Lýðræði veitir aðhald... á fjögura ára fresti

Lýðræði er að mörgu leyti ágætt kerfi til að veita stjórnmálamönnum, "stjórnendum þjóðarinnar", aðhald og að mörgu leyti ágætt til að skipta þeim út ef þeir hætta að þjóna kjósendum. Kerfið er hins vegar best á fjögurra ára fresti. Þá fer ráðningarsamningur þingmanna að renna út og þarfnast endurnýjunar. Þá spretta þingmenn margir fram á sjónarsviðið eftir að hafa verið eins og ósýnilegir í þrjú ár, og byrja að hamast. 

Hin þrjú árin eru hins vegar öllu verri.  Nú er það svo að enginn, og þá meina ég nákvæmlega enginn, á frjálsum markaði getur leyft sér að biðja um fjögura ára uppsagnarfrest. Almennur uppsagnarfrestur telur yfirleitt í vikum eða 2-3 mánuðum. Ef ég byrja að slaka á í vinnunni og láta lítið fyrir mér fara, vanrækja vikulega skipulagsfundi með yfirmanni mínum og skila illa og seint af mér þá get ég búist við uppsagnarbréfi mjög fljótlega.

Fyrirtæki á "lýðræði markaðarins" búa við svipaða óvissu eða jafnvel meiri. Neytendur geta ákveðið að yfirgefa þau á augabragði. Tekjur geta hrapað niður í núllið frá degi til dags. Hver króna af tekjum þeirra er eins konar atkvæði neytenda sem þeir geta sleppt því að veita hvenær sem þeir vilja. 

Þingmenn eru, af góðum og gildum ástæðum vissulega, verndaðir fyrir slíku. Þeir hafa stjórnarskrárbundinn rétt til að stunda þingmennsku nánast hvernig sem þeir vilja. Þeir geta setið kyrrir í fjögur ár og skilað auðu í öllum málum. Þeir þurfa ekki, frekar en þeir vilja, að fara í ræðustól eða vera virkir á nefndarfundum. Þeir geta hins vegar líka flætt frumvörpum og ályktunartillögum yfir þingheim og hamast á öllum fundum. Þeir eru kosnir fulltrúar, en eiga eingöngu að vinna í samræmi við eigin sannfæringu, og hún getur alveg verið sú að þingstörfum sé best sinnt með því að halda kjafti.

Núna eru prófkjör yfirvofandi og kosningar. Svo virðist sem það hafi vakið einhverja þingmenn til lífsins. Vottur af stjórnarandstöðu er að fæðast, þótt veikur sé.

Lýðræðið er virkast á fjögura ára fresti. Svo virðist sem hin þrjú árin séu fljótt gleymd og grafin.  

Hver er svo boðskapurinn? Hann er sá að fækka þeim verkefnum sem stjórnvöld hafa á sinni hendi eins mikið og hægt er. Því færri sem þau eru, því færri verkefni geta siglt í ranga átt í þrjú ár áður en einhver vekur máls á því. Eftir því sem meira er eftirlátið hinum frjálsa markaði, þeim mun meira aðhald er hægt að veita.

Í stuttu máli: Einkavæðum allt! 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband