Ráðist á einkennin, en ekki orsökina

Ríkisstjórnin er dugleg að slá sjálfa sig til riddara. Núna á að ausa 650 milljónum af lánuðu fé í vasa atvinnu"leitenda". Þannig verða kjör atvinnu"leitenda" vissulega bætt í jólavertíðinni. En atvinnuleysið er ennþá mikið og fer ennþá vaxandi. Það má því segja að ríkisstjórnin sé að setja plástur á blæðandi og banvænt svöðusár, og gefa sjúklingnum verkjalyf til að deyfa sársaukann, á tímum þar sem hún ætti miklu frekar að vera reyna stöðva blæðinguna með sársaukafullum en nauðsynlegum aðgerðum.

Enginn í ríkisstjórninni skilur neitt í hagfræði. Fáir utan hennar á Alþingi skilja hagfræði. Það er hrópandi augljóst. Ríkisstjórnin hefur beðið um geimveruárás til að réttlæta skuldsetningu og hallarekstur á ríkissjóði og fengið hana í formi allskyns "óvina" ríkisins (útlendinga, fjárfesta, þeirra sem skulda of lítið). En geimveruárásir lækna ekki hagkerfi af niðursveiflu, hvað sem Paul Krugman tautar og raular. Hagkerfið sekkur ennþá eins og steinn í vatni. 

Og hvernig á svo að eyða atvinnuleysi og stöðva þannig útgjaldaflóðið úr vösum skattgreiðenda í vasa þeirra sem eru atvinnulausir eða nenna ekki að vinna fyrir minna en sem nemur atvinnuleysisbótunum? Ein leið væri að spóla skattkerfinu til baka um 10 ár og útgjöldum ríkisins til baka um 15 ár (á föstu verðlagi). Það væri hreinlega nóg til að láta ýmislegt gerast. Síðan mætti afnema fjármagnstekjuskattinn, aukaskattinn á sjávarútveginn, lækka tekjuskatt um aukreitis 10% og afnema í leiðinni persónuafsláttinn og reka 90% af eftirlitsmönnum skattsins (þeir væru óþarfi í svo einföldu skattkerfi).

Auðvitað þarf að taka erfiðar pólitískar ákvarðanir til að lækna blæðandi svöðusár. Ríkisstjórninni er ekki treystandi fyrir mörgu, en að forðast erfiðar ákvarðanir? Þar er hægt að treysta á hana - 100%.


mbl.is Atvinnuleitendur fá uppbót
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég tek undir hvert einasta orð sem þú segir hér!

Ásgeir (IP-tala skráð) 22.11.2011 kl. 09:03

2 identicon

Sæll.

Þetta er svosem alveg rétt hjá þér en ég held nú að atvinnulausir séu eitt helsta fórnarlamb þessarar ríkisstjórnar þannig að óþarfi er að þjösnast á þeim. Þeir líða helst fyrir stefnu stjórnvalda. Fjölga mun í hópnum á komandi mánuðum nema enn fleiri landar okkar ákveði að flýja land.

Finna má betri sparnaðarleiðir. Við erum t.d. með 5 sinnum fleiri þingmenn per íbúa en Norðurlandaþjóðirnar en samt er allur þessi þingmannaherskari hér með 77 aðstoðarmenn. Hvað kostar það? Leggja má niður verulegan fjölda ríkisstofnana eins og t.d. Byggðastofnun og Umhverfisstofnun svo fáein dæmi séu tekin. Skerða þarf verulega völd annarra og fækka starfsfólki. Sameina má ráðuneyti undir einum ráðherra og fækka þar með verulega starfsfólki enda erum við ekki risaþjóð. Skera má hraustlega niður í utanríkisráðuneytinu. Svo höfum við auðvitað ekkert við heila 40 hagfræðinga á blússandi launum að gera í Seðlabankanum. FME er nú orðið að risavöxnu skrímsli eins og amx benti nýlega á en getur samt ekki farið eftir lögum. Kannski þyrfti að tvöfalda starfsmannafjölda FME til að þeir gætu farið að þeim lögum sem gilda? Mikill og góður vinskapur virðist vera á milli bankanna og FME.

Hvað kosta aðgerðir LV og þá á ég við að slá af álver á Bakka? Þar tapast milljarðar á milljarða ofan og þúsundir starfa verða ekki til. HA hefur ekki tekið þá ákvörðun upp á eigin spýtur. Sá einhver hann bulla í fréttum Stöðvar tvö um daginn varðandi arðsemiskröfu á fé LV?

Svo á nú að fara að skattleggja orkufreka iðnaðinn svo mikið að Elkem neyðist sennilega til að hætta starfsemi. Sumir eru bara helsáttir við það. 

Ég held að nóg sé að hafa 10% skatt eða svo á tekjur einstaklinga og fyrirtækja og 10% söluskatt líka. Svo þarf auðvitað að segja upp þúsundum opinberra starfsmanna sem nú liggja eins og mara á einkageiranum. Það hefur lítið upp á sig að hamast á atvinnulausum þegar engin atvinnutækifæri eru, hamast má á þeim þegar næga atvinnu er að fá.

Ég held að þetta sé því miður alveg rétt hjá þér með vanþekkinguna á efnahagsmálum. Það er hræðilegt en veruleikinn rennir því miður sterkum stoðum undir þessa skoðun.

Ég held að vandi okkar hérlendis sé að mörgu leyti sá að það er enginn raunverulegur hægri flokkur í boði, hvaða munur er t.d. að Sjöllunum og Samfylkingu? Hann er afskaplega lítill sem segir að nóg er af miðjuflokkum.

Þú hefur verið skeleggur bloggari Geir og ert að mínu mati einn sá besti og hef ég mjög gaman af að lesa þitt blogg. Einnig hefur þú skrifað greinar í blöðin og átt þú lof skilið fyrir þín skrif og þínar tilraunir til að gera okkar samfélag betra. Haltu áfram á sömu braut.

Helgi (IP-tala skráð) 23.11.2011 kl. 22:45

3 Smámynd: Geir Ágústsson

Sæll Helgi,

Takk fyrir innleggið (og hrósið).

Ætlun mín var nú ekki að þjösnast á atvinnulausum þótt sumir í hópi atvinnulausra komi óorði á aðra

Ég geri mér alveg grein fyrir því að atvinnulausir eru í erfiðri stöðu. Ég var atvinnulaus í nokkrar vikur á sínum tíma þegar ég var að flytjast á milli landa og kunni ekki tungumál nýja landsins. Ég var orðinn viðþolslaus af eirðarleysi og pirring eftir 2 vikur og óteljandi umsóknir.

Og ég skil alveg að ráðvillt ríkisstjórnin sjái ekki hvað er að hagkerfinu. Þar kann ekki nokkur maður hagfræði. Lausn þeirra er því sú að gera atvinnuleysið bærilegra. Rangt meðal við alvarlegum sjúkdómi, en verkjastillandi engu að síður. Morfínið virkar á sársaukann þótt það drepi ekki krabbameinið.

Og já sammála því að það er vægast sagt mikið svigrúm til að skera fitu af ríkisófreskjunni sem ætlar allt að drepa. 

Geir Ágústsson, 24.11.2011 kl. 07:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband