Hvað er 'verðbólga'?

Fæstir gera sér nægjanlega góða grein fyrir því hvað "verðbólga" er.

Stutta útgáfan er þessi: Fleiri og fleiri peningar að elta svipað eða sama magn af vörum og þjónustu og áður.

Fleiri og fleiri peningar verða til vegna peningaútgáfu ríkisvaldsins.

Magn íslenskra króna í umferð er að öllu jöfnu alltaf að aukast. Þess vegna rýrnar kaupmáttur þeirra, og almenningur upplifir "verðbólgu". Verðbólga er aukning á peningamagni í umferð (á ensku "inflation" sem þýðir útþensla og vísar til útþenslu á peningamagni í umferð). Hækkandi verð er afleiðing verðbólgu, en ekki orsök. Vísindavefurinn er villandi að þessu leyti.

Hérna er flóknari og jafnvel villandi skilgreining á verðbólgu, einnig í boði Vísindavefsins. 

En hvað nú ef "gengið styrkist"? Lækkar þá verðið ekki? Kannski. En fyrst þarf að lækka verð starfsmanna verslana, því það hækkaði líka í verðhækkunum (verðbólgunni), sem sagt lækka laun þeirra. Húsaleiga verslana, rafmagnsreikningar og önnur útgjöld þurfa líka að lækka, því þau hækkuðu í verðbólgunni. Hagkerfið er eins og flókin vél. Ekki er bara hægt að hægja á einu tannhjóli og ætlast til þess að öll hin snúist áfram. Allt gangverkið þarf að fínstilla saman og ná nýju jafnvægi í ljósi hins nýja kaupmáttar peninganna.

Auðvitað gerist ekkert af þessu. Verðbólgan fer af stað á ný, verslanir vita þetta, sem og allir þeirra birgjar. Verðlaginu verður því haldið þar sem það er, því það mun á endanum skapa minnst illt umtal, miðað við til dæmis að lækka verð núna til þess eins að þurfa hækka það seinna og fá ekki neina lækkun á rafmagnsreikningi, húsaleigu eða launakostnaði.  


mbl.is Styrking krónu mun skila sér út í verðlagið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll.

Milton Friedman hefur sýnt fram á að verðbólga sé alltaf peningalegs eðlis. Verst hve fáir gera sér grein fyrir því.

Besta dæmið um þetta er þróun olíuverðs. Árið 2006 gat maður fengið 4 gallón af bensíni í USA fyrir silfurúnsu en í byrjun árs 2012 gat maður fengið um 11 gallón af bensíni fyrir sömu silfurúnsuna. Mælt í dollurum hækkaði olíuverð nokkuð en mælt í silfri lækkaði verð olíu verulega!!

Merkilegt? Kannski, sorglegast er hins vegar að Seðlabankastjórar heimsins virðast ekki gera sér almennilega grein fyrir þessu. Öll þessi peningaprentun gerir ekkert annað en rýra lífskjör fólks og er í reynd opinbert og löglegt rán framið af yfirvöldum gegn þegnunum :-(

ECB prentaði um 1000 milljarða evra frá des. 2011 til feb/mars 2012 og lét illa rekin einkafyrirtæki (hundruðir banka) fá þessa peninga á spottprís.

Helgi (IP-tala skráð) 4.8.2012 kl. 13:11

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Sæll Helgi,

Það sem Milton Friedman sýndi fram á með gagnavinnslu var fyrir löngu búið að sýna fram á með röklegu samhengi hluta, en Friedman vakti vissulega athygli á þessu með eftirtektarverðum hætti og á allan heiður skilið fyrir það.

Þessi peningaprentun er komin á geðsjúkt stig og mun enda með hruni hina fjöldaframleiddu gjaldmiðla. Í Grikklandi eru menn byrjaðir að stunda vöruskipti eða vanþróuð peningaviðskipti (einhvers konar "stigakerfi"), og má það teljast mikið afturhvarf frá tímum hins alþjóðlega gullstandards, þar sem viðskipti gátu átt sér stað milli Breta og Japana á sama peningagrundvelli.

Bless lífeyrissparnaður okkar allra. Vissara að byrja gera ráð fyrir einhverju öðru í ellinni.

Geir Ágústsson, 5.8.2012 kl. 19:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband