Öruggt ef þú þóknast yfirvöldum

Fjárfestirinn Jason Holroyd Whittle, sem hefur fjárfest töluvert á Íslandi síðustu árin, sendi nýlega forsætisráðherra Íslands opið bréf þar sem hann útlistar nokkur af vandamálum, tækifærum og áskorunum sem Ísland býr við.

Þetta var gott framtak hjá hinum erlenda fjárfesti. Íslendingar taka of meira mark á útlendingum en sjálfum sér. Stundum leiðir það til góðs, en ekki alltaf.

Hinn erlendi fjárfestir hvetur hér stjórnvöld til að standa vörð um fiskveiðistjórnunarkerfið (a.m.k. ekki rústa því) og forðast breytingar sem fæla fjárfesta enn lengra frá landinu. Þetta er gott.  

Hann hvetur Íslendinga til að forðast að leggja öll eggin í sömu körfuna en notar þar bandarísku borgina Detroit sem víti til varnaðar. Þar fór allt á hausinn vegna ríkisafskipta og heimtufrekju verkalýðsfélaga, en ekki af því margir stórir bílaframleiðendur voru þar að störfum. Bæði er samt gott; að ýta ekki undir einsleitni með ríkisafskiptum, og veita engum sérhagsmunahópum sérstöðu með ríkisafskiptum.

Sjálfur dytti mér ekki fyrir mitt litla líf í hug að fjárfesta á Íslandi nema fá skriflegt samþykki yfirvalda fyrir því að skattar fari ekki á flug og eignir á Íslandi, hvort sem er í peningum eða öðrum eignum, verði ekki skyndilega frystar eða þjóðnýttar. Hið íslenska ríki er með þjóðnýttan gjaldeyri (lögskyldaða notkun á hinni íslensku krónu fyrir flesta, auk hafta), að hluta til þjóðnýtt bankakerfi, þjóðnýtt vegakerfi, bráðum þjóðnýtt rútuleiðakerfi, þjóðnýtt innanlandsflug (ríkisstyrkt og hátt skattlagt þannig að engin von er í samkeppnisrekstri), þjóðnýtt hálendi og svona má lengi telja. Vonandi verður bréf frá erlendum fjárfesti til þess að horfið verði af þessari braut. 


mbl.is Segir öruggt að fjárfesta á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Það sem aldrei hefur verið í einkaeigu kallast ekki þjóðnýtt. Einkarekstur og einkaeign er mjög algeng og útbreidd á Íslandi enda er upptalningin hjá þér nokkuð vafasöm þar sem þú telur upp t.d. hálendið. Vilt þú láta einkavæða hálendi? Vilt þú að þjóvegirnir verði innan girðingar og að almenningi sé meinað aðgang að landinu sem hefur verið "einkanýtt"? Vilt þú kannski fá erlenda fjárfesta til landsins til þess að kaupa upp hálendið?

Íslensku bankarnir fóru á hausinn og eftir það voru stofnaðir nýjir bankar sem að mestu voru síðan einkavæddir. Það kallast ekki þjóðnýting. Bendi þér á að reyna að skilja hugtökin sem þú notar.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 7.7.2013 kl. 15:33

2 Smámynd: Árni Gunnarsson

Gaman væri að fá að sjá hvað þessi maður veit um fiskveiðkerfið okkar annað en að það hentar hans útgerðarplönum.

Er það eitthvað sem íslensk stjórnvöld eiga að taka sérlega til greina?

Sæmt þegar sá sem tekur við svona kjaftagangi er ófær um að meta hvað er raunhæft.

Ég er að tala um sjávarútvegs/atvinnumálaráðherrann sem talar um árangur íslenska kvótakerfisins eins og óvitakrakki frá Austur-Tímor.

Árni Gunnarsson, 8.7.2013 kl. 16:47

3 Smámynd: Geir Ágústsson

Sæl Jakobína,

Sennilega ofnota ég orðið "þjóðnýta". Það er bara vegna skorts á orði sem gæti passað við eftirfarandi skilgreiningu:

Athöfn eða framkvæmd eða rekstur sem löggjafinn bannar fyrirfram nema með sérstöku leyfi ríkisins eða aðkomu þess.

En já, ég vil koma ríkinu úr starfi rekstraraðila, eigenda og umsjónarmanns. Alls staðar.

Árni,

Auðvitað hefur þessi maður hagsmuni og lætur þá skína í gegnum verk sín og skrif. Þú hefur líka hagsmuni. Allir tjáum við okkur. Þessi maður er að flytja fjármuni sína inn í landið, sem mér finnst vera mikið óráð, enda ræðst hérna ríkisvaldið að öllu og öllum ef pólitískir vindar leyfa.

Geir Ágústsson, 12.7.2013 kl. 09:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband