Fálmað í myrkri hagtalna

Spekingarnir hafa kíkt inn í framtíðina og segja okkur frá batnandi tíð með aukinni einkaneyslu.

Þeir segja að batnandi horfur séu á atvinnumarkaði.

Þeir segja okkur líka að búist sé við minni fjárfestingu á næsta ári en þessu ári. Samt á einkaneysla að aukast og störf að skapast.

Þetta eru auðvitað mótsagnir. Enginn vöxtur hagkerfis getur átt sér stað ef fjárfesting er að minnka. Hver á að kaupa tækin og tólin, fjárfesta í þjálfun starfsmanna og koma vörum út til neytenda ef fjárfesting er að minnka en einkaneysla að aukast? Á að stofna til skulda? Á að prenta peninga?

Fé verður ráðstafað á þrjá vegu og bara þrjá: 

  1. Í neyslu.
  2. Í fjárfestingu.
  3. Í uppsöfnun undir koddanum (þar sem þeir brenna upp á verðbólgubáli hins opinbera).

 Ef almenningur er að eyða miklu í neyslu og draga úr fjárfestingu þá er ekki að safnast fé í sjóði sem fyrirtækjum stendur til ráðstöfunar að lána úr til arðbærra fjárfestinga. Ef fyrirtæki þurfa að láta rekstrarfé duga til að fjárfesta er nokkuð víst að minna verður um fjárfestingar en ella. Fá fyrirtæki eiga sjóði sem duga fyrir meiriháttar fjárfestingum, staðgreiddum. 

Raunar hafa Íslendingar ekki átt sparnað í mörg ár. Lífeyrissjóðirnir eru lögskipaður nauðungarsparnaður, og núna er verið að nota þá til að fjármagna uppkaup á fyrirtækjum og skuldum hins opinbera. Lífeyrissjóðirnir verða orðnir tómir löngu áður en ég leggst í helgan stein, ef ég get það þá yfirleitt.  

Til að skilja þjóðhagsspá Hagstofu Íslands rétt er til einfalt ráð: Að túlka allt sem þeir kalla jákvætt sem neikvætt, og öfugt. 


mbl.is Gera ráð fyrir 2,5% hagvexti á næsta ári
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Brynjar Þór Guðmundsson

Sæll Geir, það er reyndar eitt sem þú gleymir og það er að ef störfum og vinnustundum er að fjölga og skattar að lækka þá gengur þetta upp. Ef Neytandinn velur Íslenskt fram yfir erlent fjölgar vinnustundum hérlendis.

Brynjar Þór Guðmundsson, 16.11.2013 kl. 08:18

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Sæll Brynjar, og takk fyrir athugasemdina.

Ef vinnustundum í þjónustu og sölu neysluvarnings er að fjölga, en framleiðsla (iðnaður eða hrávöruvinnsla og þess háttar sem er ekki beint neytendavarningur heldur millibilsframleiðsla í átt að slíkum) ekki, og gjaldeyriseyðsla er að aukast án þess að gjaldeyrisöflun sé að gera það, þá er það skammgóður vermir.

Að velja dýrari varning fram yfir ódýrari er engum til góðs. Séu menn að "velja íslenskt" án þess að hugsa um verð eða gæði þá eru menn einfaldlega að eyða meira í lífsgæðin en þeir þurfa, og eiga þá minna á milli handanna til að greiða niður skuldir eða spara og fjárfesta, og það kemur þá beinlínis niður á hagkerfinu. En stundum er nú íslenskt bæði gott og hagkvæmt, og þá er um að gera og verðlauna slíka framleiðslu með kaupum á henni.

Geir Ágústsson, 18.11.2013 kl. 07:45

3 Smámynd: Geir Ágústsson

Auðvitað hjálpa skattalækkanir og auðvitað á ríkisvaldið að minnka sig um tugi prósenta, sem fyrst, en ég sé bara engar grundvallarbreytingar vera eiga sér stað. Ríkisvaldið er ekki að selja neitt, koma sér úr neinu, rýmka regluverkið svo einkaaðilar komist víðar að, bjóða út neitt, koma á samkeppni þar sem engin var, minnka eftirlitið með því sem þarf ekki eftirlit, og svona mætti lengi telja. Allar "góðar fréttir" úr hagtöluheiminum eru því í besta falli flökt á tölum (t.d. vegna tímabundinna breytinga í væntingum fjárfesta) eða góðæri tekið að láni (t.d. með skuldsetningu hins opinbera eða misnotun á íslensku krónunni í krafti Seðlabanka Íslands).

Svo já, það er ekki verið að skemma hagkerfið jafnhratt og gert var í tíð seinustu ríkisstjórnar, en í besta falli verið að frysta fyrri skemmdarverk í sessi, í stað þess að draga úr þeim af fullum krafti.

Geir Ágústsson, 18.11.2013 kl. 07:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband