Loftslagsvísindin í mjög stuttu máli

Ég stenst ekki að birta hér eftirfarandi texta sem segir í mjög stuttu og skýru máli frá því hvað menn eru að tala um og deila um þegar talað er um að hitt og þetta hafi áhrif á hitastigið í lofthjúpi Jarðar - textinn er tekinn af bloggsíðu Ágústar H. Bjarnasonar (athugasemd dagsett 15.7.2010 kl. 08:49):

************************************

Sæll Svatli.

Eins og þú veist að þá er ekki hægt að sanna vísindalega neinar kenningar, hvort sem kenningarnar eru hluti af trúarbrögðum eða vísindalegar kenningar, til dæmis lögmál varmafræðinnar eða kenningar Einsteins. Það er aðeins í stærðfræði sem hugtakið "sönnun" hefur þá merkingu sem margir vilja eigna öllum vísindum.

Um loftslagsvísindin gildir auðvitað sama og í öðrum vísindum; menn setja fram kenningu og framkvæma síðan tilraunir til að staðfesta þær eða ekki. Taki nú af einhverjum ástæðum upp á að kólna, þá sannar það nákvæmlega ekkert að sólin eigi þar  hlut að máli. Ástæðan gæti verið einhver önnur.

Ástæðan fyrir breytingum í lofthita geta verið nokkrar. Við getum flokkað þær á ýmsan hátt. Til dæmis svona:

1) Losun manna á CO2.
 
2) Losun manna á loftbornum ögnum (areosols).
 
3) Áhrif sem koma utanfrá. Þar er sólin líklegasti áhrifavaldurinn. Gæti hugsanlega einnig verið eitthvað annað, t.d. skyndileg breyting í styrk geimgeisla, þ.e. breyting sem stafar ekki af áhrifum sólar (supernova?). Þetta eru ytri áhrifavaldar.

4) Langtíma sveiflur í hafinu, þ.e. sveiflur sem ná yfir nokkra áratugi. Lengri sveiflur en t.d. El-Nino. Þetta eru innri sveiflur í kerfinu.

5) Ýmsar skammtíma sveiflur sem stafa að skammtímafyrirbærum eins og eldgosum, El-Nino/La-Nina, ...

Allar þessar sveiflur leggjast síðan saman. Sumar til hækkunar hitastigs og aðrar til lækkunar. Afturverkun af ýmsum toga flækir málið svo enn meira. Auk þess getur verið samspil milli fyrirbæranna, þó svo þau virðist óháð við fyrstu sýn. Við getum t.d. hugsað okkur að áratugasveiflur í sólinni séu í svipuðum takti og áratugasveiflur í hafinu. Sólin gæti þá örvað sveifluvakann í hafinu, en samsvarandi fyrirbæri eru vel þekkt.

Þetta þýðir að hvort sem það hlýnar, kólnar, eða þá að hitinn stendur að mestu í stað á næstu áratugum, þá getum við enn sem komið er ekki sagt með nokkurri vissu hver orsakavaldurinn er. Líklegast er  hann eitthvað flókið sambland af þessu öllu saman.

Taki nú upp á að kólna eitthvað á næstu áratugum, og ef virkni sólar verður áfram í þeirri lægð sem hún núna er, og ef þetta verður þrátt fyrir aukna losun manna á CO2, þá verður það ef til vill til þess að menn beini sjónum sínum í meira magni að öðrum þáttum eins og virkni sólar, áratugasveiflum í hafinu, o.s.frv.

Það sem stendur upp úr, finnst mér, er að nú er að gefast gullið tækifæri til að kanna hve  mikill þáttur sólar er miðað við aðra áhrifavalda, þ.e. CO2, hafsins, og etv. fleiri. Stóra ellipsan á myndinni með íslenska textanum átti að gefa þetta til kynna. Lendi punkturinn vegna meðalhita næsta áratugar ofarlega í ellipsunni, þá gætum við ályktað að áhrif CO2 séu mikil, en lendi punkturinn neðarlega gætum við ályktað að þáttur sólar (etv. ásamt innri breytingum í kerfinu) sé töluverður miðað við áhrif CO2. Við getum bara ályktað, ekki verið viss.

Þetta eru þó allt vangaveltur sem sanna ekki neitt, enda er ekki hægt að sanna neitt í vísindum. Við getum þó leyft okkur að draga ályktanir, vega og meta. Smám saman á þó vonandi skilningur okkar á þessu mjög flókna samhengi eftir að aukast. Þess vegna er mjög mikilvægt að skoða alla þætti málsins með opnum hug, forðast fordóma og vinna saman. Eyða ekki kröftum og þreki í tilgangslausar deilur og hártoganir, eins  og því miður raunin hefur verið í loftslagsmálunum. Það kemur að því að mönnum fer að leiðast ógurlega og nenna ekki að standa í þessu lengur. Finna sér annan vettvang. Það kemur auðvitað niður á vísindunum.

************************************

Heimasíða höfundar.

Vil svo bæta því við að lokum að þegar vísindamaður þykist hafa greitt úr allri flækjunni sem lýst er hér að ofan, þá þykir mér hann vera ansi sjálfsöruggur!


mbl.is Ísjakinn hluti af eðlilegri bráðnun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Ég hef svarað sambærilegum athugasemdum frá Ágústi á loftslagsblogginu og þó margt af því sem kemur þarna fram sé óvitlaust, þá skal það tekið fram að vísindamenn hafa skoðað þetta ítrekað í fjölmörgum ritrýndum greinum og skýrslum (þar á meðal IPCC). Þannig að pælingar Ágústar eru ekki nýjar - aftur á móti gefur Ágúst sér að þáttur sólarinnar sé það mikill að möguleiki sé á kólnun á næstu áratugum - það er út í hött.

En hér fyrir neðan eru svör mín til hans samhengið má sjá á loftslagsblogginu:

-----

Samkvæmt IPCC þá er skiptingin svona yfir helstu áhrifaþætti loftslagsbreytinga frá 1750 til dagsins í dag (2006-2007 væntanlega):

Þrátt fyrir að Sólin eigi einhvern þátt í hlýnuninni frá því á Litlu Ísöld, þá er hún lítil miðað við þátt gróðurhúsalofttegunda. Það sést sérstaklega vel ef skoðaðar eru breytingar í sólvirkni til dagsins í dag borið saman við hitabreytingar:

------

Á loftslag.is er færsla sem sýnir breytingu í geislunarbúskap síðustu aldar sem gæti útskýrt helstu áhrifaþættina (sjá Af hverju kólnaði um miðja síðustu öld?), þar er t.d. þessi mynd:

Þegar þessir þættir eru lagðir saman og bornir saman við hitabreytingu síðustu aldar fæst þessi mynd:

Mér finnst þetta nokkuð borðleggjandi, þótt vissulega sé verið að ofmeta t.d. þátt stórra eldgosa til kólnunar þegar þau verða.

-----

Ágúst: Hefurðu eitthvað til að styðja skoðun þína um að það geti komið kuldakast og hversu alvarlegt myndirðu telja það verða (gott væri ef þú myndir vitna í einhverjar áreiðanlegar rannsóknir).

Ég get bent þér á færslu á loftslag.is þar sem því er vísað á bug að kuldakast sé yfirvofandi - sjá Lítil ísöld eða kuldaskeið er á næsta leiti.

Frá mínum bæjardyrum séð eru því pælingar þínar um hvort sé verra kuldinn (sem ekki getur komið) eða loftslagsbreytingarnar (sem eru fyrirsjáanlegar) rökvilla og til að afvegaleiða umræðuna.

-----

P.S. þegar ég segi að það sé ekki í spilunum að það kólni, þá er ég að tala um næstu þúsund ár eða svo og ég er að tala um kólnun sem gæti orðið ansi óþægileg - þ.e. kólnun sambærileg við Litlu Ísöldina eða þaðan af verra. T.d. er kuldaskeið ísaldar ekki í kortunum næstu 50 þúsund ár, þrátt fyrir að dregið verði úr losun CO2 niður í núll á næstu áratugum. Sjá aftur Lítil ísöld eða kuldaskeið er á næsta leiti en þar er farið ítarlega í gegnum ýmsar rannsóknir sem sýna fram á þetta.

-----

Höskuldur Búi Jónsson, 12.8.2010 kl. 10:03

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Mér sýnist vera búið að stilla upp í ansi spennandi "glímu" sem verður útkljáð á næstu 5-10 árum: Nýtt sólarlágmark á leiðinni og CO2 heldur áfram að aukast í andrúmsloftinu - hvor vinnur hitastigsferilinn?

Við ættum öll að halla okkur róleg aftur og fylgjast með þessari glímu klárast og skoða svo málin eftir á. Til dæmis hvort við ætlum virkilega að hella sandi í orkuframleiðslu heimsins og þar með lífskjör jarðarbúa. 

Geir Ágústsson, 12.8.2010 kl. 10:21

3 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Niðursveiflan í sólinni undanfarna áratugi hefur haft lítið að segja og nú er svo komið að sólin er í sínum lægsta fasa í næstum 100 ár - samt er mögulegt að þetta ár verði það heitasta frá upphafi mælinga (og heitara en síðastliðin nokkur þúsund ár ef marka má óbeinar mælingar). Áhrif gróðurhúsalofttegunda yfirgnæfa áhrif sveifla í sólinni (eins og sést á myndunum sem ég sendi hér fyrir ofan).

Að bíða með lausnina gerir vandamálið stærra og lausnina erfiðari. Geir, ég er viss um að þú og félagar þínir í frjálshyggjuflokknum væruð betur settir með að vera þáttur í lausninni - frekar en að bíða á hliðarlínunni.

Höskuldur Búi Jónsson, 12.8.2010 kl. 10:42

4 Smámynd: Geir Ágústsson

Höski,

Hér er hugmynd að lausn í vopnabúr þeirra sem sjá eintómar slæmar fréttir í aukningu CO2 í andrúmsloftinu: Gefa opið borunarleyfi á svæði þar sem líklegt er að mikil olía og mikið gas sé að finna. Aukið framboð mun draga úr aukningu kolabrennslu í heiminum (sérstaklega í Kína) og þannig má "spara" ógrynni af CO2-sameindum án þess að gera atlögu að orkuframleiðslu Jarðarbúa.

Ég fagna hækkandi hitastigi. Megi sauðfé enn á ný dafna á Grænlandi (eins og í tíð Eiríks rauða) og korn enn á ný verða sáð víðar á Íslandi en undir Eyjafjallajökli. 

Geir Ágústsson, 12.8.2010 kl. 11:01

5 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Úps - ég var búinn að gleyma að þú sérð aðeins kostina sem gætu hugsanlega verið samhliða þessum hlýindum fyrir okkur á Norðurslóðum, en ekki þær slæmu afleiðingar sem þetta mun hafa fyrir hina miljarðana...

Höskuldur Búi Jónsson, 12.8.2010 kl. 12:52

6 Smámynd: Geir Ágústsson

Hlýindaskeið hafa venjulega fært með sér miklar framfarir fyrir lífskjör manna þar sem þeir hafa fengið notið þeirra. Það að kristalkúla þeirra sem sjá eintómar hörmundar í hærra hitastigi spái einhverju öðru en sögulegri reynslu get ég ekki útskýrt.

Geir Ágústsson, 12.8.2010 kl. 13:06

7 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Geir, þú mannst bara að segja með sjálfum þér þegar sjávarstaðan hækkar og súrnun sjávar byrjar að hafa einhver áhrif..."öll hlýindaskeið færa framfarir" - vonandi er það þó rétt og við getum hafist handa við að nota núverandi hlýindaskeið í að leita lausna (eru það ekki framfarir?) til að ekki verði of alvarlegar afleiðingar af hlýnun jarðar í framtíðinni. Hitastig er nú þegar komið fram hitastigi þeirra tímabila þegar helstu framfarir mannkyns áttu sér stað. Sumir telja meira að segja að hægt sé að rekja hörmungarnar í Moskvu til hlýnandi loftslags (þó alltaf sé erfitt að nota einstaka atburði sem vísbendingu í þá átt).

Annars er ég bjartsýnn á að hægt sé að finna lausnir (framfarir) í takt við það sem rannsóknir vísindamanna benda til að sé í gangi og telji að þurfi að gera til að draga úr áhrifunum, þó ég efist stundum þegar ég les texta fólks sem vill bara bora eftir allri olíu í heiminum og telji að það muni á einhvern undarlegan hátt redda málinu...

PS. Vísindamenn nota ekki kristalkúlur, þó þú teljir greinilega svo vera...heldur eru vísindi byggð á rannsóknum og mælingum gerðar með vísindalegum aðferðum.

Sveinn Atli Gunnarsson, 12.8.2010 kl. 13:43

8 Smámynd: Geir Ágústsson

The remedy against air pollution is therefore crystal clear, and it has nothing to do with multibillion-dollar palliative government programs at the expense of the taxpayers which do not even meet the real issue. The remedy is simply for the courts to return to their function of defending person and property rights against invasion, and therefore to enjoin anyone from injecting pollutants into the air.

...segir hér og undir það tek ég. Og hvað með þá sem geta ekki rakið áhrif tiltekinnar loft"mengunar"á tiltekin eigna- eða heilsuspjöll? Þeir þurfa bara að bíta í það súra epli að hafa ekki nægilega sterkan málstað til að fá að beita ofbeldi.

Þau hafa verið mörg bareflin sem andstæðingar hins frjálsa og óbundna markaðar hafa beitt. Ég óttast að "loftslagshlýnun" sé fyrir löngu orðin eitt slíkra og hafi raunar verið það síðan M. Thatcher setti fyrstu opinberu krónurnar í "loftslagsvísindi" til að grafa undan mikilvægi kolavinnslu í Bretlandi (hún vildi kjarnorkuver).

Og þess vegna ætla ég að vera mjög vantrúaður á heimsendi og/eða heimshörmungar í anda Malthusar "ef við gerum ekki eitthvað núna strax". Því ef ég gef eftir þá kemur vöndur hins opinbera fljótlega á eftir mér. Og þess vegna má hlýna eða kólna fyrir mér á meðan hagvexti er greidd leiðin, því betur aðlagast ríkur maður að veðrinu en fátækur.

Geir Ágústsson, 12.8.2010 kl. 13:56

9 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Hver var að tala um heimsendi eða ofbeldi?

Þegar þú finnur einhverjar vísindagreinar í stað pólitísks áróðurs sem styðja mál þitt, þá skal ég ræða þetta frekar við þig. Þangað til, vertu sæll og endurtaktu með sjálfum þér "öll hlýindaskeið færa framfarir" og vonaðu það besta ;)

Sveinn Atli Gunnarsson, 12.8.2010 kl. 14:05

10 Smámynd: Geir Ágústsson

Scientism is the idea that natural science is the most authoritative worldview or aspect of human education, and that it is superior to all other interpretations of life.

 http://en.wikipedia.org/wiki/Scientism

Geir Ágústsson, 12.8.2010 kl. 14:18

11 Smámynd: Geir Ágústsson

"olli miklum útdauða"

"nálgast hættumörk"

"hætt við hruni vistkerfa"

"mikil áhrif á vistkerfið í heild"

Ég þurfti ekki að leita langt til að finna lýsingar sem eiga jafnvel heima í Opinberunarbókinni. 

Geir Ágústsson, 12.8.2010 kl. 14:33

12 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Þú hefur að sjálfsögðu hunsað kaflann um lausnirnar:

Eina fyrirsjáanlega lausnin til að stöðva súrnun sjávar er minnkandi losun á CO2 út í andrúmsloftið. Aðrar lausnir sem gætu virkað væri einhvers konar binding CO2.

Samkvæmt þínum bókum (opinberunarbókinn, hvað kemur hún þessu máli við?) má ekki segja frá hættunni fyrir vistkerfin (sem vísindamenn eru að rannsaka), en það má halda þvi fram að engin hætta sé á að vandamálið sé til staðar þó ekki séu nein sérstök gögn sem styðja það!

Endurtaktu með sjálfum þér "öll hlýindaskeið færa framfarir" og vonaðu það besta ;)

PS. Takk fyrir tengilinn :)

Sveinn Atli Gunnarsson, 12.8.2010 kl. 14:52

13 Smámynd: Geir Ágústsson

Það er nú ekki hægt að endurtaka eitthvað sem maður sagði aldrei. Held mig bara við: "Hlýindaskeið hafa venjulega fært með sér miklar framfarir fyrir lífskjör manna þar sem þeir hafa fengið notið þeirra."

Svo er alveg sjálfsagt að segja frá hugsanlegum afleiðingum hugsanlegra röð atburða. Hér er dæmi:

Ef Vesturlönd hefja stórsókn gegn losun CO2 eða aukningu þar á (t.d. í gegnum boð og bönn, skattkerfið eða frystingu á uppbyggingu orkuframleiðslu með notkun vinsælustu orkugjafanna í dag), í núverandi landslagi tækni og orkuaðgengis, þá mun það hafa í för með sér stórkostleg og neikvæð áhrif á lífskjör alls almennings fyrir óverulegan "ávinning" fyrir hitastig andrúmsloftsins (er ekki venjulega talað um einhverjar kommur á 50 árum?).

Geir Ágústsson, 12.8.2010 kl. 14:57

14 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Geir: Málflutningur þinn lyktar um of af einhverri pólitík til að hægt sé að rökræða við þig og ætlaði ég að láta staðar numið eftir síðustu athugasemd mína - en varðandi athugasemdina frá 14:33, þá verð ég að koma með athugasemd því sá texti (fyrir utan beinar tilvitnanir) er skrifaðar af mér.

"olli miklum útdauða"

Hér er vísað í súrnun sjávar sem varð fyrir um 55 miljónum árum síðan og olli vissulega miklum útdauða - eða tekurðu ekki mark á setlagarannsóknum? Súrnun sjávar í dag er margfallt hraðari en þá.

"nálgast hættumörk"

Útreikningar miðað við núverandi losun benda vissulega til þess að súrnun sjávar fari að nálgast hættumörk fyrir nokkrar lykillífverur sjávar árið 2030, eins og kemur fram í textanum.

"hætt við hruni vistkerfa" og "mikil áhrif á vistkerfið í heild"

Þetta eru engin vúdúvísindi, meiri súrnun sjávar hefur áhrif á grunnstoðir lífríkis sjávar og þá er "hætt við hruni vistkerfa" og það hefur "mikil áhrif á vistkerfið í heild". Seinni tilvitnunin er raunar bein tilvitnun í okkar fremsta haffræðing Jón Ólafsson. 

Um súrnun sjávar má lesa fleiri færslur á loftslag.is: Súrnun sjávar

Höskuldur Búi Jónsson, 12.8.2010 kl. 15:14

15 Smámynd: Geir Ágústsson

Ég væri sennilega minna á varðbergi gagnvart pólitískum refsivendi ef þeir sem tala um að "aðgerða sé þörf" í loftslagsmálum tækju skýrt fram að þeir eru ekki að biðla til stjórnmálamanna um að siga ríkisvaldinu á fólk og fyrirtæki, heldur að biðja fólk og fyrirtæki um að taka á sig lífskjara- og tekjuskerðingar á eigin frumkvæði, og eigin reikning.

Geir Ágústsson, 12.8.2010 kl. 15:24

16 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Fyrir mér er þetta langtíma takmark, sem hefst með ákveðinni hugsanabreytingu. Geir, þú gefur þér að við þurfum að klára öll heimsins vandamál frá degi til dags og þ.a.l. kemstu að einkennilegum niðurstöðum eins og t.d. að einungis komi til greina skattheimta sem mun eyðileggja hagkerfi heimsins (í hvernig standi eru þau annars?) frá degi til dags. Það vantar öll blæbrigði í umræðuna ef við hugsum þetta svona, þetta er ekki svart eða hvítt um að við verðum að stöðva hagkerfi heimsins til að ná árangri eða að heimurinn muni farast ef ekkert er að gert. Þetta er spurning um að huga að lausnunum út frá þeirri þekkingu sem til er og það þarf í sjálfu sér ekki að vera óyfirstíganlegt þegar til lengri tíma er litið. Það eru til einhverjar rannsóknir sem benda til þess að hugsanlega muni draga eitthvað örlítið úr hagvexti (sem er ekki það sama og hagkerfin hrynji eins og þú gefur þér). Annað er að það felast einhver störf og hagnaður í því að fara aðrar leiðir, en að einblína á jarðefnabrennslu við að draga áfram hagkerfin (sem við vitum að er ósjálfbært eins og notkunin er í dag).

Það má kannski orða þetta svo að til að hægt sé að draga nógu mikið úr losun til að koma í veg fyrir alvarlegustu afleiðingar loftslagsbreytinga, þá er mikilvægt að við byrjum strax að huga að lausnunum í stað þess að bíða. Það mun taka tíma, enda er oft talað um að það þurfi að ná ákveðnum takmörkum fyrir miðja öld og öðrum síðar í sambandi við losun koldíoxíðs (fyrir utan svo að einhverjar kommur, eins og þú orðar þetta, geta orðið að enn fleiri kommum til lengri tíma séð). Því fyrr sem við byrjum að huga að lausnum (sem felast ekki í öfgafullum boðum og bönnum eins og þú nefnir), því fyrr náum við árangri til framtíðar. Ég er t.d. ekki hættur að nota bílinn minn, en væri alveg til í að huga að öðrum lausnum næst þegar ég kaupi bíl. Það er einmitt það sem gerist við t.d. aukið upplýsingaflæði varðandi þessi mál. Þannig munum við neytendur m.a. velja lausnir sem eru hagkvæmar fyrir umhverfið...sem eru náttúrulega bara markaðsöflin að störfum er það ekki ;)

En munum að umræðan er ekki svört eða hvít, höfum smá blæbrigði þar á.

Að skjóta of hátt er jafn vitlaust og að skjóta of lágt - Confucius

PS. Endurtaktu með sjálfum þér "Hlýindaskeið hafa venjulega fært með sér miklar framfarir fyrir lífskjör manna þar sem þeir hafa fengið notið þeirra." og vonaðu hið besta ;)

Sveinn Atli Gunnarsson, 12.8.2010 kl. 15:26

17 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Geir: Ég held ég sé búinn að finna ástæða þess að þín skoðun er þessi (og leiðréttu mig ef ég fer rangt með þína skoðun):

  • Þú telur líklegt að menn eigi enga sök á hlýnuninni og finnst jafn líklegt að það fari að kólna - þvert gegn því sem vísindin segja.
  • Þú ert mjög sáttur við að það hlýni og tekur ekki undir aðvaranir vísindamanna um alvarleika loftslagsbreytinga.
  • Að sama bragði finnst þér líklegt að hlýnun sé góð, af því að hlýindaskeið til forna voru góð - þrátt fyrir að rannsóknir vísindamanna bendi til að nú þegar sé orðið heitara ef ekki jafn heitt og þegar heitast var á nútíma (þegar samfélög manna tóku að þróast) - og að hitinn (ásamt öðrum loftslagsbreytingum) eigi eftir að aukast.

Ástæðuna tel ég finna í því að þú ert ekki sáttur við þær lausnir sem menn hafa reynt að finna - af því að það stríðir gegn pólitískum skoðunum þínum. Því legg ég til að í stað þess að nota pólitík til að rökræða um loftslagsmál þá skoðir þú hvað rannsóknir og mæligögn segja - þá ættirðu að sjá, með því að nota rökhugsun (ekki tilfinningu) að það verður að bregðast við vandamálinu. Ég endurtek síðan:

Að bíða með lausnina gerir vandamálið stærra og lausnina erfiðari. Geir, ég er viss um að þú og félagar þínir í frjálshyggjuflokknum væruð betur settir með að vera þáttur í lausninni - frekar en að bíða á hliðarlínunni.

Það eru fjölmargir sem gera sér ekki grein fyrir vandanum eins og sést kannski best í þínum skrifum - hvernig ætlastu til þess að hægt sé "að biðja fólk og fyrirtæki um að taka á sig lífskjara- og tekjuskerðingar á eigin frumkvæði, og eigin reikning. " á meðan nokkuð stór hluti fólk gerir sér ekki grein fyrir vandanum og vantreystir bestu upplýsingunum þar um?

Ég veit ekki hvaða dæmi er best til að lýsa þessu - kannski fjögurra manna fjölskylda þar sem tveir í fjölskyldunni ákveða að hleypa hinum ekki út úr brennandi húsi - af því að sófinn er svo þægilegur.

Höskuldur Búi Jónsson, 12.8.2010 kl. 16:12

18 Smámynd: Geir Ágústsson

  • Ég er vantrúaður á meint og mikil áhrif manna á hitastig loftslagsins, og já þrátt fyrir að "vísindin" (í meðförum margra vísindamanna) segi þau mikil
  • Ég hef efasemdir um hræðilegar afleiðingar hlýnunar
  • Ég sé meiri hættu í tilraunum til að ráðast að CO2-losun manna en afleiðingum sömu CO2-losunar. Menn meira að segja farnir að tala um að skattleggja heimsbyggðina til einhverrar "óháðrar" og yfirþjóðlegrar stofnunar með framkvæmdavald innan ríkja, jeminn eini
  • Það er margt mikilvægara en að reyna koma í veg fyrir veðurfarsbreytingar, t.d. að undirbúa mannkynið undir veðurfarsbreytingar því þær munum við jú aldrei losna við. Til dæmis með því að gera alla nógu ríka til að geta keypt sér úlpu ef kólnar og loftræstitæki ef það hitnar

Geir Ágústsson, 12.8.2010 kl. 17:13

19 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Vonandi hjálpar úlpan þeim ef sjávarborð hækkar...kannski við ættum að gefa sjávarlífverunum úlpu líka, gæti varið þau fyrir hugsanlegum áhrifum súrnunar sjávar...

Þú segist vera vantrúaður á vísindin...það er allavega augljóst af þínum málflutningi hérna, þar sem þú vísar ekki í nein gögn máli þínu til stuðnings...

Hafðu það sem best í afneituninni - það verða þá aðrir til þess að taka þátt í að leita lausna, það eru alvöru framfarir og framþróun fólgnar í því :)

PS. Raulaðu með sjálfum þér "Hlýindaskeið hafa venjulega fært með sér miklar framfarir fyrir lífskjör manna þar sem þeir hafa fengið notið þeirra - [og] alla nógu ríka til að geta keypt sér úlpu ef kólnar" og vonaðu svo hið besta ;)

Sveinn Atli Gunnarsson, 12.8.2010 kl. 17:41

20 Smámynd: Geir Ágústsson

Frá árinu 2001: "Unless we take drastic action--and soon--global warming threatens to plunge the world into a series of climatic crises."

http://www.sierraclub.org/sierra/200105/globalwarm.asp

Hef ekki fundið fyrir auknu stressi síðan þetta var skrifað fyrir nærri 10 árum síðan.

Geir Ágústsson, 13.8.2010 kl. 09:14

21 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Það er erfitt að finna fyrir þessu aukna "stressi" (eins og þú velur að orða það) frá degi til dags, en þó er hitastigið núna í hæstu hæðum og síðustu 12 mánuðir eru þeir heitustu síðan mælingar hófust (sumir myndu reyndar segja að hægt sé að sjá "stressið" á t.d. hitabylgjunni í Moskvu). Það vill nú svo til að loftslag breytist hægt og sjávarborð hækkar rólega og það eru alltaf einhverjar náttúrulegar sveiflur sem geta falið (eða aukið) undirliggjandi leitni, þannig að þó þú horfir út um gluggann með þína pólitísku sýn (á aðeins 9 ára tímabili), þá er ekki víst að þú munir sjá nokkuð (hugsanlega eða sérstaklega vegna þess sem þú velur að sjá). En vegna þessara hægu breytinga, þá er það varhugavert að bíða bara og vona hið besta.

Það virðist sem þú búir í heimi ævintýrasýndarveruleika byggðan á gervigreindarfrjálshyggju þar sem vísindi eru samsæri komúnista til að koma í veg fyrir að þú getir lifað eðlilegu lífi sökum samsærisskattheimtu einhverra loftslagsyfirpresta, sem væntanlega eru með Al Gore fremstan í flokki.

Sveinn Atli Gunnarsson, 13.8.2010 kl. 09:56

22 Smámynd: Geir Ágústsson

Hvað finnst þér um hugmyndina um alþjóðlegan umhverfisdómstól með framkvæmdavald innan ríkja?

http://www.environmentcourt.com/objectives.php

Samsæriskenningar eru óþarfar. Menn eru nú þegar að leggja til alþjóðlega skatta (td. SÞ-skatt, ESB-skatt) og stofnanir með meiri völd en einstaka ríkisstjórnir innan ríkja. Og allt í nafni loftslagsins. 

Og allt þetta því það hefur einfaldlega ekki tekist ennþá að byggja upp neinn málstað fyrir "aðgerðum" gegn "losurum" sem stenst venjulegar reglur dómsalsins um sönnunarbyrði. Því ef svo væri, þá væri væntanlega búið að höfða einhvers konar CO2-losunar mál gegn einhverjum, einhvers staðar. Og þótt vísindamenn kinki kolli hver til annars þá gerir venjulegt fólk kröfu um sönnunarbyrði sem er meiri en bara "almennt samþykki" eða "viðtekin skoðun".

Geir Ágústsson, 13.8.2010 kl. 11:22

23 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Óttalega er þetta undarleg rök hjá þér... Byrfar á að klippa og líma texta frá Ágústi H. Bjarnasyni, þar sem hann segir m.a. "...ekki hægt að sanna neitt í vísindum", en ætlast svo á sama tíma til þess að einhver "sönnunarbyrði" sé sett fram fyrir loftslagsbreytingum svo þú viljir taka mark á vísindunum (sem btw. eru full af vísbendingum, mælingum og rannsóknum sem vísa til þess að loftslagsbreytingar eigi sér stað og það af mannavöldum). Ef við bíðum eftir "sönnuninni" út í hið óendanlega (enda ekki hægt að sanna neitt í vísindum...eða hvað?), þá verður aldrei neitt að gert...það passar gervigreindarfrjálshyggjunni sjálfsagt ágætlega...

Sveinn Atli Gunnarsson, 13.8.2010 kl. 11:32

24 Smámynd: Geir Ágústsson

Sönnun í lögfræðilegum skilningi er ekki stærðfræðileg eða eiginleg sönnun sem Ágúst talar um. Sönnun í lögfræðilegum skilningi er einfaldlega sönnun sem nægir til að sannfæra venjulegt, hugsandi fólk (t.d. í stóli dómara eða kviðdómanda) um að ekki sé "reasonable doubt" (eða álíka hugtak) á málstað sækjanda. Og er "reasonable doubt" á málstað mannvaldandi CO2-hitunarinnar? Amk þar til annað kemur í ljós, þá gjarnan í réttarsal. 

Wiki um lögfræðilega skilninginn: "This is the standard required by the prosecution in most criminal cases within an adversarial system and is the highest level of burden of persuasion. This means that the proposition being presented by the government must be proven to the extent that there is no "reasonable doubt" in the mind of a reasonable person that the defendant is guilty. There can still be a doubt, but only to the extent that it would not affect a "reasonable person's" belief that the defendant is guilty. If the doubt that is raised does affect a "reasonable person's" belief that the defendant is guilty, the jury is not satisfied beyond a "reasonable doubt". The precise meaning of words such as "reasonable" and "doubt" are usually defined within jurisprudence of the applicable country."

Annars er það auðvitað svo að maðurinn hefur áhrif á umhverfi sitt með athöfnum sínum og því neita ég ekki og hef aldrei gert og efast um að nokkur geri. En ávinningur þessara athafna er slíkur að ég sé menn miklu frekar byggja varnargarða til að verja lífsgæði sín en að kasta þeim frá sér. 

Geir Ágústsson, 13.8.2010 kl. 12:13

25 Smámynd: Geir Ágústsson

Ætti frekar að segja: Og er "reasonable doubt" á málstað mannvaldandi CO2-hitunarinnar og því að hún valdi skaða á eignum og mannverum í mæli sem gæti talist saknæmur eða meiri en það sem náttúran býður upp á ein og sér? Amk þar til annað kemur í ljós, þá gjarnan í réttarsal

Geir Ágústsson, 13.8.2010 kl. 12:21

26 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Þú segir sjálfur:

Og þótt vísindamenn kinki kolli hver til annars þá gerir venjulegt fólk kröfu um sönnunarbyrði sem er meiri en bara "almennt samþykki" eða "viðtekin skoðun".

Þarna ertu ekki að mínu mati að tala um lögfræðilegt hugtak.

Þetta er leiðigjarnt þras, þar sem þú afvísar vísindalegum rannsóknum með pólitískri veraldarsýn sem hefur ekkert með þær rannsóknir og mælingar sem eiga sér stað á meðal vísindamanna að gera... En eigðu góðan dag og hafðu það sem allra best í rökheimi þinna eigin pólitísku hugmynda um náttúruvísindi og loftslagsvísindi.

PS. Vísindamenn kinka ekki hvor til annars (með skýrskotun í almennt samþykki eða viðtekna skoðun), heldur eru það rannsóknir, mælingar og aðrar vísbendingar sem liggja að baki þeirra rökum, þannig að það eru gögn sem liggja að baki.

Sveinn Atli Gunnarsson, 13.8.2010 kl. 12:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband