Jöfn tekju'dreifing' er slæm

Tekjur Íslendinga dreifðust jafnar árið 2011 en þær hafa gert síðan mælingar hófust með lífskjararannsókn Hagstofunnar árið 2004. Bilið milli tekjuhópa hefur minnkað verulega frá árinu 2009 og er tekjuhæsti fimmtungurinn nú með 3,3 sinnum hærri tekjur en sá lægsti. Til samanburðar var hlutfallið 4,2 árið 2009, segir í frétt á vef Hagstofu Íslands.

Þetta eru slæmar fréttir. Nú er það svo að flestir skapa ekki mikil verðmæti með vinnu sinni. Flestir eru því með "lágar" tekjur eða "miðlungs háar". Í krónum og aurum væri sennilega hægt að miða við milljónina - langflestir eru með minna eða miklu minna en milljón á mánuði í laun. 

Á Íslandi hefur þeim sennilega ekki fækkað mikið sem hafa minna en milljón á mánuði í laun og sennilega hefur þeim fjölgað sem hafa dottið undir milljónina, bæði sem hlutfall af vinnandi fólki, og fjöldi einstaklinga á Íslandi öllu. Þetta þýðir að störfum sem skapa mikil verðmæti og borga mjög vel hefur fækkað. Verðmætasköpunin hefur því annað hvort dottið niður, eða hún komin úr landi. Bæði er slæmt. (Hérna er ég ekki að tala um störf í fjármálabólustörfum, þar sem starfsmenn taka við nýprentuðum peningum og eyða í allskyns varning og þenja upp verðlag með því að láta sífellt fleiri peninga elta svipað magn verðmæta.)

Margir vilja meina að fólk með meira eða miklu meira en milljón á mánuði sé ekki launa sinna "virði". Fyrir slíku hugarfari eru margar ástæður. Ein ástæðan er misskilningur og fáfræði. Þeir sem þéna mikið gera það af því þeir  sinna mörgum viðskiptavinum. Forstjóri kexframleiðanda sem selur 500 milljón kexkökur á mánuði þénar meira en forstjóri samskonar fyrirtækis sem selur 1 milljón kexkökur á mánuði. 

Að laun séu að jafnast út á Íslandi eru slæm tíðindi fyrir hið íslenska hagkerfi. Jöfn laun þýða jöfn örbirgð allra. Ójöfn laun þýða að í hagkerfinu starfa nokkrir einstaklingar sem sinna miklum fjölda viðskiptavina. Þessir viðskiptavinir sjá ástæðu til að greiða fyrir þjónustu eða varning þessara einstaklinga. Þeir eru því hverrar krónu virði. 

Loks vil ég vara fréttamenn við að tala um að laun "dreifist". Það er orðanotkun sem villir mörgum sýn.  


mbl.is Kaupmáttur svipaður og 2004
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þú færð ekki háa einkun hjá mér fyrir þennan pistil Geir. "Jump to conclusions" er þetta kallað á ensku. Þín megin ályktun er þessi; .....störfum sem skapa mikil verðmæti og borga mjög vel hlýtur að hafa fækkað. En er þetta rétt hjá þér? Þau störf sem skapa mest verðmæti eru í sjávarútvegi, lyfjaiðnaði, ferðamannaiðnaði, "software" hönnun og í framleiðslu á málmum. Hefur þeim fækkað? Nei. Megin ástæðan fyrir þessum breytingum hlýtur að vera gjaldþrot fjármálageirans, þar sem borguð voru ídíótisk há laun fyrir núll vermætasköpun, frekar fyrir sukk og svínarí. Skoðaðu þetta betur. Þá er varasamt að draga ályktanir af stuttri grein úr dagblaði.   

Og að jöfnun launa þýði örbirgð allra, er heimskuleg fullyrðing stuttbuxnastráka í Valhöll. 

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 26.3.2012 kl. 11:15

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Haukur,

Takk fyrir innlegg þitt.

Ég er ekki endilega viss um að störf í ferðamannaiðnaði séu sérstaklega hálaunuð. Einhverjir hafa einmitt talað um slík störf sem lágt launuð þjónustustörf (gengilbeinur, þrif, eldhússtörf).

Hefur störfum í sjávarútvegi fjölgað á Íslandi? Ekki veit ég til þess að lyfjaiðnaðurinn sé búinn að þenjast mikið út á Íslandi þótt eitthvað sé búið að bæta við fólki hjá einu fyrirtæki eða tveimur í þeim bransa.

Og jú auðvitað leiðir útrýming oflauna-bónus-peningaprentunarneytenda-starfa til lækkunar launa, tek raunar fram að ég telji það vera jákvæða þróun.

En almennt sé er jöfnun launa ekki jákvæð þróun fyrir hagkerfi. Og jú ef jöfnun launa á að ganga alla leið, eins og sumir virðast vilja, þá gerist það bara með því að allir lendi á botninum.

Geir Ágústsson, 26.3.2012 kl. 11:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband