚV skal höggið vegna þess að þeir vildu ekki ræða nógu oft við hana og þeir sögðu ESB einum og oft. Þetta mál lyktar af pólítík, ekki fjármunum og svei því bæði aftan og framan. Og þó svo að þú ágæti Geir, hafir misst vinnuna eða e-r tengdur þér, þá má bara einstaka fréttamaður tjá sig um sinn afkomu missir án þessi að þú þurfir að safna í blöðru og gera þarfir þínar yfir hans málflutning. Að missa starf sitt er mikil höfnun, já höfnun sem að vinir þínir í FLokknum fá að finna fyrir í næstu ókomnu kosningum.

Sigfús (IP-tala skráð) 27.11.2013 kl. 15:56

7 identicon

Hvers vegna er RÁS 2 ekki seld? Hún er gæluverkefni RÚV í beinni samkeppni við einkareknar stöðvar um tekjur og gegnir engu lögboðnu hlutverki!

NKL (IP-tala skráð) 27.11.2013 kl. 16:11

8 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Rás 2 seld! Sá hluti starfseminnar sem þó ber sig helst!

Sérkennilegt er þegar fjölmiðlar eru skammaðir fyrir að segja frá 500 milljóna króna niðurskurði hjá fyrirtæki, sem er í eigu notenda þess.

Já, talið ámælisvert að greina frá því að þjóðþekkt fólk hverfi af vettvangi sem það hefur unnið á fyrir allra augum og eyrum í áratugi.

Ómar Ragnarsson, 27.11.2013 kl. 16:19

9 identicon

NKL: Þú greinilega hlustar ekki mikið á Rás 2 ef þetta er þín skoðun.

Ljóst má vera, ef Rás 2 yrði seld, þá hyrfu margir þættir þar af dagskrá, sem ekki yrði boðið upp á öðrum stöðvum.

Það er ekki mikið spennandi að kosta kannski metalþáttinn á fimmtudagskvöldum en það er hópur sem hlustar.

Það eru ekki margar útvarpsstöðvar sem myndu útvarpa og gera músíktilraunum jafn hátt undir höfði og Rás 2 gerir.

Það yrði ekki mikið um jafnskemmtilega spurningaþætti eins og "nei hættu nú alveg" á öðrum miðlum ef Rás 2 yrði seld.

Þetta er nefnilega spurning um menningu, sem þeir sem vilja nú stjórna vilja ráða hver verði hér.

Ef þú vilt gerilsneydda útvarpsmennsku með dassi af Sveppa og Audda í bakgrunni, verði þér að góðu. Þannig er ekki Rás 2.

Sigfús (IP-tala skráð) 27.11.2013 kl. 16:20

10 identicon

Fleirr þúsund Íslendingar hafa misst vinnuna síðan Hrunið varð.

Nær engir nema fréttamenn búa til fréttir af því.

Birgir Guðjónsson (IP-tala skráð) 27.11.2013 kl. 17:09

11 Smámynd: Jóhannes Ragnarsson

Hvernig í ósköpunum á að fara að því að selja Rás 2?

Jóhannes Ragnarsson, 27.11.2013 kl. 17:12

12 identicon

Það er ekki von á að Marteinar Mosdalir þessa lands sjái bilunina í því að reka afþreyingarstöð fyrir Mosdæli á kostnað almennings, þar sem eigandinn setur öll lög og reglur " frjálsu samkeppninnar"....

Guðmundur Guðmundsson (IP-tala skráð) 27.11.2013 kl. 17:26

13 identicon

Hversu mikla peninga hefur RÚV haft af einkareknum fjölmiðlum með því að fara inn á afþreyingar markað í útvarpi og sjónvarpi í krafti ríkisframlags og selja svo auglýsingar í samkeppni. Það eru hrein og klár skemmdarverk á öðrum fjölmiðlum. Sigfús, ef einkareknir fjölmiðlar kæmust í þessar auglýsingatekjur sem RÚV rakar til sín, heldurðu að þeir gætu ekki boðið fólki upp á betra efni og kjör á áskrift.

Að mínu mati á að leggja RÚV niður í heild sinni. Rúv er tímaskekkja og leggja má fjármuni í betri og skilvirkari leiðir til að halda úti öryggishlutverki sem meint er að RÚV sinni.

Lolli (IP-tala skráð) 28.11.2013 kl. 00:40

14 Smámynd: Benedikt V. Warén

Rás 2 er að skila hagnaði.  Eru það rökin fyrir að selja ekki Rás 2.....!?!

Er ekki vænlegara að selja fyrirtæki sem skilar hagnaði?!?

Það fæst væntanlega meira fyrir slíkan rekstur en "fallitt" fyrirtæki,  - eða hvað?

Er ég eitthvað að misskilja hlutina?

Benedikt V. Warén, 28.11.2013 kl. 12:22

15 Smámynd: Geir Ágústsson

Að skiptar skoðanir séu fyrir dagskrá, fjármögnun og rekstrarfyrirkomulagi RÚV, og því að ríkisvaldið sé yfirleitt með fjölmiðil á sínum snærum, eru rök fyrir því að losa ríkisvaldið úr rekstri á fjölmiðli. Að neyða kostnað vegna RÚV upp á alla, hvort sem sátt er fyrir slíku eða ekki, er ósmekklegt.

Að RÚV hafi rekið örfá prósent starfsmanna sinna er bara fréttnæmt af því fréttamenn eiga í hlut.

Að RÚV sé ekki minnkað um 25% á ársfjórðungi og lagt niður innan árs er fyrir mér fréttnæmt. Ég hélt að ríkisstjórnin ætlaði að vera með aðrar áherslur en fráfarandi ríkisstjórn, þ.e. aðrar en þær að moka fé úr vösum skattgreiðenda undir áhugamál sumra, fleyta skuldafjalli næstu tveggja kynslóða á undan sér og forðast að taka erfiðar ákvarðanir?

Af tali RÚV-sinna mætti ætla að fjöldi fólks væri tilbúinn að stunda viðskipti við fjölmiðlil með sömu áherslur. Látum verkin tala.

Geir Ágústsson, 28.11.2013 kl. 14:02

16 Smámynd: Jóhannes Ragnarsson

Það er einfaldlega ekki hægt að selja Rás 2 nema ef til vill nafnið eitt, en einkarekin útvarpsstöð undir nafninu Rás 2 yrði að sjálfsögðu eitthvað allt annað en sú Rás 2 sem er ein af deildum Ríkisútvarpsins.

Jóhannes Ragnarsson, 29.11.2013 kl. 12:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband