Skatta'skjól' eru góð fyrir hagkerfi háskattalanda

Svo lengi sem skattar hafa verið til hafa menn setið sveittir yfir leiðum til að forðast þá. Hinn "venjulegi" skattgreiðandi passar sig til dæmis vel á því að telja ekki krónu meira fram en hann þarf samkvæmt lögum. Hinn "ríki" hefur í kringum sig her af lögfræðingum og endurskoðendum til að finna "holur" og koma tekjum sínum í skjól.

Skattheimta sóar verðmætum og tíma þeirra sem verðmætanna afla. Að menn vilji greiða eins lága skatta og þeir geta, mega og þurfa er einfaldlega eðlilegt, burtséð frá því hvort menn telji svo að skattheimtan sé nýtt í eitthvað uppbyggilegt eða ekki. Meira að segja skattheimtuprestur eins og prófessor Þorvaldur Gylfason telur ekki fram þær tekjur sem hann fær greiddar utan Íslands (t.d. frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum). Skiljanlega. 

En hvað sem því líður er hægt að spyrja sig að einu: Væri það gott fyrir hagkerfið að allir greiddu skatt af öllum tekjum sínum?

Svarið við því er einfaldlega nei.

Eftir því sem meira er eftir af tekjum í vasa þess sem teknanna aflar, þeim mun betra. Ríkisvaldið er einfaldlega skelfilegur notandi peninga, og sóar þeim í vitleysu. Allt sem ríkið gerir er bæði dýrara og verra en það sem gert er í opnu, frjálsu og óhindruðu samkeppnisumhverfi einkaaðila. 

(Nú gæti einhver spurt: Hvað er opið, frjálst og óhindrað samkeppnisumhverfi? Svarið er ekki fundið t.d. í "samkeppni" opinberra eða hálfopinberra fyrirtækja, t.d. rafveitna. Ríkisvaldið skiptir sér af nánast öllum mörkuðum og gerir aðgengi að þeim þannig dýrt og þunglamalegt. En ef ég ætti að taka dæmi þá væri til dæmis hægt að nefna markað klósettbursta. Um þá gilda fáar reglur, þeir eru hóflega tollaðir og skattlagning á þá er svipuð og á öllu öðru. Ímyndum okkur að ríkisvaldið sæi um að framleiða og selja klósettbursta. Sér einhver fyrir sér aukið úrval, lægra verð og betra aðgengi? Vonandi ekki.)

Boðskapurinn er sem sagt þessi: Eftir því sem launþegar og fjármagnseigendur geta haldið meira eftir af tekjum sínum, þeim mun meira er til ráðstöfunar í eitthvað uppbyggilegt, hvort sem það eru viðgerðir á húsum, fatakaup á börnin, fjárfesting í sprotafyrirtæki, ný tölva eða betri rúmdýna. 

Hvað er svo ráðið við flótta fjármagns í "skattaskjól"? Að gera þann flótta dýrari en sjálfa skattheimtuna, sem sagt að minnka skattheimtuna það mikið að flóttinn frá henni kostar meira en skatturinn sem er til innheimtu. 


mbl.is Nafngreina aðila í skattaskjólum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll.

Flottur pistill.

Varðandi klósettburstana er til enn betra dæmi: GSM símar. Þeir hafa orðið betri og ódýrari með tímanum enda skipta stjórnmálamenn sér ekki að gerð þeirra heldur sjá fyrirtæki sér hag í því að gera þá betri og betri. Sama á við um örgjörva.

Skattheimta eins og hún er víða stunduð er í raun ekkert annað en löglegt rán og fólk í raun þrælar hins opinbera þó það fatti það ekki. Fólk heldur að það sé frjálst en er það ekki.

Ég vona að sem flestir kíki í skattframtölin sín og athugi hve mikið af heildartekjunum fer til opinberra aðila í formi skatta. Þá sjá menn að þeir vinna kannski rúma viku í hverjum mánuði fyrir hið opinbera án þess að vilja það. Þá eru ekki taldir með skattar á t.d. bensín og annað slíkt :-( Hið opinbera er sem myllusteinn um háls einstaklinga og fyrirtækja.

Skattaskjól eru góð og vonandi spretta fleiri slík upp. Við íslendingar gætum laðað hingað mikið fjármagn með því að lækka alla skatta verulega, um 60-80% eða svo.

Minni svo á að skattar á fyrirtæki voru lækkaðir í þrepum úr 45% í 18% á árunum 1991-2001 og við það þrefölduðust tekjur ríkisins!! Af hverju skilja sumir ekki skaðsemi hárra skatta?

Helgi (IP-tala skráð) 25.7.2012 kl. 23:38

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Sæll Helgi,

Já fínt dæmi með GSM símana. Ríkisvaldið er nú samt ekki alveg afskiptalaust þar, t.d. hefur ESB ákveðið að "staðla" öll símahleðslutæki, skipta sér af gjaldskrám og skrúfa saman reglur um hámarksútgeislun, svo eitthvað sé nefnt.

Goðsögnin mikla er svo sú að það séu hinir "ríku" sem borga skattana. Svo er þó ekki. Hinir ríku eru svo fátækir miðað við allan þorra íbúanna samanlagt að skattheimta á þá hefur ekkert að segja hvað varðar skattheimtu. "Signalið" um að "hinir ríku" séu samt skattlagðir meira en aðrar er hið pólitíska markmið með hátekjuskattlagningu.

Geir Ágústsson, 30.7.2012 kl. 11:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband