Kosningavitinn: Kostir frjálshyggjumannsins

Kosningavitinn er áhugavert fyrirbæri og tilraun til að heimfæra "stjórnmálapróf" af ýmsu tagi [1|2|3|4] yfir á pólitíska landslagið á Íslandi. Það er í sjálfu sér ágæt viðleitni. Þetta próf hjálpar örugglega einhverjum að gera upp hug sinn. Ef menn eru t.d. í vafa um hvort þeir eigi að velja Vinstri-græna eða Samfylkinguna þá getur prófið e.t.v. skýrt línurnar. 

Prófið er auðvitað ekki gallalaust. Um það má eflaust skrifa mörg orð. Ég læt það hins vegar eiga sig.

Það sem mér finnst athyglisvert er að enginn íslenskur stjórnmálaflokkur kemst nálægt því að vera á sama stað og ég á kortinu (sjá mynd). Samkvæmt prófinu og áttavitanum er ég "efst til hægri", þ.e. þar sem bæði frjálsyndi í samfélagsmálum og efnahagsmálum ræður ríkjum. Næst mér er Sjálfstæðisflokkurinn, en vegalengdin í hann er löng. 

Frjálshyggjumaður á kosningavitanum

Hvernig stendur á því að enginn flokkur boðar að ríkið sleppi takinu almennt? Sumir vilja að ríkið sleppi takinu af veski fólks en leyfi því að reykja hass. Sumir vilja að ríkið sendi lögreglumenn á eftir þeim sem reykja hass, en sleppi þess í stað krumlunni af veski fólks. Ég vil að ríkið sleppi öllu. 

Einu sinni töluðu stjórnmálamenn skýrt. Þeir töluðu um sósíalista þegar þeir töluðu um þá sem vildu stækka ríkisvaldið. Það var gott orð sem mætti alveg nota meira. Sósíalistar gætu verið allir vinstra megin við lóðréttu línuna á hinum pólitíska áttavita. Fasistar gætu verið allir neðan við láréttu línuna, en hana mætti samt færa töluvert hærra upp. Þeir einu sem væru hvorugt væru í efri hægri hluta áttavitans. Þeir sem eru hvoru tveggja sósíalistar og fasistar eru í neðri hlutanum til vinstri (fasósíalistar).

Miðað við niðurstöður mínar í þessu prófi finnst mér ekki skrýtið að mér finnist erfitt að ljá einhverjum flokki á Íslandi atkvæði mitt. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Geir. Ég fékk út sömu niðurstöðu: hægra, efra hornið. Sjálfstæðisflokkurinn er þarna næst en honum treysti ég ekki, af nokkrum ástæðum: Það fer varla á milli mála að flokkurinn stendur vörð um alls konar sérhagsmuni og þar innanborðs eru heilu fjölskyldurnar sem makað hafa krókinn í gegnum flokkinn svo áratugum skiptir. „Frjálshyggjan“ sem flokkurinn boðar er yfirborðskennd og prinsipplaus — og hvorki í anda evrópska liberalismans né ameríska libertarianismans. Kostirnir eru því þessir: Kjósa ekki, skila auðu eða selja atkvæðið hæstbjóðanda (að gefinni einhverri lágmarksupphæð).

Magnús (IP-tala skráð) 18.4.2013 kl. 18:13

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Sæll Magnús og takk fyrir athugasemdina,

Nú er Sjálfstæðisflokkurinn sennilega það illskásta í stöðunni. Í honum starfar mikið af fólki sem ég þekki vel og treysti til að halda á lofti fána frelsisins. En flokkurinn er enginn frjálshyggjuflokkur, eða með orðum formannsins: "Við erum hinsvegar enginn frjálshyggjuflokkur," (http://www.visir.is/bjarni--vid-erum-ekki-frjalshyggjuflokkur/article/2009859396215) og þannig er það bara.

Geir Ágústsson, 19.4.2013 kl. 05:00

3 identicon

Sæll Geir. Það er rétt hjá þér að margt gott og frjálshyggjusinnað fólk er innan flokksins (það á kannski ekki síst við um yngri kynslóðina) og ég hefði sjálfsagt átt að nefna það líka. Sér í lagi er ánægjulegt að sjá að í framboði fyrir komandi kosningar eru nokkrir einstaklingar sem komast næst því að vera frjálshyggjusinnaðir. Þeir eru reyndar allt of neðarlega á listum og flestir ef ekki allir í framboði á höfuðborgarsvæðinu; frjálshyggjusinnaðir kjósendur (með lögheimili) á landsbyggðinni hafa því úr afar litlu að moða. Svo eru það Píratar, sem leggja áherslu á mál sem langflestir frjálshyggjumenn ættu að geta tekið undir (en svo er þar annað sem þeim líst ábyggilega síður á). Persónukjör — helst þvert á kjördæmi — væri ágæt lausn á þessu vandamáli, ég held að það ætti að geta myndast samstaða meðal stjórnmálamanna um að innleiða slíkt kerfi (og „þjóðin“ virðist líka styðja það).

Magnús (IP-tala skráð) 19.4.2013 kl. 13:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband