Gamalt vín í nýjum belgjum

Hagfræðingar eru skrýtin hjörð. Sumir skilja alveg gangverk hagkerfisins, og meðmæli þeirra stuðla að vexti hagkerfa (og eru því góð ef markmiðið er að stækka hagkerfið). Sumir skilja hins vegar ekkert, og vita ekkert hvað gerist í hagkerfum. Dæmi um ummæli frá slíkum hópi hagfræðinga:

 Ríkir einstaklingar á evrusvæðinu ættu að greiða hærri skatta eða vera neyddir til þess að lána ríkistjórnum í vanda fé í baráttunni við efnahagsvandann.

Hérna er lögð fram tillaga um að slátra mjólkurbeljunni til að eiga fyrir næstu máltíð, en því gleymt að á morgun þarf hvoru tveggja: Mjólk frá beljunni og kjöt af kálfi hennar.

Þessi tillaga sprettur af sama misskilda "skóla" hagfræðinnar og boðar þjóðnýtingar fyrirtækja, fjárhagslegar barsmíðar á þeim sem leggja fyrir, upphafningu á hegðun þeirra sem drekkja sér í skuldsettri neyslu, og stöðugar skattahækkanir til að brúa djúpa gjá milli eyðslu og skattheimtu hins opinbera.

Í stuttu máli sagt: Gamalt vín í nýjum belgjum.

Eða réttara sagt: Sama ónýta vínið og ríkisstjórn Íslands býður upp á, en pakkað inn í aðrar umbúðir. 

Morgunblaðið hefði gert vel með því að finna einn af góðu hagfræðingunum til að gera grín að þessari tillögu en á málefnalegan hátt, en það ætti að vera auðvelt. 


mbl.is Neyða ætti efnaða til að lána fé
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mikið rétt! Það sem mér finnst öllu verra er hve stór hluti almennings kaupir útskýringar slíkra hagfræðinga og pólitíkusa. Það að kommúnistaflokkur eins og Vinstri-grænir skuli hafa fulltrúa á Alþingi er áhyggjuefni. Að vísu er flokkur eins og Samfylking hættulegri en VG því þar eru á ferð eitthvað sem kalla mætti "kommúnistar með grímu", sumir þeirra vilja jafnvel ekki kalla sig vinstrimenn en tala dreymnum augum um jöfnuð sem á að koma á með skattpíningu og kúgun þeirra sem leggja á sig erfiðið til að skapa verðmætin. Í sjálfu sér er gott að við fengum þessa öfga-vinstri-stjórn sem nú ríkir, svo þjóðin fái upplifað kúgun kommúnismans á eigin skinni, en áhyggjuefnið er samt hve fáir skilja hættuna sem fylgir þessu liði. Við skulum vona að eftir nokkra áratugi verði þessi tími bara eitthvað sem við getum talað um sem kommúnistastjórnina ógurlegu.

Ásgeir (IP-tala skráð) 11.7.2012 kl. 19:02

2 identicon

Margir stærðfræðingar halda því fram að hagfræði sé gervivísindi vegna þess að hún byggir ekki á concrete reglum.

Kristján B Kristinsson (IP-tala skráð) 11.7.2012 kl. 20:14

3 identicon

Er ekki betra að neyða stjórnmála- og embættismenn til að eyða ekki meira en þeir afla!

Björn (IP-tala skráð) 11.7.2012 kl. 20:28

4 identicon

Sæll.

Ætli svona þvaður leiði ekki til fjármagnsflótta? Annars eru skattar orðnir svo háir víða að ég held að nær sé að tala um eignaupptöku en skatta.

Hollande hefur hækkað skatta á ríkustu Frakkana en það verður sjálfsagt skammgóður vermir því margir þeirra munu yfirgefa landið, störfum fækka og skatttekjur dragast saman um leið og skuldir hins opinbera í Frakklandi aukast. Ég held að við heyrum fréttir innan nokkurra ára um hækkandi vexti á lánum til Frakklands. Þó nokkrir ameríkanar eru að losa sig við ríkisborgararétt sinn til að komast undan skattaáþjáninni þar.

Í allri þessari skattageðveiki standa lönd með lága skatta vel að vígi og laða að sér fé og fjárfestingar. Ef Romney vinnur í nóv. og gerir það sem hann segist ætla gera verður sæmilegast viðsnúningur í USA - kannski kveikja Evrópumenn þá á perunni? Ég hefði samt viljað sjá Herman Cain sem forseta enda vildi hann hafa skattana virkilega lága miðað við það sem nú tíðkast.

Minni á að hérlendis 1991-2001 voru skattar á fyrirtæki lækkaðir í þrepum úr 45% í 18% og á sama tíma þrefölduðust skatttekjur hins opinbera af fyrirtækjum. Hvers vegna er svona erfitt fyrir vinstri menn að skilja þetta? Sama gerist annars staðar í heiminum þegar skattar eru lækkaðir.

@KBK: Hagfræði er félagsvísindagrein - ekki nákvæmnisvísindagrein. Ef þú lækkar tekjuskatta hér niður í t.d. 10% væri hægt að segja nokkurn veginn hvað gerðist en ekki meira en það. Kannski væri nær að tala um hagspeki og lögspeki sbr. muninn á stjörnfræði og stjörnuspeki?

Helgi (IP-tala skráð) 11.7.2012 kl. 21:52

5 identicon

Já helgi þetta var nú aðallega sett fram í gríni. en það sem manni finnst kannski verst við alla þessa auknu skattheimtu er það að hið opinbera fer ekkert sérlega vel með skattféð, það er eflaust nákvæmlega sama hvort það eru Íslensk stjórnvöld eða einhver önnur, það er svo gott að geta leyft sér að bruðla með fé sem maður á ekki sjálfur. 

Kristján B Kristinsson (IP-tala skráð) 11.7.2012 kl. 22:15

6 identicon

@KBK:

OK :-) Samt er nokkuð til í þessu hjá þér. Ef um alvöru fræðigrein væri að ræða væri staðan ekki þannig að tveir fræðingar horfðu á sömu aðstæður en kæmust að nánast andstæðri niðurstöðu.

Ég held að það skipti engu máli hve mikið fé hið opinbera tekur af þegnum sínum, alltaf þarf það meira. Nú er í tísku að tala um græðgi fyrirtækja en af hverju er græðgi aldrei notuð um yfirgengilega skattheimtu yfirvalda á Vesturlöndum?

Já, menn fara ansi illa með annarra manna fé - alveg rétt hjá þér.

Stjórnmálamenn vilja alltaf endurkjör og hlusta því á sérhagsmunahópa sem vilja láta þorra almennings niðurgreiða gæluverkefni fyrir sig.

Ég held að eini flokkurinn sem vill minni skatta og minna ríksibákn séu Hægri grænir - ég kýs ekki Sjallana með núverandi mannskap innanborð enda flokkurinn orðinn sósíalistaflokkur. Flokkurinn verður að hreinsa flórinn og moka út öllum þessum jafnaðarmönnum þar. Bjarni Ben er eins og vingull í flestum málum og virðist bara hafa áhuga á því að verða forsætisráðherra. Það er engum flokki hollt að vera áskrifandi að atkvæðum - þeir verða að vinna fyrir þeim og því hafa Sjallarnir alveg gleymt. Þeir voru kannski hægri flokkur en það hefur breyst :-(

Helgi (IP-tala skráð) 12.7.2012 kl. 09:54

7 Smámynd: Geir Ágústsson

Takk fyrir innlegg ykkar.

Hagfræði er stundum skipt upp eftir áherslum, gjarnan kallaðir "skólar" hagfræðinnar.

Ég er hrifnastur af hinum svokallaða "austurríska" skóla, með menn á borð við Hayek, Mises og Rothbard í fremstu víglínu.

"Mainstream" hagfræðin eða "neoclassical" hagfræðin, með pilta eins og Keynes, Milton Friedman og Krugman og fleiri innanborðs (í meginatriðum, þótt pólitískar áherslur þessara manna hafi verið mjög mismunandi).

Um muninn á þesssu tvennu má fræðast á um klukkustundaráhorfi hér:

http://mises.org/media/4363/Austrian-vs-Neoclassical-Analytics

Mér er svo nánast alveg sama hvaða flokkar komast í næstu ríkisstjórn: Enginn flokkur inniheldur frjálshyggjumenn að neinu ráði, og sama hvaða ríkisstjórn kemst til valda þá þarf að veita henni strangt og óvægið aðhald. En af öllu illu finnst mér (ennþá) Sjálfstæðisflokkurinn minnst lélegur.

Geir Ágústsson, 12.7.2012 kl. 10:55

8 Smámynd: Árni Gunnarsson

Verið áhyggjulausir. Græðginni mun takast að drekkja lífríki jarðarinnar í eigin skítahaug innan mjög skamms tíma. Og þegar það gerist munu þeir ríku verða nægilega margir og nægilega ríkir.

Árni Gunnarsson, 12.7.2012 kl. 18:26

9 Smámynd: Geir Ágústsson

Árni,

Umhverfið og lífríkið er undir mestum þrýstingi þar sem eignaréttur er hvað verst skilgreindur, eða hreinlega skilgreindur sem ólögmætur. Ef þú hefur áhyggjur af umhverfi jarðar hvet ég þig eindregið til að taka upp fána kapítalisma og frjálshyggju sem fyrst.

Geir Ágústsson, 13.7.2012 kl. 07:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband